Allt komið á fullt í Litlu hryllingsbúðinni
Æfingar á Litlu hryllingsbúðinni eru nú komnar í fullan gang undir stjórn leikstjórans, Birnu Pétursdóttur. Og sannarlega þarf að nýta tímann vel því frumsýning er áætluð 21. október í Samkomuhúsinu. Í síðustu viku mættu um þrjátíu manns í prufur fyrir hlutverk í sýningunni – þar sem bæði leik- og sönghæfileikar þátttakenda voru metnir. Í framhaldinu var valið í hlutverk í sýningunni og fyrsti samlestur var sl. laugardag. Hér má sjá mynd sem Pétur Guðjónsson tók á fyrsta samlestri af leikurum, leikstjóra, stjórn og þeim Hörpu Birgis og Soffíu Hafþórs, sem koma til með að hafa yfirumsjón með hárgreiðslu og förðun.
Sem fyrr segir er Birna Pétursdóttir leikstjóri sýningarinnar og er Sara Rós hennar hægri hönd. Með hlutverk Auðar og Baldurs fara Fanney Edda og Sindri Snær. Með hlutverk Músnikks blómasala og Orins tannlæknis fara þeir Jón Stefán og Steinar Logi, Krystall, Shiffon og Ronnettu túlka þær Særún Elma, Vala Rún og Jara Sól, Auður 2 (plöntuna) túlkar Ari Rúnar og Þórunn Ósk og Mateusz fara með ýmis hlutverk.