Matreiddu dýrindis þriggja rétta máltíð í verklegu prófi
Í gær þreyttu sjö nemendur í áfanganum MAT107E í VMA verklegt lokapróf. Í fyrsta skipti sem slíkt próf er lagt fyrir nemendur á Akureyri, enda er þetta fyrsti hópur nemenda í VMA sem er í námi til fullgildra matreiðsluréttinda og jafnframt er þetta í fyrsta skipti sem námið er í boði utan suðvesturhornsins.
Prófið hófst klukkan 10 í gærmorgun í eldhúsi VMA og voru nemendur að allan daginn. Það kom síðan í hlut prófdómaranna Haraldar Más Péturssonar og Ara Hallgrímssonar að bragða á hinum dýrindis réttum sem nemendur elduðu í prófinu.
Nemendur vissu þegar þeir komu í prófið hvert yrði meginstefið í því, þeir ættu að glíma við lax í forrétt, fylltan lambahrygg í aðalrétt og súkkulaði soufflée og ís í eftirrétt. Síðan var það alfarið nemendanna að útfæra sína eigin matseðla.
Síðastliðinn mánudag, þremur dögum fyrir próf, bar nemendum að skila til Valdemars Pálssonar kennara matseðlum og hráefnalista með magntölum þannig að allt hráefni væri á staðnum þegar þeir síðan kæmu í prófið í gærmorgun. Áður en prófið hófst þurftu nemendur að skila af sér hefti með m.a. uppsettum matseðli með nöfnum réttanna og matreiðsluaðferðum, pöntunarlista, vinnulista í tímaröð og uppskriftum af þeim mat sem síðan endaði á diskunum.
Forrétti þurftu nemendur að skila af sér um kl. 18, aðalrétti tuttugu mínútum síðar og eftirrétti tæpri klukkustund eftir að þeir skiluðu af sér forréttinum. Forréttirnir voru eins og vera ber í allskonar útgáfum. Hér eru dæmi um aðalréttinn og hér má sjá fjölbreyttar útgáfur af eftirréttinum.
Nemendum var gert að elda hvern rétt fyrir fjóra; tvo gesti, einn diskur var fyrir myndatöku og sá fjórði fyrir svokallað blindsmakk dómara. Þetta var stíf törn fyrir nemendur og þurftu þeir að standast tímamörk. Blindsmakk þýðir með öðrum orðum að dómarar höfðu ekki vitneskju um hvaða nemandi hafði eldað hvern rétt sem þeir smökkuðu.
Og eftir hverju var síðan farið við einkunnagjöfina í prófinu? Blindsmakk á samsetningu og tónum í bragði hafði 60% vægi einkunnar, umgengni og frágangur í eldhúsi á meðan á prófi stóð og eftir það hafði 15% vægi, framsetning matar á diskum gilti 15% og vægi vinnulista eða vinnubókar var 10%.
Gaman var að sjá hversu fumlaust og ákveðið nemendur gengu til verks í eldhúsinu, enda eru þeir allir bærilega vel sjóaðir í eldamennsku frá þeim veitingastöðum þar sem þeir starfa. Það var líka ánægjulegt að fylgjast með nemendum í grunndeild matvæla- og ferðaagreina sem þjónuðu til borðs, en þetta var liður í verklegu prófi þeirra í framreiðslu.
Þeir gestir sem boðið var að borða þennan dýrindis mat kunnu vel að meta. Fjórtán matargestir voru mættir, bæði nokkrir starfsmenn VMA og einnig velunnarar deildarinnar á Akureyri sem hafa stutt dyggilega við bakið á matvælanáminu í VMA. Kennarar við matvælabraut vildu sýna þeim þakklætisvott fyrir ómældan stuðning og hlýhug með því að bjóða þeim til þessarar veislu.