Fara í gegnum raunfærnimat í málaraiðn
Síðastliðið haust fór af stað nám í bygginga- og mannvirkjadeild fyrir fólk sem hafði áður tekið hluta af námi í málaraiðn en hefur unnið í faginu árum saman og aflað sér þannig víðtækrar reynslu. Snorri Guðvarðsson, málarameistari, heldur utan um námið og kennir það í nokkrum þriggja daga lotum og síðan lýkur náminu í vor með einnar viku námslotu sem er í raun undirbúningur fyrir sveinspróf sem nemendurnir níu stefna að því að ljúka í vor.
Snorri segir að í kjölfar efnhagshrunsins 2008 hafi þrengst um möguleika margra málara og þá hafi margir hætt að mennta sig í faginu. Eftir að hafa verið í mörg ár á vinnumarkaði gefst nú mörgum af þessum málurum tækifæri til þess að setjast á skólabekk á ný samhliða vinnu í gegnum svokallað raunfærnimat og punkturinn yfir i-ið verður síðan sveinspróf í vor. Þar með hefur þetta fólk öðlast starfsréttindi.
Snorri segir að í raunfærnimatinu felist að meta það sem nemendur hafa nú þegar tekið í skóla og síðan sé starfsreynsla þeirra metin inn í námið. Auk upprifjunar á því sem nemendur höfðu áður lært segist Snorri vera að fara með nemendum í gegnum nokkra þætti í faginu sem þeir höfðu ekki áður fengið kennslu í. Það á til dæmis við um eldri málningaraðferðir sem Snorri hefur sérhæft sig í og hefur málað fjölda friðaðra bygginga hér á landi, þ.m.t. margar kirkjur. Tvær af þessum kirkjum eru í Svarfaðardal – Vallakirkja og Urðakirkja – og hér sést Snorri ásamt nemendum sínum í vettvangsferð í þessum kirkjum þar sem hann sýndi þeim eldri málningaraðferðir.