Höfðingleg gjöf til VMA
Í tilefni af 40 ára afmæli Raftákns á Akureyri færði fyrirtækið í samvinnu við Johan Rönning Verkmenntaskólanum á Akureyri að gjöf eina og hálfa milljón króna peningagjöf sem skal varið til kaupa á kennslubúnaði í ljósastýringarkerfum.
Raftákn er verkfræðistofa á rafmagnssviði með höfuðstöðvar á Akureyri og er sú stærsta sinnar tegundar á landinu. Fyrirtækið var stofnað 1. júní 1976 og hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni á síðustu árum. Til dæmis hefur Raftákn verið leiðandi í hönnun raflagna og lýsingar í hérlendum jarðgöngum. Þannig hefur fyrirtækið séð um hönnun lýsingar og raflagna í Hvalfjarðargöngum, Fáskrúðsfjarðargöngum, Almannaskarðsgöngum og Héðinsfjarðargöngum. Einnig sá fyrirtækið um hönnun lýsingar- og rafkerfa fyrir Hófsgöngin á Suðurey í Færeyjum, Múlagöng, Strákagöng og Vestfjarðagöng.
„Ástæðan fyrir því að við ákváðum að gefa Verkmenntaskólanum þessa peningagjöf er einföld; iðnmenntun stendur okkur nær og við viljum reyna að styðja við hana eins og okkur er frekast unnt. Að mínu mati er iðnmenntun mjög vanmetin og það virðist vera sem erfiðlega gangi að snúa þessu við. Ég vil sjá iðnmenntun eflast og jafnframt vil ég sjá fleiri konur fara í iðnnám. Mér finnst til dæmis umhugsunarvert af hverju konur fara í verkfræði en mjög fáar konur fara hins vegar í tæknifræði. Þessu þarf að breyta því tæknifræði er ekkert síður fyrir konur en karla. Ástæðan fyrir þessu er þó líklega sú að þær konur sem fara í verkfræði taka fyrst stúdentspróf en hins vegar vantar fleiri konur til þess að fara í iðnnám og fara síðan áfram í tæknifræði,“ segir Árni Viðar Friðriksson, framkvæmdastjóri Raftákns.
Sem fyrr segir er um að ræða 1,5 milljóna króna peningagjöf. Peningunum skal varið til kaupa á kennslubúnaði sem hugsaður er í lýsingahönnun og –stjórnun – svokallaður EIB-búnaður – og kemur hann rafiðnaðarbraut VMA sannarlega að góðum notum. Raftákn leitaði til Johan Rönning og út því samstarfi kom að Rönning, sem flytur búnaðinn inn, selur búnaðinn með verulega góðum afslætti og einnig var framleiðandi búnaðarins tilbúinn að leggja sitt af mörkum. „Það var mjög ánægjulegt að fá þessu góðu viðbrögð frá Rönning og þannig nýtist þessi peningagjöf skólanum enn betur,“ segir Árni og fagnar því að geta lagt skólanum lið.
„Fyrir hönd starfsfólks og nemenda VMA vil ég þakka Raftákni kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf í tilefni afmælishátíðar fyrirtækisins. Stuðningur atvinnulífsins til skólans er okkur afar mikilvægur hvort sem hann er í formi samstarfs eða gjafa eins og þessarar frá Raftákni. Fyrirtækið hefur ætíð sýnt skólanum mikla velvild og fyrir það vil ég þakka um leið og ég óska því hjartanlega til hamingju með afmælið og áframhaldandi velfarnaðar,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA.
Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var við afhendingu gjafarinnar í afmælishófi sem Raftákn efndi til í húsakynnum Háskólans á Akureyri þann 3. júní, eru frá vinstri: Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, sem tók við gjöfinni fyrir hönd VMA, Árni V. Friðriksson, framkvæmdastjóri Raftákns, og Friðbjörn Benediktsson, fulltrúi Johan Rönning á Akureyri.