Fara í efni

HÖTE3HS05 - Módel- og tískuteikning

Undanfari : HUGM2HÚ05
Í boði : Haust

Lýsing

Í áfanganum lærir nemandinn undirstöðuatriði í módel og tískuteikningu. Teiknað og mótað er eftir lifandi fyrirmynd, beinagrind og tvívíðum myndum. Nemandinn þjálfast í að umbreyta þrívíðu formi mannslíkamans í tvívíða teikningu. Lögð er áhersla á æfingar fyrir hlutföll, jafnvægi, hreyfingu og stöðu mannslíkamans og byggingu og mótun forma hans. Veitt er innsýn í þann samhljóm sem er milli módelteikningar og beina og vöðvabyggingar. Nemandinn beitir frjálsri teikningu þar sem leikur, túlkun og tjáning er í forgrunni. Hugmynda- og skissuvinna er unnin á fjölbreyttan hátt þar sem listrænn þáttur módel- og tískuteikningar er skoðaður og nemandinn er hvattur til að gera tilraunir og þróa sig í átt að persónulegri túlkun og stílfæringu teikninga. Í tengslum við verkefnavinnu skoðar nemandinn dæmi úr myndlistar- og hönnunarsögu þar sem mannslíkaminn og tískuhönnun er viðfangsefnið. Unnið er með skyggingu og áferðarteikningu í fatnaði. Fjölbreytt stílbrigði við frágang teikninga eru könnuð og flatar vinnuteikningar kynntar. Samhliða allri verkefnavinnu er nemandinn þjálfaður í notkun ýmissa teikniáhalda, lita, litasamsetninga og pappírs. Hann vinnur sjálfstætt að nánari skoðun á módeli, tískuhönnun og teiknistíl milli kennslustunda og ígrundar stöðugt verk sín í samvinnu við kennara og aðra nemendur. Unnið er með frágang og uppsetningu verkefna í ferilmöppu til kynningar.
Getum við bætt efni síðunnar?