Erlend samskipti
Verkmenntaskólinn á Akureyri (Akureyri comprehensive college) leitast við að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi í þeim tilgangi að læra af öðrum og miðla þekkingu og reynslu. Skólinn leggur því áherslu á að veita nemendum og starfsfólki tækifæri til að kynnast námi og starfi erlendis - og með því mögulega leggja grunninn að frekara samstarfi eða námi síðar.
Á þeim vettvangi standa skólanum til boða ýmsir kostir sem grundvallaðir eru með styrkjum úr Erasmus plus og Nordplus áætlunum, auk þess sem Uppbyggingarsjóður EES rekur eitt verkefnið. Þá fær skólinn heimsóknir á hverju ári frá erlendum, skólum og stofnunum og eru slíkar heimsóknir oft nýttar til að styrkja erlent tengslanet skólans.
Í skólanum er starfandi verkefnastjóri sem heldur utan um erlend samskipti. Hann bendir starfsfólki og nemendum á þá kosti sem gætu hentað hverju sinni, aðstoðar við að fylla út umsóknir og vinna samninga, og miðlar verkefnum eftir því sem hentar. Þá aðstoðar hann nemendur og kennara erlendis frá við að koma sér fyrir í starfsnámi á Akureyri, sé þess óskað.
Aðstaða verkefnastjóra er á bókasafni skólans. Verkefnastjóri erlendra verkefna er Dagný Hulda Valbergsdóttir. (dagny.h.valbergsdottir@vma.is).
Hægt er að hitta á Dagnýu á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl 08:00-16:00 og mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl 08:00-14:00
VMA PIC number for Erasmus applications is 947240309. OID is E10161282
Erasmus+
VMA er stoltur handhafi Erasmus+ aðildar, bæði í verknámi (VET) og bóknámi (SCH). Það þýðir að allt starfsfólk og allir nemendur hafa tækifæri til að sækja um nám- og þjálfunarverkefni Erasmus+.
Dæmi um Erasmus+ verkefni eru; nemendur sem hafa farið í starfsnám erlendis, ferðir starfsfólks til að kynna sér skólastarf í öðrum löndum sem og ferðir kennara með nemendahópa til að kynna sér skólastarf erlendis.
Erlend samstarfsverkefni sem skólinn tekur þátt í
Nordplus - Nordic greenshift in Education – Greenfing
2023-2025
Hópurinn samanstendur af 4 skólum, Vinnuháskulin í Færeyjum, Fagskolen í Rogaland, KRI í Grænlandi ásamt VMA. Samstarf þessara fjögurra skóla á sér langa og farsæla sögu en að þessu sinni er tilgangur verkefnisins að gera handbók fyrir verkgreinakennara sem þar sem áhersla er lögð á að innleiða umhverfisvænni leiðir í kennslu og huga enn betur að sjálfbærni til dæmis í vélstjórn.
Nordplus - KlimaAngst – Nordisk vennskap for å møte unges klimaangst - et nordisk språkprosjekt.
2022-2025
Verkefnið snýst um loftslagsmál, með áherslu á loftslagskvíða og hvernig við getum notað hann til góðra verka. Ætlunin er að vinna með nemendum að þessum málum svo þau átti sig á áhrifum mannsins á náttúruna og hvernig lofslagsmál hafa áhrif á þeirra nærumhverfi.
Ætlunin er að kennarar landanna heimsækja hvern annan á þriggja ára tímabili, deila reynslu sinni og nemenda sinna með gestgjöfum. Hjá okkur í VMA er verkefnið nýtt í dönsku- og íslenskukennslu.
Hér má sjá umfjallanir um ýmis verkefni sem tengjast erlendu samstarfi.
Uppfært 13.11.2024 (HAH)