Gildi og einkunnarorð skólans
Nemendur eru hornsteinn Verkmenntaskólans. Það að þeir þroskist, öðlist sjálfstraust, líði vel, tilheyri hópnum og tileinki sér ákveðna leikni, þekkingu og hæfni skiptir mestu máli. Til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda býður Verkmenntaskólinn uppá fjölbreyttar námsleiðir, góða þjónustu og mikinn stuðning við nemendur. Gildi skólastarfsins og einkunarorð skólans eru:
Fagmennska - Fjölbreytni - Virðing.
Fagmennska felur í sér:
- ábyrgð og traust
- að verk séu unnin heiðarlega og vinnubrögð séu gagnsæ
- að vinnubrögð einkennist af vandvirkni og að þau séu útfærð af sérstakri færni
- að vinnubrögð séu fumlaus og að markvisst sé unnið að útfærslu hvers verkefnis
- að sá sem tekur að sér verkefni sýni alúð í því hvernig hann sinnir því.
Fjölbreytni felur í sér:
- að nemendur fái fjölbreytt viðfangsefni
- að kennsluhættir, námsframboð og námsmat sé fjölbreytilegt – og mæti væntingum, hæfileikum, áhuga og þörfum
- fjölbreyttan nemendahóp hvað varðar aldur, búsetu, námslega stöðu og fjölskyldustöðu
- fjölbreyttan hóp starfsmanna með mismunandi reynslu og menntun.
Virðing felur í sér að:
- allt starf einkennist af gagnkvæmri virðingu, umhyggju, umburðarlyndi og jafnrétti
- allir eigi jafna möguleika til þátttöku og áhrifa án tillits til félags- og efnahagslegrar stöðu, hæfni, reynslu, aldurs, kyns, kynhneigðar, trúarafstöðu, kynþáttar eða þjóðernis
- leysa ágreining og geta sett sig í spor annarra
- fara að almennum skóla- og umgengisreglum.