Viðbrögð gegn áreitni og ofbeldi
Áætlun gegn einelti - nemendur
Stefna VMA er að nemendur sýni samnemendum og samstarfsfólki alltaf kurteisi og virðingu. Einelti verður ekki umborið í skólanum eða innan vébanda hans. Meðvirkni nemenda í einelti er fordæmd.
Við skilgreiningu VMA á einelti er stuðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.:
Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Einelti á vinnustað/skólum er alvarlegt vandamál sem stjórnendum ber skylda til að taka á. Einelti hefur víðtæk áhrif á þá sem fyrir því verða, bæði andleg og líkamleg. Auk þess sem einelti hefur oft neikvæð áhrif á starfsanda og vellíðan annarra starfsmanna/nemenda á vinnustaðnum/skólanum.
Dæmi um birtingamyndir eineltis:
- Misnotkun valds/ofstjórnun
● Óréttmæt gagnrýni tengd námi ef kennari á í hlut gagnvart nemanda.
● Meiðandi sögusögnum er komið af stað
● Nemandi er lítillækkaður, útilokaður eða tekinn fyrir
● Nemanda er á einhvern hátt mismunað af kennara/starfsmanni/samnemanda
● Nemanda er hótað
● Nemandi er beittur líkamlegu ofbeldi
Stjórnendur og starfsfólk bera ábyrgð á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýnemum skal kynnt viðbragðsáætlun gegn einelti og áætlunin verði á vef skólans.
Þetta er ekki einelti
Undir einelti fellur EKKI skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á milli tveggja eða fleiri nemenda (nemenda og kennara) nema hann sé viðvarandi eða endurtekinn. Hins vegar er mikilvægt að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti af sömu festu og einelti.
Ef upp kemur einelti
Komi upp einelti skulu þolendur leita til næsta stjórnanda. Nemandi getur leitað til hagsmunaráðs Þórdunu nemendafélags VMA, umsjónarkennara, sviðsstjóra, forvarnarfulltrúa, skólameistara, aðstoðarskólameistara eða námsráðgjafa. Þessir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað. Nánari lýsing er í viðbragðsáætlun.
Ef nemandi upplifir einelti ber að taka kvörtun hans alvarlega og bregðast við á faglegan hátt. Leggja skal áherslu á að leysa málið eins fljótt og hægt er.
Öllum aðilum þarf að vera ljóst hvernig tekið er á kvörtun, við hverju megi búast og hvenær, bæði fyrir þann sem ber upp kvörtunina og þann sem kvartað er undan.
Mikilvægt er að við rannsókn eineltis sé farið eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Því er mælt með formlegri leið við meðferð eineltismála. Það á við ef upp kemur mál milli nemenda innbyrðis eða nemanda og starfsmanns. Þegar nemandi hefur gert á hlut starfsmanns eða samnemanda geta viðurlög orðið brottvísun úr skóla, tímabundin eða varanleg. Viðurlögum við því að starfsmaður geri á hlut nemanda er lýst í starfsmannahluta eineltisáætlunar.
Góður skóli
Stefna VMA er að vera góður framhaldsskóli. Í góðum skóla er virkt upplýsingaflæði og rík áhersla lögð á góð samskipti. Þar er ólíkum einstaklingum sýnt umburðarlyndi og fordómar eru ekki liðnir. Tekið er á vandamálum sem upp koma og viðbrögð eru markviss. Lausna er leitað í stað þess að grafa vandamál í þögn. Ólíklegra er að einelti eigi sér stað innan skóla þar sem starfsandi og námsumhverfi einkennast af virðingu og umburðarlyndi.
VIÐBRÖGÐ – nemendur
Nemandi sem verður fyrir einelti skal snúa sér hið fyrsta til trúnaðaraðila (t.d. skólameistara/ aðstoðarskólameistara, umsjónarkennara, sviðsstjóra, forvarnarfulltrúa, náms- og starfsráðgjafa eða hagsmunaráðs Þórdunu) og tilkynna um atvikið.
Þegar skólameistari eða trúnaðaraðilar nemenda fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti. Þolandi ákvarðar í samráði við trúnaðaraðila hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.
Óformleg málsmeðferð
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan skólans eru alla jafna ekki upplýstir um málið. Mælt er með formlegri málsmeðferð nema þolandi ákveði óformlega málsmeðferð í samráði við trúnaðaraðila og/eða stjórnanda.
Formleg málsmeðferð
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mælt er með þessari leið.
Formleg málsmeðferð - Ferli:
Kvarti nemandi yfir einelti í skólanum þarf að fara vandlega yfir málið og upplýsa atvik þess eftir bestu getu.
● Fara ber yfir málið í ró og næði með nemandanum sjálfum.
● Ræða við meintan geranda sem og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið, t.d. samnemendur og kennara/starfsmenn.
● Draga ekki fleiri inn í málið en nauðsynlegt er. Rétt er að ræða við einn aðila í senn.
● Í einhverjum tilvikum er nauðsynlegt að afla gagna. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað.
● Upplýsingar úr viðtölum og aðrar upplýsingar sem fengnar eru munnlega ber að skrá. Gæta skal þess að upplýsa þolanda um framvindu málsins eins og kostur er á meðan unnið er að lausn þess.
● Skólameistari og/eða aðstoðarskólameistari halda utan um gögn er málið varða, boða fundi og skrá fundagerð. Gögnin eru geymd skjalakerfi skólans merkt trúnaðarmál.
Niðurstöður
Þegar atvik hafa verið upplýst og talið er að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum og lausn málsins. Þar má nefna aðvörun, áminningu, brottvísun úr áfanga/skóla. Þolanda og geranda er gefinn tími hjá náms- og starfsráðgjafa VMA.
Gerandi mun ávallt fá leiðsögn - og aðvörun.
Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Tímamörk skulu skráð. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins. Láti gerandi ekki af eineltinu leiðir það til áminningar og hugsanlega til brottreksturs.
Sé þolandi og/eða gerandi undir 18 ára aldri ber skólastjórnendum að hafa samband við forráðamenn hvort sem um formlega eða óformlega málsmeðferð er að ræða.
Stjórnanda ber ávallt að skoða ásakanir um einelti. Öðrum ber að koma kvörtunum um einelti áfram til stjórnenda.
Sáttaumleitun
Sáttaumleitun er mikilvæg þegar atvik hafa verið upplýst. Ekki er þörf á formlegri áminningu í tilfellum þar sem vafi leikur á réttmæti ásakana. Markmiðið er að skapa námsumhverfi þar sem einelti er ekki liðið.
Gátlisti; áætlun gegn einelti - Nemendur
Ef tilkynning um einelti kemur til stjórnenda ber að bregðast strax við.
Formlegt ferli - Skólastjórnendur boða fundi.
Haldinn fundur með þolanda
Meta þarf hverjir ættu að koma á fundinn; skólahjúkrunarfræðingur, náms- og starfsráðgjafi, forvarnarfulltrúi, umsjónarkennari. Forráðmenn eru boðaðir ef nemendur eru yngri en 18 ára. Náms- og starfsráðgjafi skal alltaf mæta á fundinn til að gæta hagsmuna þolanda ef enginn stuðningsaðili er með þolandanum.
● Farið yfir málsatvik, gögn lögð fram ef við á.
● Metinn stuðningur (náms- og starfsráðgjöf, skólahjúkrunarfr., annað (HSN/SAK).
● Ef um alvarlegt ofbeldi að ræða, hafa samband við lögreglu.
● Skólameistari heldur fundargerð þar sem málsatvik koma fram og allir aðilar á fundinum skrifa undir hana áður en fundi líkur.
Haldinn fundur með geranda
Meta þarf hverjir ættu að koma á fundinn; skólahjúkrunarfræðingur, náms-og starfsráðgj. umsjónarkennari. Forráðmenn eru boðaðir ef nemandi er yngri en 18 ára. Náms- og starfsráðgjafi skal alltaf mæta á fundinn til að gæta hagsmuna geranda ef enginn stuðningsaðili er með gerandanum.
● Farið yfir málsatvik, gögn lögð fram ef við á.
● Skólameistari heldur fundargerð þar sem málsatvik koma fram og allir aðilar á fundinum skrifa undir hana áður en fundi lýkur.
Niðurstöður.
Þegar atvik hafa verið upplýst og talið er að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum og lausn málsins. Þar getur komið til greina skrifleg aðvörun eða áminning og jafnvel brottvísun úr áfanga/skóla.
Gerendur og þolendur fá stuðning og leiðsögn undir handleiðslu stjórnanda og/eða náms- og starfsráðgjafa. Ef ástæða er til er nemendum vísað áfram til fagaðila utan VMA.
Skólastjórnendur fylgjast með samskiptum aðila málsins og kalla gerendur og þolendur til sín sitt í hvoru lagi að ákveðnum tíma liðnum. Tímamörkin eru ákveðin á fundum með aðilum málsins.
Sáttaumleitan
Mikilvægt er að ljúka málinu með sameiginlegum fundi þegar atvik hafa verið upplýst. Ekki er þörf á formlegri áminningu í tilfellum þar sem vafi leikur á réttmæti ásakana.
Áætlun gegn einelti - nemendur
Áætlun gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi - nemendur
Kynbundin og kynferðisleg áreitni, og ofbeldi (hér eftir nefnt brot) er ekki liðið innan Verkmenntaskólans á Akureyri. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum starfsfólks og nemenda, starfsfólks innbyrðis eða nemenda innbyrðis.
Skilgreining VMA á hvað kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi styðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. gr.:
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Stefna og viðbragðsáætlun VMA skulu rifjaðar upp reglulega á og vera aðgengileg á vef skólans.
VIÐBRÖGÐ – Nemendur
Nemandi sem telur sig verða fyrir broti skal snúa sér hið fyrsta til þess aðila sem hann treystir vegna máls eða atviks tilkynna um atvikið. Trúnaðaraðili kemur málinu áfram til rétts móttakanda (skólameistara, aðstoðarskólameistara, náms- og starfsráðgjafa, sviðstjóra eða umsjónarkennara). Móttakandi ákvarðar síðan í samráði við þolandann hvert framhaldið verður og upplýsir þolanda um þær leiðir sem eru í boði. Hægt er að velja milli óformlegrar- eða formlegrar málsmeðferðar. Það skal tekið fram að í kynferðismálum er formleg málsmeðferð ávallt notuð.
Óformleg málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan skólans eru alla jafna ekki upplýstir um málið (á ekki við í kynferðismálum). Mælt er með formlegri málsmeðferð nema þolandi ákveði óformlega málsmeðferð í samráði við trúnaðaraðila og/eða stjórnanda.
Formleg málsmeðferð felur í sér að gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mælt er með þessari leið.
Trúnaðaraðili boðar meintan geranda á fund og kannar afstöðu til kvörtunar eða tilkynningar. Berist tilkynning frá öðrum en þolanda boðar trúnaðaraðili þolenda á fund sinn og kannar afstöðu til tilkynningar. Ekki á að ræða við meintan geranda og þolanda saman.
Trúnaðaraðili skal kanna málið til hlítar meðal annars með því að ræða við aðila þess og aðra sem varpað geta ljósi á málið. Mikilvægt er að trúnaðaraðilinn haldi nákvæma atvikaskrá með dagsetningum, skrái upplýsingar úr viðtölum og allar munnlegar upplýsingar sem berast.
Bjóða skal þolenda sérfræðiaðstoð sálfræðings, náms-starfsráðgjafa eða annars meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Óski viðkomandi eftir að kæra mál til lögreglu skal trúnaðaraðili vera til aðstoðar við það eftir föngum.
Æskilegt getur verið að fá utanaðkomandi til að rannsaka mál er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Slík mál eru sérstaklega viðkvæm og þarfnast rannsóknar alveg óháðra sérfræðinga.
Að loknum viðtölum við aðila málsins ákveður skólameistari hvort málið verði tekið til formlegrar meðferðar. Sé ákveðið að taka mál til formlegrar meðferðar skal grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi námstilhögun aðila málsins. Þegar rannsókn máls er lokið kynnir trúnaðaraðili þeim aðilum er viðkoma málinu hvort hann telji að um brot hafi verið að ræða og gerir tillögur að viðbrögðum og hvaða úrræða er réttast er að grípa til. Mikilvægt er að ljúka málinu með sameiginlegum fundi þegar atvik hafa verið upplýst.
Þagnarskylda
Mæli lög ekki á annan veg er trúnaðaraðila og öðrum þeim sem að málinu koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.
Gildistaka
Verklagsreglur þessar, sem settar eru á grundvelli reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 og með hliðsjón af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
Áætlun gegn einelti - starfsfólk
Stefna VMA er að nemendur sýni samnemendum og samstarfsfólki alltaf kurteisi og virðingu. Einelti verður ekki umborið í skólanum eða innan vébanda hans. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.
Við skilgreiningu VMA á einelti er stuðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.:
Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. Einelti á vinnustað/skólum er alvarlegt vandamál sem stjórnendum ber skylda til að taka á. Einelti hefur víðtæk áhrif á þá sem fyrir því verða, bæði andleg og líkamleg. Auk þess sem einelti hefur oft neikvæð áhrif á starfsanda og vellíðan annarra starfsmanna/nemenda á vinnustaðnum/skólanum.
Dæmi um birtingamyndir eineltis
- Misnotkun valds/ofstjórnun
- Óréttmæt starfstengd gagnrýni.
- Meiðandi sögusögnum er komið af stað
- Starfsmaður er lítillækkaður, útilokaður eða tekinn fyrir
- Starfsmaður fær ekki stöðuhækkun eða starfsþjálfun.
- Starfsmaður fær hótanir sem beinast gegn starfsöryggi hans.
Starfsmaður er beittur líkamlegu ofbeldi
Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun VMA í eineltismálum strax við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin skulu rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum og vera aðgengileg á vef skólans.
Ef upp kemur einelti
Komi upp einelti á þolandi að leita til yfirmanns eða trúnaðaraðila. Allir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað. Nánari lýsing er í viðbragðsáætlun. Ef starfsmaður upplifir einelti ber að taka kvörtun hans alvarlega og bregðast við á faglegan hátt. Leggja skal áherslu á að leysa málið eins fljótt og hægt er. Öllum aðilum þarf að vera ljóst hvernig tekið er á kvörtun, við hverju megi búast og hvenær, bæði fyrir þann, sem ber upp kvörtunina og hinn, sem kvartað er undan.
Mikilvægt er að við rannsókn eineltis sé farið eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur opinberra stafsmanna og stjórnsýslulaga þar sem einelti getur leitt til áminningar og jafnvel uppsagnar. Því er mælt með formlegri leið við meðferð eineltismála.
Viðbrögð - Starfsmenn
Starfsmaður sem verður fyrir einelti skal snúa sér hið fyrsta til skólameistara/aðstoðarskólameistara, jafnréttisfulltrúa eða trúnaðaraðila (öryggistrúnaðarmenn, hjúkrunarfræðingur eða trúnaðarmenn) og tilkynna um atvikið. Ef skólameistari/ aðstoðarskólameistari er gerandi málsins á að snúa sér til trúnaðaraðila.
Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar VMA fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti. Þolandi í samráði við trúnaðaraðila ákvarðar hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.
Óformleg málsmeðferð:
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið. Mælt er með formlegri málsmeðferð nema þolandi ákveði óformlega málsmeðferð í samráði við trúnaðaraðila og/eða stjórnanda og telst málið þar með lokið.
Formleg málsmeðferð:
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mælt er með þessari leið.
Formleg málmeðferð - Ferli:
Kvarti starfsmaður yfir einelti þarf að fara vandlega yfir málið og upplýsa atvik þess eftir bestu getu. Fara skal yfir málið í ró og næði með starfsmanninum sem kvartar. Ræða við meintan geranda sem og aðra sem geta veitt upplýsingar um málið, t.d. samstarfsmenn. Draga ekki fleiri inn í málið en nauðsynlegt er. Rétt er að ræða við einn aðila í senn. Í einhverjum tilvikum er nauðsynlegt að afla gagna. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað.
Upplýsingar úr viðtölum og aðrar upplýsingar sem fengnar eru munnlega ber að skrá. Gæta skal þess að upplýsa þolanda um framvindu málsins eins og kostur er á meðan unnið er að lausn þess. Skólameistari og/eða aðstoðarskólameistari halda utan um gögn er málið varðar, boða fundi og skrá fundagerð. Gögnin eru geymd í skjalakerfi skólans merkt trúnaðarmál.
Niðurstöður:
Þegar atvik hafa verið upplýst og talið er að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum og lausn málsins. Sem dæmi má nefna áminningu, breytingu á starfi,breytingar á vinnustað, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi eða í undantekningartilvikum fyrirvaralausa brottvikningu, samanber dreifibréf fjármálaráðuneytisins sem finna má á heimasíðu þess.
Gerandi mun ávallt fá leiðsögn - og aðvörun.
Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Tímamörk skulu skráð. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins. Láti gerandi ekki af eineltinu leiðir það til áminningar og hugsanlega uppsagnar hans úr starfi. Stjórnanda ber ávallt að skoða ásakanir um einelti.
Sáttaumleitun:
Sáttaumleitun er mikilvæg þegar atvik hafa verið upplýst, ekki er þörf á formlegri áminningu eða í tilfellum þar sem vafi leikur á réttmæti ásakana.
Markmiðið er að skapa vinnuumhverfi þar sem einelti fær ekki þrifist.
Gátlisti áætlun gegn einelti - Starfsmenn
Ef tilkynning um einelti kemur til stjórnenda ber að bregðast strax við.
Formlegt ferli - Skólastjórnendur boða fundi.
Haldinn fundur með þolanda
- Meta hverjir ættu að koma á fundinn. Trúnaðarmaður starfsmanna er boðaður á fundinn til að gæta hagsmuna þolanda ef enginn stuðningsaðili er með þolandanum.
- Farið yfir málsatvik, gögn lögð fram ef við á.
- Metinn stuðningur (innan VMA eða aðrir fagaðilar (HSN/SAK).
- Ef um alvarlegt ofbeldi að ræða, hafa samband við lögreglu.
- Skólameistari heldur fundargerð þar sem málsatvik koma fram og allir aðilar á fundinum skrifa undir hana áður en fundi lýkur.
- Haldinn fundur með geranda
- Meta hverjir ættu að koma á fundinn; trúnaðarmaður starfsmanna er boðaður á fundinn til að gæta hagsmuna geranda ef enginn stuðningsaðili er með geranda.
- Farið yfir málsatvik, gögn lögð fram ef við á.
- Skólameistari heldur fundargerð þar sem málsatvik koma fram og allir aðilar á fundinum skrifa undir hana áður en fundi lýkur.
Niðurstöður
Þegar atvik hafa verið upplýst og talið er að meintur gerandi hafi beitt þolanda einelti þarf að huga að afleiðingum og lausn málsins. Þar getur komið til greina skrifleg aðvörun eða áminning og í undantekningartilvikum fyrirvaralaus brottvikning úr starfi. Unnið samkvæmt leiðbeiningum frá fjármálaráðuneyti sem finna má á heimasíðu þess. Gerendur og þolendur fá stuðning og leiðsögn innan VMA. Ef ástæða er til er starfsmönnum vísað áfram til fagaðila utan VMA. Skólastjórnendur fylgjast með samskiptum aðila málsins og kalla gerendur og þolendur til sín sitt í hvoru lagi að ákveðnum tíma liðnum. Tímamörkin eru ákveðin á fundum með aðilum málsins.
Sáttaumleitan
Mikilvægt er að ljúka málinu með sameiginlegum fundi þegar atvik hafa verið upplýst. Ekki er þörf á formlegri áminningu í tilfellum þar sem vafi leikur á réttmæti ásakana.
Áætlun gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi - Starfsfólk
Kynbundin og kynferðisleg áreitni, og ofbeldi (hér eftir nefnt brot) er ekki liðin af hálfu starfsfólks og nemenda Verkmenntaskólans á Akureyri. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum starfsfólks og nemenda, starfsfólks innbyrðis eða nemenda innbyrðis.
Skilgreining VMA á hvað kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi styðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. gr.:
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun VMA í brotamálum strax við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin skulu rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum og vera aðgengileg á vef skólans.
VIÐBRÖGÐ – Starfsmenn
Starfsmaður sem telur sig verða fyrir broti skal snúa sér hið fyrsta til trúnaðaraðila (Stjórnandi, jafnréttisfulltrúi, trúnaðarmaður eða öryggistrúnaðarmaður) og tilkynna um atvikið. Móttakandi upplýsir starfsmann um þær leiðir sem í boði eru:
- Starfsmaður getur tilkynnt mál til stjórnanda.
- Starfsmaður getur tilkynnt mál til Vinnueftirlitsins sem skráir atvik en rannsakar ekki.
- Félagsmaður getur leitað aðstoðar og ráðgjafar hjá viðkomandi aðildarfélagi.
- Trúnaðarmaður eða jafnréttisfulltrúi veitir aðstoð sem hlutlaus þriðji aðili ef viðkomandi óskar eftir því, til dæmis í viðtölum við stjórnanda og/eða fræðsluyfirvöld.
Ef stjórnanda/trúnaðaraðila berst kvörtun eða tilkynning um brot skal stjórnandi boða meintan gerand á fund og kanna afstöðu til kvörtunar eða tilkynningar. Berist tilkynning frá öðrum en þolenda, boðar stjórnandi þolenda á fund sinn og kannar afstöðu til tilkynningar. Stjórnandi ræðir við þolanda, tekin er ákvörðun um hvort stjórnandi eða óháður aðili fari með rannsókn. Stjórnandi getur kosið að standa utan rannsóknar og fela utanaðkomandi sérfræðingum að framkvæma óháða úttekt. Æskilegt getur verið að fá utanaðkomandi til að rannsaka mál er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Slík mál eru sérstaklega viðkvæm og þarfnast rannsóknar alveg óháðra sérfræðinga. Ef grunur er um refsivert brot skal vísa máli til lögreglu sem sér um rannsókn.
Ef um yfirmann er að ræða er hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í málum málsaðila og tekur þá næsti yfirmaður ákvarðanir á meðan á málsmeðferð stendur.
Ef skólameistari er aðili máls skal beina kvörtun til Menntamálayfirvalda.
Ákveði stjórnandi að að sinna málinu sjálfur skal hann grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi náms- eða vinnutilhögun aðila málsins. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Óheimilt er að flytja þolenda til í starfi vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess. Mikilvægt er að stjórnandi hugi að vinnuumhverfi þolanda og hagi málum þannig að honum líði sem best í vinnu og þurfi ekki að eiga samskipti við meintan geranda. Stjórnandi skal kanna málið til hlítar meðal annars með því að ræða við aðila þess og eftir atvikum samstarfsfólk eða aðra sem varpað geta ljósi á málið. Ekki á að ræða við meintan geranda og þolanda saman.
Mikilvægt er að stjórnandi afli gagna um málið, haldi nákvæma atvikaskrá með dagsetningum, skrái upplýsingar úr viðtölum og allar munnlegar upplýsingar sem berast. Bjóða skal þolenda sérfræðiaðstoð með sérþekkingu á umræddum brotum. Óski viðkomandi eftir að kæra mál til lögreglu skal stjórnandi vera til aðstoðar við það eftir föngum.
Þegar rannsókn máls er lokið kynnir stjórnandi þeim aðilum er viðkoma málinu hvort hann telji að um brot hafi verið að ræða og gerir tillögur að viðbrögðum og hvaða úrræða er réttast er að grípa til. Mikilvægt er að ljúka málinu með sameiginlegum fundi þegar atvik hafa verið upplýst.
Þagnarskylda
Mæli lög ekki á annan veg er stjórnanda og öðrum þeim sem að málinu koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál.
Gildistaka
Verklagsreglur þessar, sem settar eru á grundvelli reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 og með hliðsjón af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
Uppfært 08. nóvember 2024 (HH)