Málstefna
Málstefna Verkmenntaskólans á Akureyri
Verkmenntaskólinn á Akureyri starfar innan íslensks samfélags, á íslensku málsvæði, og íslenska er opinbert tungumál skólans. Skólinn starfar samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla og í 2. gr þeirra kemur m.a. fram að hlutverk þeirra sé að „búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu.“ Jafnframt fjallar 35. gr laganna um tungumál og nemendur með annað móðurmál en íslensku og nemendur sem búsettir hafa verið erlendis um árabil en með íslensku sem móðurmál. Skólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf – og notuð – í öllu skólastarfi. Jafnframt tekur skólinn þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Málstefnu skólans er ætlað að styðja bæði við íslenskuna og alþjóðlegt starf hans.
Íslenska er sjálfgefið tungumál, hvort sem er í ræðu eða riti, í öllu starfi VMA; námi, kennslu og stjórnsýslu, og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars. Þetta er í samræmi við lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Samkvæmt þeim er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og nýtur því einnig sérstakra réttinda innan skólans.
Önnur tungumál, sérstaklega enska, eru einnig mikilvæg í skólastarfinu, vegna nemenda og starfsfólks með annað móðurmál en íslensku og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Því er lögð áhersla á að upplýsingar um skólann og starfsemi hans séu aðgengilegar á ensku á vef skólans.
- Meðferð íslensks máls í ræðu og riti innan VMA sé til fyrirmyndar, bæði hjá nemendum og starfsfólki. Málnotkun innan skólans einkennist af virðingu fyrir einstaklingum og hópum og mismuni ekki.
- Íslenska er sjálfgefið kennslumál í VMA. Kennsla erlendra tungumála fer fram á því tungumáli sem er verið að kenna en íslenska notuð samhliða til að útskýra og tryggja rétt upplýsingaflæði.
- Í öllum áföngum skólans er lögð áhersla á læsi í víðum skilningi þess orðs, með áherslu á læsi á íslensku. Áhersla er á námsefni á íslensku í öllu námi og þar sem við á.
- Námsmat fari að jafnaði fram á íslensku. Leitast er við að koma til móts við nemendur með annað móðurmál en íslensku án þess þó að skipta um tungumál við kennslu og námsmat.
- Komið er til móts við nemendur með annað móðurmál en íslensku þannig að þau hafi tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu eins og kostur er t.d. með fjarnámi.
- Nemendur með annað móðurmál en íslensku fá eigið móðurmál metið inn í námsferil þar sem við á og að undangengnu mati.
- Öllum nemendum sé auðveldað að taka þátt í námi og öðru starfi á íslensku innan skólans. Nemendur með annað móðurmál, sem hefja nám við íslenskubrú skólans, gangist undir leiðbeinandi stöðupróf í íslensku. Þau fái íslenskukennslu á íslenskubrú með það að markmiði að búa þau undir nám á öðrum brautum skólans. Skiptinemar eigi kost á íslenskuáföngum á íslenskubrú í bland við aðra áfanga eins og kostur er ásamt öðrum stuðningi eftir því sem við á.
- Skólinn stuðlar að aukinni þekkingu á fjölmenningu og mismunandi menningarheimum. Í því skyni beitir skólinn sér fyrir nýsköpun í námi og kennslu á þessu sviði svo og aukinni þátttöku kennara og nemenda í alþjóðlegu samstarfi.
- VMA hvetur til erlends samstarfs starfsfólks og nemenda. Sérstaklega eru nemendur hvattir til að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast til að stunda tímabundið starfsnám erlendis, í tengslum við samninga skólans þar að lútandi.
- Starfsfólk með annað móðurmál sinni starfi sínu á íslensku eftir eðlilegan aðlögunartíma. Símenntunarmiðstöðvar bjóða upp á íslenskunámskeið ætluð fólki með annað móðurmál en íslensku og hvetur VMA starfsfólk til að sækja þau. Óska má eftir að sitja íslenskunámskeið á vinnutíma.
- Þörfum táknmálstalandi nemenda og starfsfólks sé mætt þannig að notendur íslenska táknmálsins geti notað það til jafns við íslensku við nám og störf í skólanum. Táknmálstúlkar séu tiltækir þegar þeirra er þörf, bæði í kennslustundum og öðrum samskiptum starfsfólks og nemenda, svo og á fundum ef við á.
- Kennarar eru hvattir til að fylgjast með og nota íðorðasöfn í faggrein sinni og miðla íðorðum til nemenda og almennings.
- Allir fundir og önnur stjórnsýsla skólans fari fram á íslensku. Stjórnendur sjái til þess að starfsfólk sem ekki skilur íslensku fylgist með málum og geti tekið þátt innra starfi skólans eftir því sem nauðsyn krefur.
- Skrifleg gögn í stjórnsýslu skólans og opinberar upplýsingar, s.s. fundarboð, fundargerðir, auglýsingar og svo framvegis, séu ævinlega á íslensku, en enskur texti fylgi með þar sem við á. Einstaka fundargögn geti þó verið á erlendu máli ef sérstakar ástæður eru til.
- Nemendur og starfsfólk eigi kost á að nýta sér máltæknibúnað fyrir íslensku, svo sem leiðréttingarforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit. Áhersla sé lögð á máltæknibúnað sem nýtist fötluðu fólki í námi og starfi.
- Skólinn hugi að íslensku við notkun gervigreindarhugbúnaðar. Skólinn veiti leiðbeiningar um ábyrga notkun gervigreindar og fylgist með þróun hennar og áhrifum á íslensku í öllu starfi skólans.
- Tölvuumhverfi í VMA sé á íslensku eftir því sem kostur er. Sjálfgefið notendaviðmót alls algengs hugbúnaðar sem starfsfólk og nemendur nota innan skólans verði á íslensku.
- Skólameistari ásamt fagstjóra í íslensku og verkefnastjóra erlendra nema standi fyrir kynningu stefnunnar og endurskoðun eftir þörfum.
Skólameistari ber ábyrgð á málstefnunni og getur heimilað tímabundin frávik frá einstökum ákvæðum hennar ef nauðsyn krefur.
Stefna þessi var lögð fram á kennarafundi 22.11.2024