Fara í efni

Lög og reglugerðir

Lög Kennarafélags VMA

1. gr. Nafn
Heiti félagsins er Kennarafélag VMA, skammstafað KVMA. Félagið er félagsdeild í Félagi framhaldsskólakennara, FF, og þ.a.l. aðili að Kennarasambandi Íslands, KÍ. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. gr. Aðild
Félagar eru þeir starfsmenn VMA sem eru í Félagi framhaldsskólakennara.

3. gr. Hlutverk
➢ Félagið skal vera málsvari félagsmanna FF á vinnustaðnum.
➢ Félagið skal vinna að kjara-, réttinda- og faglegum málefnum félagsmanna, í samstarfi við FF og KÍ.
➢ Félagið skal standa fyrir faglegri umræðu meðal kennara skólans.
➢ Félagið skal velja fulltrúa á fulltrúafund og aðalfund FF og á þing KÍ, skv. 4. gr. laga Félags framhaldsskólakennara.
➢ Félagið skal árlega kjósa sér 5 manna stjórn af sviði verknáms, bóknáms og starfsbrautar. Hafa skal sem jafnast kynjahlutfall í stjórn KVMA, sbr. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
➢ Félagið skal annað hvert ár velja tvo fulltrúa í samstarfsnefnd og tvo fulltrúa í vinnumatsnefnd, sem endurspegla fjölbreytileika náms við skólann. Auk þess sitja trúnaðarmenn KVMA í þessum nefndum, einn í hvorri.
➢ Félagið skal kjósa tvo trúnaðarmenn á tveggja ára fresti, skv. 6. gr. laga Félags framhaldsskólakennara.

4. gr. Aðalfundur
Aðalfund félagsins skal halda árlega í september og skal til hans boðað með tölvupósti með minnst tveggja vikna fyrirvara. Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar. Skylt er að boða tafarlaust til almenns fundar ef 10% félagsmanna eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Tillögur að dagskrárlið til umfjöllunar á aðalfundi þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Heimilt er að gera hlé á aðalfundi og boða til framhaldsaðalfundar takist ekki að ljúka
hefðbundnum aðalfundarstörfum fyrir boðuð fundarlok. Sé það gert skal tilkynna við lok dagskrár að fundi verði frestað. Boðað skal til framhaldsaðalfundar með viku fyrirvara.

5. gr. Dagskrá aðalfundar
Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:
1. Skýrsla um starfsemi á síðasta kjörtímabili.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar og í önnur embætti á vegum KVMA.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
6. Starfsáætlun fyrir skólaárið.
7. Önnur mál.

6. gr. Stjórn Kennarafélags VMA
Stjórn skipa 5 félagsmenn KVMA, sem skipta með sér verkum; formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Auk þess skulu félagslegir trúnaðarmenn kennara vera í stjórn félagsins en gegna þó ekki formennsku. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður stýrir stjórnarfundum og annast dagskrá þeirra. Einfaldan meirihluta þarf til að ákvarðanir stjórnarfunda séu lögmætar. Stjórnarfundir eru lögmætir ef 4 stjórnarmenn eru á fundi enda hafi fundurinn verið boðaður í tæka tíð.

7. gr. Hlutverk stjórnar og formanns
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda. Formaður ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins og hefur yfirumsjón með rekstri þess. Forfallist formaður tímabundið færast verkefni hans yfir á ritara.

8. gr. Hlutverk ritara
Ritari hefur umsjón með ritun og varðveislu fundargerða fyrir stjórnar- og félagsfundi og skulu þær vera aðgengilegar félagsmönnum á Teams-síðu KVMA. Ritari heldur jafnframt utan um yfirlit yfir fundasetu stjórnar KVMA og félagslegra trúnaðarmanna. Ritari er staðgengill formanns í tímabundinni fjarveru hans.

9. gr. Hlutverk gjaldkera
Gjaldkeri hefur umsjón með fjárreiðum félagsdeildar og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal hann gefa stjórn og félagsfundi yfirlit yfir stöðu félagsins minnst einu sinni á ári. Tekjur félagsdeildar eru fjárframlag Félags framhaldsskólakennara.

10. gr. Lög KVMA
Lagabreytingar er aðeins hægt að gera á aðalfundi og skulu breytingartillögur berast skriflega til stjórnar með minnst viku fyrirvara. Kynna þarf breytingar í fundarboði. Til þess að breytingartillögur öðlist gildi verða 2/3 fundarmanna að samþykkja lagabreytingartillögu og auk þess verða lög félagsins að samræmast lögum FF.

11. gr.
Lög þessi skulu send stjórn FF til staðfestingar og öðlast gildi við þá staðfestingu.

12. gr.
Verði félaginu slitið renna eignir þess til Kennarasambands Íslands eða arftaka þess.
Lög félagsdeildar voru fyrst samþykkt á stofnfundi félagsins 16. febrúar 2000.
Lög félagsdeildar voru síðast endurskoðuð á aðalfundi félagsins í september 2012.
Lög félagsdeildar voru síðast endurskoðuð á aðalfundi félagsins þann 26. september 2024

Lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla. 

Upplýsingar og leiðbeiningar um vinnumat framhaldsskólakennara. 

Uppfært 29. janúar 2025.
Getum við bætt efni síðunnar?