Aron Dagur til æfinga hjá Stoke
Aroni Degi Birnusyni, nemanda á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA og markmanni hjá KA og íslenska U-17 landsliðinu, hefur verið boðið til æfinga hjá úrvalsdeildarliðinu Stoke í Englandi. Aron Dagur fer út nk. sunnudag og verður á æfingum hjá Stoke í næstu viku.
Að vonum er Aron Dagur mjög spenntur og ánægður með að fá þetta tækifæri hjá Stoke. „Þetta kom þannig til að Gunnlaugur Tómasson, umboðsmaður, sem býr og starfar í Danmörku, hafði samband við mig eftir undankeppni U-17 landsliðsins fyrir Evrópumótið hér á Íslandi í september sl. og síðan æxluðust málin þannig að hann hafði aftur samband og sagði mér að Stoke vantaði markmann á þessum aldri og vildi bjóða mér til æfinga, sem ég þáði og er að fara út núna um helgina,“ segir Aron Dagur.
Aron Dagur stóð sig mjög vel milli stanganna með U-17 landsliðinu sl. haust þegar liðið spilaði í forkeppni Evrópumóts U-17 landsliða við Kasakstan, Grikkland og Danmörku. Sigur vannst á Kasakstan, leikurinn við Grikki endaði með jafntefli en Danaleikurinn tapaðist. Engu að síður komst liðið áfram í milliriðil sem verður spilaður næsta vor.
Með Aroni Degi í för verður Aðalbjörn Hannesson, yfirþjálfari yngri flokka KA. Aron Dagur kemur til með að búa hjá fósturfjölskyldu í Stoke on Trent.
Aron Dagur segist vera í toppformi, eins og hann orðar það, eftir gott hlé að loknu Íslandsmótinu í 3. flokki, sé hann nú kominn á fullt í æfingum með meistaraflokki KA. Þar er hann einn fjögurra markmanna, hinir eru Aron Ingi Rúnarsson, Srdjan Rajkovic og Fannar Hafsteinsson.