Frábær ár í VMA
„Ég starfaði í Verkmenntaskólanum í tuttugu og átta og hálft ár og sannast sagna finnst mér, þegar ég horfi til baka, að þetta hafi verið stuttur tími! Til að byrja með var ég í hálfu starfi en ég hef verið í fullu starfi síðustu 25 ár. Ég hef verið stjórnendum skólans til aðstoðar í ýmsum störfum, haldið utanum skrá yfir nemendur og í raun farið í öll þau verkefni sem hefur þurft að fara í á stóru heimili,“ segir Þorbjörg Jónasdóttir, sem lét af störfum um áramótin eftir langt og farsælt starf hjá skólanum.
Þorbjörg hefur verið skólanum ómetanleg í störfum sínum og því er von að spurt sé hvernig hlutirnir eigi að geta gengið eðlilega fyrir sig þegar hún er nú horfin á braut? „Ég reikna með því að hann verði meira og minna í rúst núna eftir áramótin,“ segir Þorbjörg og hlær dátt. „Nei, nei, ég hef engar áhyggjur, það kemur alltaf maður í manns stað, það er engin spurning. Þessi tími hér í VMA hefur verið frábær og ég lít svo á að ég hafi verið mjög heppin að fá tækifæri til þess að vinna á svona góðum vinnustað. Í skólanum starfar einstaklega samheldinn og hjálpsamur hópur fólks. Fólk hefur alltaf verið reiðubúið að leggja fram hjálparhönd ef á hefur þurft að halda. Og síðan hefur auðvitað verið alveg yndislegt að starfa með öllu því unga fólki sem hefur sótt þennan skóla.“
Þorbjörg segir að vissulega fylgi því ákveðin eftirsjá að kveðja góðan vinnustað. „Ég hef starfað með Valgerði og Unu á skrifstofunni í 27 ár og við höfum átt sérlega gott samstarf. Í tengslum við þessi starfslok mín erum við búnar að taka saman eina skælulotu,“ segir Þorbjörg og hlær.
En hvað tekur nú við hjá Þorbjörgu? „Það er nú það. Ég hef undanfarin ár fengist töluvert við að mála og ég hugsa að ég snúi mér í auknum mæli að því, nái mér í aukna þekkingu á því sviði og máli meira. Sannast sagna fór ég í þetta tómstundagaman fyrir nokkrum árum með það í huga að ég hefði eitthvað ákveðið fyrir stafni þegar ég hætti að vinna. Ég hef sótt nokkur námskeið og það er aldrei að vita nema maður sæki aukna kunnáttu hingað á listnámsbrautina,“ segir Þorbjörg Jónasdóttir.