Gestakennsla í Stokkhólmi
Seinasta haust fór Nordplus verkefnið Vikingernes fremmarch i land og sprog af stað.Verkefnið er tveggja ára tungumála- og lestrarverkefni (Nordplus Nordic Language) á milli VMA, Campus Bornholm í Danmörku, Kungstensgymnasiet í Svíþjóð og Frogn Videregående skole í Noregi. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu og skilning nemenda á tungumálum Norðurlandanna, sögu, menningu og samfélag. Þá er einnig markmið verkefnisins að þróa kennsluefni sem hægt er að nota við kennslu á norrænum tungumálum og norrænni tungumálasögu. Hlutverk þátttakenda í verkefninu er að byggja upp net, þróa kennsluefni og kennsluáætlanir og munu kennarar frá hverjum skóla kenna í einum samstarfsskólanna hvort árið um sig.
Dagana 17. - 20. mars var dönskukennarinn Anette de Vink gestakennari í Kungstensgymnasiet, en gestakennslan var hluti af Nordplus verkefninu. Um 450 nemenmdur eru í Kungstensgymnasiet en vikuna sem Anette var stödd í skólanum var norræn þemavika í gangi og gestakennararnir frá samstarfsskólunum fengu það hlutverk að taka nemendur í kennslustund í norrænu tungumálunum. Annette sá um að taka nemendur í kennslustund í íslensku en útgangspunkturinn í kennslunni voru sterkar kvenpersónur í íslensku fornsögunum. Nemendur fengu einnig fræðslu um íslenska nafnahefð, kyn og beygingarfræði sem nemendum þótti nokkuð flókið að skilja!