Jafnréttis- og mannréttindavika í VMA
Þessi vika í skólastarfinu í VMA ber yfirskriftina Jafnréttis- og mannréttindavika og eins og yfirskriftin ber með sér verður sjónum beint að ýmsu er lýtur að þessum þáttum. Vikan byrjar með gleðideginum mikla í dag og að því tilefni býður Þórduna nemendum í morgunmat.
Áhugaverður fyrirlestur Sigurður Þorra Gunnarssonar í dag
Strax í dag verða áhugaverðir viðburðir. Sigurður Þorri Gunnarsson, fjölmiðlamaður, verður með erindi í M-01 kl. 13.15 sem hann nefnir Vertu þú sjálfur. Sigurður Þorri var á sínum tíma í VMA – á árunum 2005-2009 og í framhaldi af því nam hann fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og hélt að því loknu til framhaldsnáms í Englandi. Núna er hann tónlistarstjóri og dagskrárgerðarmaður á útvarpsstöðvum Símans, K100 og Retro 895.
„Ég ætla að segja mína sögu og frá því hvernig ég öðlaðist frelsi þegar ég viðurkenndi fyrir sjálfum mér og öðrum hver ég er í raun og veru,“ segir Sigurður Þorri, en í febrúar á næsta ári eru liðin tvö ár síðan hann opinberaði það fyrir alþjóð að hann væri samkynhneigður. „Þetta skref breytti öllu í mínu lífi. Þá gat ég loksins farið að einbeita mér að því að lifa lífinu en ekki lifa í ótta við hvað öðrum finndist um mig,“ segir Sigurður Þorri, sem einnig verður með hljóðnemann á lofti í löngu frímínútum í Gryfjunni í dag. Þar verður dagskrá vikunnar kynnt og greint m.a. frá auglýsingasamkeppni sem verður í gangi í vikunni. Keppnin gengur út á að gera 30-60 sekúndna langa auglýsingu og er þema auglýsinganna jákvæð hlið á VMA. Auglýsingunni ber að skila eigi síðar en kl. 11 nk. fimmtudag.
Grunnskólakynning á þriðjudag
Mikið verður um að vera í skólanum á morgun þegar von er á fjölda grunnskólanema til þess að kynna sér nám og starf í VMA. Þessi kynning er árleg og hefur fengið góða einkunn grunnskólanna, enda leggur VMA metnað sinn í að kynna vel þá fjölbreyttu starfsemi sem skólinn rúmar.
Kvennakvöld á þriðjudagskvöld
Í þessari viku verða bæði kvenna- og karlakvöld. Kvennakvöldið verður annað kvöld, þriðjudagskvöld, kl. 20-23 í Gryfjunni. Verð aðgöngumiða er kr. 1000 fyrir nemendur í Þórdunu og Hugin en 1500 kr. fyrir aðra. Ölvun ógildir miðann. Um alla þræði á konukvöldinu halda þeir Egill Bjarni Friðjónsson, nemandi í VMA, og Björn Bragi, uppistandari úr Mið-Íslandi, sem er líklega hvað þekktastur fyrir að vera spyrill í Gettu betur.
Ræðukeppni, furðuföt og kynning á Feministafélaginu á miðvikudag
Miðvikudagurinn verður fjörlegur. Klukkan 09:20 verður efnt til ræðukeppni í Gryfjunni þar sem kennarar og nemendur reyna með sér.
Lagt er til að á miðvikudaginn gefi nemendur og starfsmenn skólans hugmyndafluginu lausan tauminn og klæði sig á óhefðbundinn hátt.
Feministafélag VMA verður með umræður og kynningu á starfi sínu í M-01 kl. 09:55.
Áhugaverðir fyrirlestrar og kynningar á fimmtudag
Á fimmtudaginn verða sannarlega áhugaverðir fyrirlestrar og kynningar í skólanum.
Kl. 09:55 verða skiptinemar með kynningu í M-01 á heimalöndum sínum.
Kl. 11:25 verður kynning á Samtökunum ´78 í M-01.
Kl. 13:15 verður Hjalti Jónsson sálfræðingur VMA með fyrirlestur í M-01 sem hann nefnir Glaður í bragði.
Kl. 14:45 verða lífsleikninemendur með umræður um reglur á samfélagsmiðlum, hefndarklám, „Free the Nipple“ o.fl.
Karlakvöld á fimmtudagskvöld
Á fimmtudagskvöldið kl. 20-23 er komið að karlakvöldinu og mun Helga Braga Jónsdóttir leikkona stýra því af sinni alkunnu snilld. Verð aðgöngumiða kr. 1000 fyrir nemendur í Þórdunu og Hugin en 1500 fyrir aðra. Ölvun ógildir aðgöngumiðann.
Verðlaunaafhending á föstudag
Verðlaun fyrir bestu auglýsinguna verða afhent í löngufrímínútum á föstudaginn – kl. 09:40. Þess má geta að alla vikuna verða félagar í stuttmyndaklúbbnum Æsi á ferð um skólann og fá nemendur og starfsfólk til að svara nokkrum laufléttum spurningum.