Kjötiðnaðarnám í VMA gefur góða raun
Frá 2008 hefur án uppihalds verið kjötiðnaðarnám í VMA og sem stendur stunda það sex nemendur. Námið er í nánu samstarfi við kjötiðnaðarfyrirtækin á Norðurlandi en óvíða á landinu er kjötiðnaður með meiri blóma en einmitt í þessum landsfjórðungi og er námið fyrirtækjunum afar mikilvægt. Nemendur í kjötiðn í VMA koma af öllu Norðurlandi, frá Blönduósi í vestri til Vopnafjarðar í austri.
Eðvald Sveinn Valgarðsson hefur stýrt kjötiðnaðarnáminu í VMA síðan 2008. Hann hefur lengi starfað sem gæðastjóri hjá kjötiðnaðarfyrirtækinu Kjarnafæði á Svalbarðsströnd og jafnframt hefur hann réttindi til kennslu í framhaldsskóla. Eðvald Sveinn hefur kennt faggreinarnar í kjötiðnaðarnáminu í VMA og á undanförnum árum hefur hann aflað sér og byggt upp námsefni sem hann hefur síðan kennt nemendum sínum. „Frá árinu 2000 til 2008 hafði verið uppihald í kjötiðnaðarnámi hér á Akureyri. Náminu var hætt hér á sínum tíma til þess að beina nemendum í námið í MK fyrir sunnan. En síðan kom beiðni frá kjötvinnslufyrirtækjunum hér, Norðlenska og Kjarnafæði, um að hefja námið aftur hér í VMA og við því var orðið. Það kom á daginn að fáir nemendur voru tilbúnir til þess að fara suður í hálft annað ár í nám með tilheyrandi kostnaði og því fór einfaldlega að vanta fagfólk hjá kjötiðnaðarfyrirtækjunum hér. Ég vil segja að námið hér hefur gengið vel og það hefur komið í ljós að á sveinsprófum hafa nemendur héðan verið að standa sig mjög vel sem vonandi er þá til marks um það að þeir eru vel nestaðir úr náminu okkar,“ segir Eðvald. Verklegu sveinsprófin hafa til þessa verið í Reykjavík en í fyrsta skipti til fjölda ára var um helgina haldið sveinspróf í húsakynnum Norðlenska fyrir fjóra kjötiðnaðarnema sem þar starfa og hafa lokið náminu í VMA. „Ég fagna því mjög að það skyldi vera hafður þessi háttur á, sem sagt að prófdómararnir komu norður til þess að prófdæma nemana í stað þess að þeir færu suður í prófið. Nemarnir tóku prófið í því umhverfi og unnu við þau dýru og flóknu tæki sem þeir hafa verið þjálfaðir í að nota.“
Eðvald segir að eðli málsins samkvæmt komi hann úr kjötiðnaðinum. Þar hafi hann unnið lengi. „Ég kenni öll bóklegu fagfögin með því námsefni sem ég hef verið að setja saman undanfarin ár. Námsefnið hef ég sótt frá Danmörku og þýtt það og staðfært. Grunnur verklega námsins fer fram hér í VMA, hér höfum við tækjabúnað sem gerir okkur kleift að fara í gegnum grunnatriðin. Það eru þrír bekkir í náminu. Í fyrsta bekk er farið í gegnum bóklega hráefnisfræði – fjallað er um öll sláturdýr á Íslandi, í öðrum bekk er úrbeiningin tekin fyrir og þá er bóklegi hlutinn kenndur hér í VMA og verklegi hlutinn að hluta en einnig hef ég farið með nemana út í Kjarnafæði og þar höfum við aðgang að hráefni þannig að nemarnir fái góða þjálfun í úrbeiningu. Einnig höfum við verið í góðu samstarfi við fyrirtæki með kjötborð á Akureyri og sömuleiðis höfum við verið í samstarfi við Hnýfil um þjálfun í úrvinnslu á fiski. Allt er þetta unnið í samræmi við námsskrá. Ég hef verið með nemendur í lotunámi hér í skólanum, á föstudögum og laugardögum, fimm námslotur á hverri önn. Með þessu móti geta nemendur haldið áfram sínum störfum í viðkomandi kjötvinnslufyrirtæki jafnhliða náminu. Þetta fyrirkomulag hefur gefið mjög góða raun. Ég hef heimsótt þær kjötvinnslur þar sem nemarnir starfa og vinn kennsluna í nánu samstarfi við verkstjóra í fyrirtækjunum. Þeir eru því meðvitaðir um hvað nemendunum beri að læra. Ég hef líka þann háttinn á að ég fæ mat frá nemunum um eigin getu í ákveðnum verkþáttum og sömuleiðis kalla ég eftir mati meistara nemendanna á getu þeirra í þessum sömu verkþáttum. Með þessu móti hef ég betri sýn yfir getu og kunnáttu nemendanna og þannig er unnt að bæta úr því sem þarf að bæta. Í lok annars bekksins læt ég nemendur fara í ígildi sveinsprófs í úrbeiningu. Í þriðja og síðasta bekknum er farið í farsgerð, bóklega og verklega. Farið er í hvernig hinar ýmsu kjötvörur eru framleiddar. Þennan námsþátt vinn ég eins og áður, farið er í grunnþættina í VMA og síðan er farið dýpra í málin úti í kjötvinnslununum. Unnið er í nánu samstarfi við verkstjórana, staðan er tekin á miðju námstímabili og í lokin er farið í gegnum það sama og nemendur geta gert ráð fyrir á sveinsprófi. Í lok námstímans eiga nemendur því að hafa fengið smjörþefinn af sveinsprófi og eru því vel undir það búnir. Frá 2008 hafa yfir fjórir hópar hafið hér lotunám í kjötiðn – í heildina yfir þrjátíu nemendur og sautján hafa nú þegar útskrifast.“
Eðvald segir að nemendur geti innritast í kjötiðnaðarnám strax að loknu grunnskólanámi en reynslan sé hins vegar sú að bróðurpartur nemenda í þessari iðngrein sé nokkrum árum eldri. „Meðalaldur nemenda hér frá 2008 hefur verið 25+. Með því að kenna í lotum á föstudögum og laugardögum er nemendum gert kleift að vinna fulla vinnu til hliðar við námið. Þeir sem vilja hefja þetta nám fara á samning í kjötvinnslu og að því loknu geta viðkomandi nemendur komið hingað og sýnt fram á þeir hafi samning í handraðanum. Þá geta þeir skráð sig í námið,“ segir Eðvald. Hann segir að þeim hópi sem nú er að fara í gegnum námið, sex nemendur, verði fylgt eftir til enda og síðan verði tekinn inn næsti hópur. „Það er gleðilegt að nú þegar eru komnir fjórir nemendur á biðlista í næsta hóp og við þurfum átta til tíu nema til þess að fara af stað með nýjan hóp. Að óbreyttu mun þessi fimmti hópur hefja hér nám haustið 2017. Það er mikil þörf fyrir fagmenntað fólk í þessari iðngrein og það hefur verið slegist um það. Atvinnuhorfurnar í þessari iðngrein eru því mjög góðar,“ segir Eðvald.“
Þegar litið var inn í kennslustund hjá kjötiðnaðarnemum var Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri mætvælabrautar VMA, að gefa þeim ýmis góð ráð varðandi eldamennsku og jafnframt sýndi hún þeim og leiðbeindi við steikingu á lambafillet. Á meðfylgjandi mynd eru fjórir af sex nemendum í nemendahópnum að þessu sinni. Hinir tveir voru fjarverandi þegar myndin var tekin, annar er frá Blönduósi og hinn frá Akureyri. En á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Helga Eyjólfsdóttir, starfar hjá Norðlenska á Húsavík, Davíð Helgi Davíðsson, starfar hjá Norðlenska á Húsavík, Eðvald Sveinn Valgarðsson kennari og umsjónarmaður kjötiðnaðarnámsins, Rakel Þorgilsdóttir, starfar hjá Kjarnafæði á Svalbarðsströnd og Níels Almar Sveinsson, starfar hjá Kjarnafæði á Svalbarðsströnd.