Ljósgjafinn gefur rafiðnaðardeild VMA verkfæri
Fyrirtækið Ljósgjafinn á Akureyri færði í dag rafiðnaðardeild VMA ýmis verkfæri að gjöf sem munu nýtast vel við kennslu í deildinni. Þetta er annað árið í röð sem Ljósgjafinn gefur rafiðnaðardeildinni verkfæri til notkunar við kennslu.
Stefán Karl Randversson, tæknistjóri Ljósgjafans, og Sigurður Ólafsson, þjónustustjóri hjá fyrirtækinu, komu færandi hendi í VMA í dag og veittu Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og Guðmundur Ingi Geirsson, kennari í rafiðngreinum, gjöfinni viðtöku fyrir hönd skólans. Komu þau á framfæri miklum og góðum þökkum til Ljósgjafans fyrir þennan mikilvæga stuðning við rafiðnaðardeild VMA.
Stefán Karl lét þess getið að hann hefði á sínum tíma lært til rafvirkja í þessari deild og því bæri hann hlýjan hug til hennar. Í framhaldinu sagðist hann hafa starfað um tíma sem rafvirki á Ljósgjafanum og farið síðan til náms í rafmagnstæknifræði í Danmörku. Stefán Karl lagði á það áherslu að verknám væri mjög góður grunnur fyrir hverskonar tækninám.
Þeir Stefán Karl og Sigurður létu þess getið að það væri Ljósgjafanum mikils virði að rafiðnaðarnámið í VMA væri sem öflugast og ánægjulegt væri að segja frá því að fyrirtækið hefði á síðustu misserum og árum ráðið til starfa góða starfsmenn sem hafi lokið sínu námi í VMA, nú síðast hafi verið ráðnir tveir rafvirkjar til Ljósgjafans sem útskrifuðust í desember sl.