Fara í efni

Skíðagöngumaðurinn í málminum

Stefán Þór Birkisson, málmiðnnemi og skíðagöngukappi.
Stefán Þór Birkisson, málmiðnnemi og skíðagöngukappi.

Stefán Þór Birkisson er á fyrsta ári í grunndeild málmiðnaðar og hefur tekið stefnuna á vélstjórn til B-réttinda og stúdentspróf í framhaldinu. Að því loknu er hann ákveðinn í að fara í búfræðinám á Hvanneyri og svo liggur leiðin heim í búskapinn á ættaróðalinu Tröllatungu á Ströndum, um 11 km suður af Hólmavík. Hann segist snemma hafa verið ákveðinn í því að verða bóndi og ekkert hafi breytt þeim áformum. Kjörið sé að byrja á því afla sér þekkingar í málmsmíði og ýmsu er lýtur að vélum, hún nýtist þegar á hólminn sé komið í búskapnum.

Systir Stefáns Þórs er Árný Helga og hún er líka í VMA, á öðru ári á íþrótta- og lýðheilsubraut. Þau systkinin eiga sama áhugamál, sem er skíðaganga. Stefán segist varla hafa verið farinn að ganga þegar hann var kominn á gönguskíðin á túninu heima í Tröllatungu. Síðan eru liðin mörg ár og enn er Stefán á gönguskíðum, ekki bara sér til yndis og ánægju heldur er gangan hans keppnisgrein. Það gildir raunar líka um Árnýju systur hans. Bæði fóru þau í febrúar fyrir Íslands hönd alla leið austur til Bakuriani í Georgíu þar sem þau voru í fimmtán þátttakenda hópi frá Íslandi á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Það var mikil og ógleymanleg upplifun, segir Stefán. Hann keppti í þremur göngugreinum, með hefðbundinni aðferð, frjálsri aðferð (skaut) og boðgöngu. Fyrsta gangan segir Stefán að hafi gengið brösuglega en hann var vel sáttur með hinar tvær.

Það er ekki beint hægt að segja að Georgía sé handan við hornið. Ferðalagið þangað austur tók um hálfan annan sólarhring og heimferðin töluvert lengri tíma. En Stefán segir að þrátt fyrir strembið ferðalag hafi þetta verið meira en þess virði.

Hápunktur keppnistímabilsins hér heima verður síðan núna um helgina í Hlíðarfjalli þar sem skíðagönguhluti Skíðamóts Íslands fer fram. Þar ætlar Stefán að mæta til leiks og hann segist spenntur enda stefni í fínar aðstæður eftir snjókomuna sl. miðvikudag. Veðurspáin er ekki af lakara taginu – sól og blíða meira og minna alla helgina!