Skrítið að dreyma á ensku
Ægir Jónas Jensson hóf nám í húsasmíði í byggingadeild VMA haustið 2013 og lauk þar þremur önnum áður en hann fór sem skiptinemi til Nýja-Sjálands í lok janúar í fyrra. Hann kom aftur heim til Akureyrar fyrripart desember og hélt áfram núna í janúar þar sem frá var horfið í húsasmíðinni.
„Ég man eftir því að sem krakki fannst mér alltaf dálítið forvitnilegt þegar ungt fólk var að fara til útlanda sem skiptinemar. Eins og allir unglingar fékk ég síðan bækling frá AFS-skiptinemasamtökunum og fór þá að kynna mér þetta frekar. Mér leist vel á og bar þá hugmynd undir foreldra mína að fara í eitt ár út sem skiptinemi. Þau gáfu grænt ljós á það og þá fór ég að vinna að því að fjármagna námsdvölina ytra,“ segir Ægir. Hann hafði strax áhuga á að fara alla leið til Nýja-Sjálands, þó svo að það land sé eins langt í burtu frá Íslandi og hugsast getur. Hann setti því Nýja-Sjáland efst á óskalistann og fékk þessa ósk sína uppfyllta.
„Það má segja að ég hafi undirbúið skiptinemadvölina á Nýja-Sjálandi í um eitt ár en ég fór síðan út í lok janúar í fyrra. Ég dvaldi hjá ljómandi fínni fjölskyldu frá Skotlandi sem hefur búið á Nýja-Sjálandi í tíu ár. Þau búa í bæ sem heitir Pukekohe, skammt sunnan við stærstu borg landsins, Auckland. Það tekur aðeins hálftíma að keyra til Auckland og einnig eru góðar lestarsamgöngur þarna á milli og því fór ég oft til Auckland. Ég sótti skóla í Pukekohe, sem þeir kalla „high school“. Þetta er grunnskóli en er til átján ára aldurs í stað sextán ára hér. Á þessu skólastigi eru nemendur í þrettán vetur og ég var þarna í áfangakerfi með nemendum á þrettánda og síðasta ári. Þegar nemendur ljúka þessu skólastigi fara þeir í háskóla.“
Ægir segir að dvölin á Nýja-Sjálandi hafi í senn verið mjög skemmtileg og þroskandi. „Það sem kannski upp úr stendur er hversu ólíkt Nýja-Sjáland er Íslandi en um leið mjög líkt. Menningin á Nýja-Sjálandi eru um margt mjög lík því sem ég við þekkjum hér á Íslandi og hana má trúlega rekja til áhrifa Breta þar,“ segir Ægir.
Hann segist hafa eignast góða vini á Nýja-Sjálandi og sé í sambandi við þá í gegnum bæði Facebook og Skype. Að loknu húsasmíðanáminu í VMA segist Ægir alveg geta hugsa sér að fara aftur til Nýja-Sjálands og vinna þar sem smiður. „Þetta var virkilega góð reynsla og ég get sannarlega mælt með þessu,“ segir Ægir. „Auðvitað gafst tækifæri til þess að læra enskuna enn betur. Ég var þokklegur í ensku þegar ég fór út, að minnsta kosti var mér sagt það úti, en ég var orðinn miklu öruggari að tala hana þegar leið á dvölina. Ég var farinn að hugsa á ensku og það var mjög skrítið þegar mig dreymdi á ensku í fyrsta skipti,“ segir Ægir. Hann segir að fleiri íslenskir skiptinemar hafi verið á Nýja-Sjálandi á sama tíma og þeir hafi hist nokkrum sinnum. Einnig hafi hann verið í sambandi heim í gegnum Skype að jafnaði tvisvar í mánuði, en að öðru leyti hafi hann ekki talað eða heyrt íslensku. „Það er mælt með því að vera ekki í stöðugu sambandi heim og ég ákvað að hafa ekki samband heim nema kannski tvisvar í mánuði. Það gengur einfaldlega ekki að vera á Nýja-Sjálandi en vera samt með hugann heima, hinum megin á hnettinum,“ segir Ægir.