Vetrarfrí í dag og á morgun
Eins og kom fram í tilkynningu skólameistara hér á vefnum í gær halda nemendur og kennarar í dag og á morgun upp á afmæli Þórunnar hyrnu og Þorbjargar hólmasólar og af þeim sökum verður skólinn lokaður þessa daga. Kennsla samkvæmt stundaskrá hefst aftur nk. mánudag, 10. mars. Það er orðin hefð fyrir því að nefna vetrarfrísdagana fyrir og eftir áramót eftir landnámshjónununum Helga magra og Þórunni hyrnu og dóttur þeirra, Þorbjörgu hólmasól.
Í þessu sambandi er vert að rifja upp í stuttu máli landnámssögu Eyjafjarðar:
Landnámsmaðurinn Helgi magri fæddist á Írlandi. Sagan segir að foreldrar hans hafi komið honum ungum að árum í fóstur á Suðureyjum – vestur af Skotlandi – og þegar hann var sóttur tveimur árum síðar var hann svo magur að hann var vart þekkjanlegur. Í kjölfarið fékk hann viðurnefnið „magri“. Kona hans, Þórunn hyrna, var dóttir Ketils flatnefs. Systir Þórunnar var Auður djúpúðga sem var landnámskona og kvenskörungur vestur í Dölum.
Ætla má að Helgi magri og Þórunn hyrna hafi komið í Eyjafjörð í kringum 900, en sagan segir að Ingólfur Arnarsson hafi numið land árið 874 og verið hinn fyrsti eiginlegi landnámsmaður á Íslandi. Fyrsta veturinn voru þau Helgi og Þórunn á Árskógsströnd við utanverðan Eyjafjörð, að vestan. Um vorið sigldu þau svo innar í fjörðinn og settu sig niður í Kristnesi og bjuggu þar. Sagt er að áður en Helgi reisti bæ sinn í Kristnesi hafi Þórunn kona hans orðið léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará og alið þar dóttur sem kölluð var Þorbjörg hólmasól.
Minningu þeirra þriggja er sem sagt haldið á lofti hér í VMA og einnig er þeirra minnst með öðrum hætti á Akureyri. Þannig er Þórunnarstræti nefnt eftir Þórunni hyrnu, Helgamagrastræti að sjálfsögðu nefnt eftir Helga magra og leikskólinn Hólmasól er nefndur eftir Þorbjörgu hólmasól.