VMA í Gettu betur í kvöld
„Við reynum bara að gera okkar besta. Síðan verður að koma í ljós hversu langt það dugar okkur,“ segir Stefán Jón Pétursson, formaður Þórdunu og einn þremenninganna sem keppa í kvöld fyrir hönd VMA í Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskólanna.
Þessi fyrsta umferð Gettu betur fer fram á Rás 2 og hófst keppnin sl. mánudagskvöld. Þá voru þrjár viðureignir; lið Kvennaskólans sigraði lið Menntaskólans á Egilsstöðum, lið Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hafði betur gegn liði Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og lið Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal sigraði lið Tækniskólans. Fjórða viðureignin sem átti að vera sl. mánudag var milli Menntaskólans á Akureyri og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri en af henni varð ekki því Hvanneyringar gáfu viðureignina. Síðastliðin mánudag komust því áfram í aðra umferð lið Kvennaskólans, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Framhaldsskólans á Laugum og Menntaskólans á Akureyri.
Í gærkvöld voru síðan aðrar fjórar viðureignir: Menntaskólinn við Sund – Framhaldsskólinn á Húsavík,
Fjölbrautaskólinn við Ármúla – Menntaskólinn við Hamrahlíð, Verslunarskóli Íslands – Flensborgarborgskólinn í Hafnarfirði og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ – Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Skólarnir sem fóru áfram úr þessum fjóru viðureignum eru Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Flensborgarskólinn og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ.
Í kvöld verður síðan þriðja kvöldið í fyrstu umferð Gettu betur og þá eigast við Borgarholtsskóli – Verkmenntaskóli Austurlands, Fjölbrautaskóli Snæfellinga – Fjölbrautaskóli Suðurnesja og loks Verkmenntaskólinn á Akureyri – Menntaskólinn á Ísafirði. Útsending hefst klukkan 19:20 á Rás 2 og verður VMA í eldlínunni gegn Ísfirðingum í síðustu viðureign kvöldsins.
Eins og komið hefur fram skipa Stefán Jón Pétursson, Margrét S. Benediktsdóttir og Steingrímur Viðar Karlsson Gettu betur lið VMA. Þjálfari þeirra er Urður Snædal, en hún er m.a. í Útsvarsliði Akureyringa í vetur.
„Undirbúningurinn hefur gengið bara ágætlega. Við höfum fyrst og fremst æft okkur á að svara ótal mörgum hraðaspurningum. Ætli sé ekki stóra málið núna á lokasprettinum að ná stressinu úr liðinu,“ segir Stefán og hlær. „Þetta snýst örugglega fyrst og fremst um að vera heppin með spurningar. Eins og gengur eru sumar mjög þungar en aðrar léttar. Við verðum bara að vona að við verðum heppin með spurningar,“ segir Stefán. „Ég held bara að liðið sé hin fínasta blanda. Mín sterka hlið er landafræði og fuglar, Steingrímur er sterkastur í tónlist, íþróttum og kvikmyndum og Margrét er einnig vel að sér í kvikmyndum og tónlist og er auk þess sérfræðingur í gömlu Sovétríkjunum,“ segir Stefán.