Upplýsingar fyrir nýnema
Verkmenntaskólinn á Akureyri býður öll velkomin í VMA.
Hér eru helstu upplýsingar sem nemendur og forráðamenn þurfa að vita í skólabyrjun
- Stundaskrár nemenda verða opnaðar í Innu eigi síðar en tveim dögum fyrir skólabyrjun.
- Upplýsingafundur fyrir nýnemar er auglýstur á heimasíðu VMA. Við upphaf haustannar er mæting í Gryfjuna og er nemendum skipt niður í hópa eftir umsjónarkennurum, hægt er að sjá umsjónarkennara í Innu. Mikilvægt er að allir nýnemar mæti. Foreldrum/ forráðamönnum er velkomið að koma með nemendum.
- Hægt er að sjá hvenær kennsla hefst á heimasíðu skólans undir skóladagatal.
Nemendur þurfa að verða sér út um rafræn skilríki áður en önnin hefst.
Mikilvægt er að fara yfir upplýsingar um netföng og símanúmer nemenda og forráðamanna í Innu og athuga hvort þær eru réttar. Skrá verður farsímanúmer í reitinn farsímar til að SMS sem skólinn sendir berist.
Til að efla samstarf heimilis og skóla eru forráðamenn nýnema boðaðir á rafrænan kynningarfund með námsráðgjöfum og stjórnendum á Teams á fyrstu dögum haustannar, slóð á fundinn verður settur inn á heimasíðu skólans þegar nær dregur.
Helsti tengiliður ykkar við skólann á þessu fyrsta ári verður umsjónarkennari nemanda (nafn umsjónarkennara kemur fram í Innu). Einnig er hægt að hafa samband við sviðsstjóra eða aðra stjórnendur eftir því sem við á.
Nemendur og forráðamenn eru beðnir að kynna sér vel upplýsingar sem eru á þessari síðu.
Gildi skólans
Gildi skólans - fagmennska, fjölbreytni og virðing - eru samofin starfsemi hans.
Í VMA leggjum við áherslu á öruggt námsumhverfi og virðingu í samskiptum. Það á við um öll samskipti, líka rafræn samskipti milli nemenda innan skólans. Eru forráðamenn beðnir um að ræða við börn sín um að sýna ávallt virðingu í öllum samskiptum innan skólans. Virkni í kennslustundum er forsenda þess að nemendum gangi vel að ná námsmarkmiðum sínum og viljum við ítreka við nemendur að nýta tímann í skólanum vel, skipuleggja tíma sinn með tilliti til þess náms sem þeir eru í og þeirrar skuldbindingar sem felst í því að hafa valið sér nám í framhaldsskóla.
Mætingareglur
Sú regla sem gildir um mætingar nemenda í skólann er einföld: Nemendum ber að mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
Ef nemandi getur ekki mætt í skólann vegna veikinda eða annarra forfalla ber forráðamanni að skrá það í Innu samdægurs. Upplýsingar um skólareglur, námsframvindu og réttindi og skyldur nemenda má finna á heimasíðu skólans og eru forráðamenn beðnir um að fara yfir þessar reglur með börnum sínum.
Inna - Upplýsingakerfi skólans
Mikilvægt er að forráðamenn og nemendur kynni sér Innu sem er upplýsingakerfi framhaldsskólanna. Hér má finna leiðbeiningar um notkun Innu sem við hvetjum fólk til að kynna sér. Til að skrá sig á Innu þarf að nota Íslykil eða rafræn skilríki. Nemendur þurfa að verða sér út um rafræn skilríki áður en önnin hefst.
Mikilvægt er að fara yfir upplýsingar um netföng og símanúmer nemenda og forráðamanna í Innu og athuga hvort þær eru réttar. Skrá verður farsímanúmer í reitinn farsímar til að SMS sem skólinn sendir berist.
Í Innu eru allar upplýsingar um námsframvindu nemenda (bókalisti, einkunnir, mætingar, verkefnayfirlit, o.s.frv.).
Heimasíða
Heimasíða skólans er aðalnámskrá skólans ásamt því að vera aðal frétta- og upplýsingaveita hans. Þar birtast upplýsingar um móttöku nýnema sem og annarra nemenda í byrjun ágúst. Á heimasíðu skólans er hægt að finna upplýsingar um starfsmenn, þjónustu skólans við nemendur og lýsingu á brautum og áföngum.
Mikil áhersla er á að birta reglulega fréttir af skólastarfinu á heimasíðu skólans. Fréttunum fylgja myndir en ef nemandi óskar eftir því að ekki birtist af honum myndir þá vinsamlegast látið vita á skrifstofu skólans. Teknar eru myndir af nemendum til að setja í Innu og eru þær einungis aðgengilegar viðkomandi nemanda, forráðamönnum hans og kennurum á hverjum tíma.
Nemendaþjónusta
Við skólann starfa náms- og starfsráðgjafar ásamt hjúkrunarfræðingi og forvarnafulltrúa. Upplýsingar um viðtalstíma þessara starfsmanna er að finna á heimasíðu skólans. Einnig er hægt að bóka tíma á heimasíðu skólans.
Þeir nemendur sem eiga rétt á sérúrræðum í námi þurfa að skila inn greiningargögnum til skólans, Bryndís Indíana Stefánsdóttir heldur utan um þau. Hægt er að senda gögnin í tölvupósti á bryndis.i.stefansdottir@vma.is eða koma með þau beint til hennar.
Skrifstofa skólans er staðsett í A-álmu (við austurinngang). Þar er tölvuþjónusta skólans og hægt að líta við til að fá ýmsar upplýsingar. Einnig er námsefni úr sumum áföngum selt á skrifstofunni. Athygli er vakin á því að skólinn hefur ekki tekið við reiðufé frá og með haustinu 2023.
Á bókasafni er góð aðstaða til heimanáms og verkefnavinnu. Þar er einnig góð aðstaða fyrir þá sem vilja fá að vera í friði og ró. Hægt er að fá aðstoð við verkefnavinnu, heimildaleit og fá lánað ýmislegt, s.s. fartölvur, bækur og tímarit.
Mötuneyti
Í skólanum er mötuneyti þar sem nemendur geta keypt heitan hádegisverð og aðrar veitingar. Sjá nánar á heimasíðu Mötuneytis MA sem rekur mötuneytið í VMA og mötuneytið á heimavist VMA og MA. Fyrir þá sem eru á heimavist er bent á frekari upplýsingar á heimasíðu heimavistar. Nú geta nemendur VMA sem eru á heimavist valið að borða hádegismat í VMA en sá möguleiki hefur ekki verið áður.
Heimavist
Nemendur á heimavist fá upplýsingar frá starfsfólki Lundar, heimavistar VMA og MA. Í ljósi þess að stundum hefur komið upp misskilningur, þá skal það ítrekað að umsókn um heimavist fer alfarið í gegnum Lund, heimavist VMA og MA. Svar um skólavist er ekki svar um heimavist, þótt þetta haldist í hendur þar sem skólavist er forsenda veru á heimavistinni. Upplýsingar um opnun heimavistar í upphafi annar eru birtar á heimasíðu Lundar, www.heimavist.is
Skóla- og efnisgjöld
Skólagjöld annarinnar eru kr. 23.300 og kemur greiðsluseðill í heimabanka þess forráðamanns sem eldri er. Með greiðslu skólagjalda staðfestir þú umsókn þína í VMA. Skólagjöldin skiptast í innritunargjald kr. 6.000, gjald til Þórdunu (nemendafélags VMA) kr. 4.800, þjónustugjald kr. 8.500 kr. og kr. 4.000 í ferðasjóð vegna nýnemaferðar. Nýnemaferð er farin í lok ágúst og er hluti af skólastarfi allra nýnema. Innritunargjöld fást ekki endurgreidd.
Séu skólagjöld ekki greidd verður litið svo á að nemandi hafi fallið frá umsókn sinni og verður hann tekinn af nemendalista skólans.
Efnisgjöld vegna verklegra áfanga eru innheimt með greiðsluseðli í upphafi annar. Upplýsingar um upphæð efnisgjalda má fá á heimasíðu VMA í byrjun annar.
Nemendur sem innritast í hársnyrtiiðn þurfa að kaupa nemendapakka sem kostar 100.000 kr. Sjá nánar hér
Nemendur sem innritast í rafiðn gefst kostur á að kaupa verkfæratösku á hagstæðu verði eða í kringum 60.000 kr. Inniheldur taskan verkfæri sem nemandi á sjálfur og þarf að eiga að námi loknu þegar kemur að sveinsprófi. Mælt er með því að allir nemendur kaupi sér tösku á fyrstu önn.
Félagslífið - Þórduna nemendafélag
Í skólanum er öflugt félagslíf sem skipulagt er af Þórdunu, nemendafélagi skólans. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skulu nemendafélag og skólaráð starfa í skólunum. Hlutverk þeirra er að gæta hagsmuna nemenda í málum er varða réttindi og skyldur þeirra. Nemendum er hins vegar ekki skylt að vera í nemendafélaginu og eiga þess kost að fá nemendafélagsgjaldið endurgreitt. Sækja þarf um endurgreiðslu á skrifstofu skólans í fyrstu viku hverrar annar. Nemendur eru eindregið hvattir til að vera í félaginu og fylgja því á samfélagsmiðlum, svo tryggja megi því sem mestan kraft, hvort sem er á sviði félagslífs eða í mikilvægum málum er varða hagsmuni nemenda. Nemendur fá nemendafélagsskírteini í Þórdunu sjá hér
Tölvur og tækni
Gert er ráð fyrir að nemendur séu með sína eigin fartölvur í skólanum.
Hér eru allar upplýsingar til að komast fljótt og örugglega inn í tölvukerfi VMA og allt sem því fylgir. Mikilvægt er að fylgja öllum leiðbeiningum en ef nemendur lenda í vandræðum er hægt að fá aðstoð hjá tölvuþjónustu skólans eða með því að hafa samband við hjalp@vma.is
Fyrir fyrstu innskráningu á tölvukerfi skólans eru þetta skrefin sem þarf að taka:
1) Notendanafn, netfang og lykilorð
Nú átt þú sérstakt VMA-netfang sem er t.d. vmaXXXXXX@vma.is Notendanafn þitt er fyrri hluti netfangsins, sem sagt vmaXXXXXX.
Þú sérð netfangið eftir að þú hefur valið þér lykilorð. Einnig getur þú flett því upp á inna.is
Til að komast inn í kerfin þarf að búa til lykilorð og er það gert með því að fara inn á lykilord.menntasky.is með rafrænum skilríkjum.
ATH: Ekki skal nota Safari vafrann(Mac / Apple)
a) Velja skólann
b) Búa til lykilorð sem þarf að vera a.m.k 10 stafir
c) Velja takkann Breyta lykilorði
2) Tvöföld auðkenning
Aðgangarnir hjá VMA eru tengdir við svokallaða tveggja þátta auðkenning (MFA). Hún er aðeins virk utan skólanetsins svo þið þurfið yfirleitt ekki að auðkenna ykkur með þeirri aðferð innan skólans. En við vinnu t.d. heima þurfið þið að auðkenna ykkur annað slagið. Það er gott að byrja á að setja þetta upp.
Þið getið valið um tvær leiðir til þess að setja upp þessa auðkenningu, mælt er með að setja báðar upp.
a) Setja upp Microsoft Authenticator í síma, tengja reikninginn og fá tilkynningu til að staðfesta innskráningu.
b) 6 stafa kóða í SMS skilaboði.
Hér eru leiðbeiningar um uppsetningu:
3) Office 365 – tölvukerfi í skýjunum
VMA er með kerfi frá Microsoft og er notast við Office 365 fyrir tölvupóst, skjalavistun og samvinnu af öllu tagi. Það þýðir að hver nemandi getur nálgast öll sín gögn og Office-forritin (t.d. Word, Excel, OneNote og fleira) í hvaða tölvu sem er, hvar í heiminum sem er.
Til þess að komst inn í þetta allt ferðu á www.vma.is og smellir þar á „Þjónusta – Microsoft 365“. Þar finnur þú upplýsingar um Microsoft 365.
4) Moodle og Inna
Í VMA eru notuð tvö kennsluumhverfi, Moodle og Inna. Hver kennari kynnir hvort umhverfið hann notar. Kennsluumhverfin eru notuð til að halda utan um ýmis gögn tengd áföngunum, t.d. verkefni, lesefni, áætlanir, einkunnir og fleira.
Við fyrstu innskráningu notar þú rafræn skilríki til að skrá þig inn. Eftir innskráningu í Innu getur þú farið í:
Stillingar -> Innskráning með Google og Office365 -> Velur „Opna“ hjá Office 365. Sjá hér
5. Þráðlaust net
Hægr er að tengjast þráðlausu neti skólans með tölvu og öðrum snjalltækjum, svo sem farsíma. Til að tengjast netinu þarf notendanafn og VMA-lykilorð. Öll netnotkun er á ábyrgð hvers og eins, sama hver heldur á tækinu. Þegar tengst er neti skólans í símanum þarf að velja netið sem heitir VMA, skrifa nafn nemanda í notendanafn og lykilorð hans.
Í Android símum þarf að stilla CA certificate á “Don‘t validate”.
6. Prentun
Allir nemendur fá prentinneign í upphafi hvers skólaárs. Þegar sú inneign klárast má kaupa inneign í afgreiðslu skólans.
Nánari upplýsingar um prentun má finna á heimasíðu skólans, undir „Þjónusta“ og „Prentun“.
Nýnemaferð
Á fyrstu vikum haustannar er farið með alla nýnema í nýnemaferð sem er skipulögð í samstarfi við Þórdunu nemendafélag. Ferðin er hluti af skólastarfi nýnema og er ætlast er til að allir taki þátt, enda er lagt upp með að ferðin sé skemmtileg og sé tækifæri til að kynnast samnemendum og starfsfólki.
Nánari upplýsingar fást hjá sviðsstjórum
- Bryndís Indíana Stefánsdóttir, sviðsstjóri starfsbrauta og brautabrúar (bryndis.i.stefansdottir@vma.is)
- Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og fjarnáms (omar.kristinsson@vma.is)
- Unnur Ása Atladóttir, sviðstjóri verknámsbrauta (unnur.asa.atladottir@vma.is)
Bestu óskir um gott samstarf og gott gengi ykkar í VMA.
Sigríður Huld Jónsdóttir,
skólameistari VMA