Fara í efni

Námsmatsreglur

Í Verkmenntaskólanum á Akureyri er námsmat fjölbreytt og aðferðir taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum, námsmarkmiðum og hæfni nemenda. Lögð er áhersla á leiðsagnarmat og símat sem gefur nemendum uppbyggilega og hvetjandi leiðsögn og metur vinnuframlag nemenda jafnt og þétt yfir önnina. Námsmatinu er ætlað að endurspegla markmið námsins og vera sanngjarnt, réttmætt og áreiðanlegt. Um fjölbreyttar matsaðferðir vísast í 3.kafla aðalnámskrár framhaldsskóla og um tilgang þess vísast í 11.kafla sömu námskrár. 

Með fjölbreyttu námsmati er m.a. átt við hefðbundin lokapróf, verkleg-, skrifleg- eða munnleg verkefni og próf, einstaklings-, para- eða hópaverkefni, jafningjamat, sjálfsmat, ferilmöppur, dagbók, myndbönd, tónlist, myndir, tjáningu o.s.frv.

Bifröst er á miðri önn en þá skal námsmat sem búið er að leggja fyrir í áfanganum vera komið inn í einkunnarreglu Innu. Miðað er við námsmat samkvæmt námsáætlun viku fyrir Bifröst. Bifröst á ekki við um námskeið sem eru styttri en fjórar vikur né um áfanga í fjarnámi.  Einkunnarreglur í Innu eru ætlaðar til að halda utan um framvindu náms og veita reglulega endurgjöf sem er mikilvæg til að nemendur hafi tækifæri til að bregðast strax við séu þeir að fara út af sporinu en líka til að hvetja nemendur til að halda áfram að gera vel. Úrræðum fyrir nemendur sem eiga við langvarandi veikindi að stríða og geta ekki lokið námsmati áfanga er lýst í VNL-101.

Námsmat áfanga er skilgreint með þrennum hætti; símatsáfangi þar sem verkefni annarinnar gilda 100% af námsmati, lokaverkefnisáfangi þar sem nemendur vinna að
heildstæðu lokaverkefni sem gildir 100% af einkunn í áfanganum og lokaprófsáfangi þar sem vægi lokaprófs er 30% - 50%.

Kennara er heimilt að meta þátttöku nemanda í kennslustundum til einkunnar. Með þátttöku er átt við ástundun nemandans, vinnubrögð, vinnusemi, frammistöðu, umgengni, frágang o.s.frv. Enda sé þátttakan skjalfest jafnt og þétt yfir önnina. Mæting nemanda í kennslustundir reiknast ekki til einkunnar.

Ekki er ætlast til að námsmatsþættir sem vega meira en 25% séu lagðir fyrir í síðustu tveimur kennsluvikum annarinnar.

Símatsáfangi:

símatsáfanga er námsmat fjölbreytt og nemendur fá tækifæri til að láta þekkingu sína, leikni og hæfni njóta sín. Allir þættir námsins eru metnir m.a. framfarir, þekking, skilningur, hæfni og leikni. Í símatsáfanga byggir námsmatið á að minnsta kosti fjórum þáttum. Þeim skal flestum vera lokið á kennslutímabili viðkomandi áfanga, en einumn þeirra má skila eftir að kennslu í áfanganum lýkur. Nemendum ber að ljúka öllum námsmatsþáttum. Námsmat má þó innihalda óvirkt námsmat t.d. þegar 15% matsþáttur byggir á fjórum verkefnum/prófum og aðeins þrjú þau bestu gilda. Lokaeinkunn er vegið meðaltal allra námsmatsþátta á önninni sem gilda til einkunnar og til að hún gildi þurfa nemendur að standast þær kröfur sem settar eru fram í námsáætlun viðkomandi áfanga. Einungis einn námsmatsþáttur má gilda 35%
innan símatsáfanga. Til að standast námsmat í símatsáfanga þarf nemandi að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Á GÁT-037 Gerð námsmatsþátta er gert ráð fyrir að stærsti námsþátturinn sé rýndur af fag-eða brautarstjóra. Í áfanga þar sem námsmat samanstendur af mörgum verkefnum með lítið vægi þarf að rýna 15% af námsmati áfangans óháð fjölda verkefna. 

Lokaprófsáfangi:

Í lokaprófsáfanga er námsmat fjölbreytt og nemendur fá tækifæri til að láta þekkingu sína, leikni og hæfni í ljós. Námsmatinu er ætlað að vera upplýsandi um stöðu  nemandans hverju sinni.

Að öllu jafna eru lokaprófsáfangar einungis í 3. þreps áföngum og aldrei í 1. þreps áföngum.

Ljúki áfanga með lokaprófi skal vægi þess vera 30% - 50%. Auk lokaprófs skal áfanginn byggja á að minnsta kosti þremur öðrum námsmatsþáttum, hver þeirra skal gilda mest 20%. Síðustu tvær kennsluvikur annar er ekki lagður fyrir námsmatsþáttur sem gildir til einkunnar. Lokapróf skal vera úr meginefni áfangans. Nemendum ber að ljúka öllum námsmatsþáttum. Lokaeinkunn áfanga skal vera vegið meðaltal allra námsmatsþátta sem gilda til einkunnar á önninni eins og sett er upp í einkunnarreglu í Innu. Til að standast námsmat í lokaprófsáfanga þarf nemandi að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Lokapróf skal rýnt af fag- eða brautarstjóra samkvæmt GÁT-037 Gerð námsmatsþátta. Kennarar geta skipulagt lokaprófsáfanga með þeim hætti að nái nemendur skilgreindum lágmörkum í námsmatsþáttum yfir önnina geta nemendur sleppt lokaprófi, svokallað valið lokapróf. Ef um valið lokapróf er að ræða þá þarf einnig að rýna stærsta námsmatsþátt annan en lokapróf.

Lokaverkefnisáfangi:

Í lokaverkefnisáfanga nota nemendur þá leikni, hæfni og þekkingu sem þeir hafa aflað sér til að vinna að heildstæðu verkefni. Verkefnið er unnið á síðasta námsári. Nemandi velur sér verkefni eftir áhugasviði að höfðu samráði við kennara. Gert er ráð fyrir að nemandi velji efni tengt sinni braut, þó er mögulegt að víkja frá þeirri reglu, en áfanginn gefur möguleika á þverfaglegu samstarfi. Öllu jafna er lokaverkefnið einstaklings- eða tveggja manna verkefni en hægt er að óska eftir undanþágu sem þarf þá að rökstyðja sérstaklega og lýsa vinnuframlagi hvers og eins í hópnum. Mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og skapandi vinnubrögð. Leggja þarf mat á a.m.k. fjóra þætti t.d. fræðilega umfjöllun, aðferðir, framkvæmd, úrvinnslu, meðferð heimilda, uppsetningu verkefnis, kynningu o.s.frv. Vægi lokaverkefnis er 100% og kemur vægi einstakra þátta fram í námsáætlun áfangans. Til að standast námsmat í lokaverkefnisáfanga þarf nemandi að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Á Bifröst skal nemandi fá stutta skriflega umsögn í gegnum Innu frá kennara um stöðu nemanda í lokaverkefni.

30.05.2024
Getum við bætt efni síðunnar?