Fara í efni

Sérefni gaf listnáms- og hönnunarbraut litaljósakassa

Borghildur Ína Sölvadóttir, Véronique Legros og Jóhann Gunnar Malmquist við litaljósakassann góða.
Borghildur Ína Sölvadóttir, Véronique Legros og Jóhann Gunnar Malmquist við litaljósakassann góða.

Jóhann Gunnar Malmquist, sölustjóri í málaradeild fyrirtækisins Sérefni, kom heldur betur færandi hendi í VMA í gær þegar hann færði fyrir hönd fyrirtækisins listnáms- og hönnunarbraut að gjöf svokallaðan litaljósakassa.

Fljótt á litið er ekki auðvelt að sjá hvaða eiginleikum kassinn býr yfir en þegar betur er að gáð kemur í ljós að hann er þeim eiginleikum gæddur að geta gefið mismunandi birtu. Fjórar birtustillingar eru í kassanum: náttúruleg birta, útfjólublátt, dagsbirta og hlý birta (ambient).

Kennararnir Borghildur Ína Sölvadóttir og Véronique Legros veittu kassanum viðtöku og þökkuðu Jóhanni/Sérefni þessa góðu gjöf. Þær sjá fyrir sér margvíslega notkunarmöguleika, ekki síst í litafræðikennslu og við samanburð á litum út frá mismunandi birtuskilyrðum, og einnig komi hann að góðum notum við myndatökur nemenda af verkum.

Jóhann Gunnar Malmquist segir það Sérefni ánægjuefni að geta lagt list- og hönnunarnámi í VMA lið með þessum hætti. Sérefni rói dags daglega á ekki ósvipuðum miðum í litagreiningu, hönnun og umhverfi og því eigi Sérefni og listnáms- og hönnunarbraut VMA eitt og annað sameiginlegt.