Fara í efni

HÖTE3HS05 - Módel- og tískuteikning

hugmyndavinna- og skissuvinna, líkamsbygging

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: SJÓN1TF05, SJÓN1LF05, HÖTE2HU05
Í áfanganum lærir nemandinn undirstöðuatriði í módel og tískuteikningu. Teiknað og mótað er eftir lifandi fyrirmynd, beinagrind og tvívíðum myndum. Nemandinn þjálfast í að umbreyta þrívíðu formi mannslíkamans í tvívíða teikningu. Lögð er áhersla á æfingar fyrir hlutföll, jafnvægi, hreyfingu og stöðu mannslíkamans og byggingu og mótun forma hans. Veitt er innsýn í þann samhljóm sem er milli módelteikningar og beina og vöðvabyggingar. Nemandinn beitir frjálsri teikningu þar sem leikur, túlkun og tjáning er í forgrunni. Hugmynda- og skissuvinna er unnin á fjölbreyttan hátt þar sem listrænn þáttur módel- og tískuteikningar er skoðaður og nemandinn er hvattur til að gera tilraunir og þróa sig í átt að persónulegri túlkun og stílfæringu teikninga. Í tengslum við verkefnavinnu skoðar nemandinn dæmi úr myndlistar- og hönnunarsögu þar sem mannslíkaminn og tískuhönnun er viðfangsefnið. Unnið er með skyggingu og áferðarteikningu í fatnaði. Fjölbreytt stílbrigði við frágang teikninga eru könnuð og flatar vinnuteikningar kynntar. Samhliða allri verkefnavinnu er nemandinn þjálfaður í notkun ýmissa teikniáhalda, lita, litasamsetninga og pappírs. Hann vinnur sjálfstætt að nánari skoðun á módeli, tískuhönnun og teiknistíl milli kennslustunda og ígrundar stöðugt verk sín í samvinnu við kennara og aðra nemendur. Unnið er með frágang og uppsetningu verkefna í ferilmöppu til kynningar.

Þekkingarviðmið

  • jafnvægi, hlutföllum, hreyfingu og mótun forma mannslíkamans
  • samhljómi milli módelteikningar og beina- og vöðvabyggingar
  • aðferðum til að meta jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og afstöðu mismunandi líkamshluta
  • hvað er líkt og ólíkt með módelteikngu og teikningu á tískugínum
  • hvernig nokkrir listamenn og tískuhönnuðir hafa unnið með mannslíkamann og fatnað í sögunni og samtímanum
  • mismunandi áferð og efniseiginleikum textíls og teikniaðferðum til að ná því fram bæði með og án munsturs
  • notkun teikniáhalda á fjölbreyttan hátt og mismunandi eiginleikum lita og pappírs
  • flötum vinnuteikningum
  • skissuvinnu sem hluta af hugmyndavinnu og mikilvægi stöðugrar æfingar til að ná framförum
  • mikilvægi framsetningar og uppsetningar ferilmöppu til kynningar á verkum sínum

Leikniviðmið

  • teikna og móta hreyfingu í mismunandi líkamsstöðu í jafnvægi og réttum hlutföllum
  • móta form líkamans
  • beita hjálparaðferðum til að meta jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og afstöðu mismunandi líkamshluta
  • nota ýmis teikniáhöld, liti og pappír á fjölbreyttan hátt
  • teikna tískugínur á fjölbreyttan og óhefðbundinn hátt
  • beita aðferðum til að ná fram skyggingu, áferð og efniseiginleikum
  • teikna flatar vinnuteikningar
  • vinna hugmyndavinnu og skissur út frá þema
  • setja upp eigin verk og kynna fyrir öðrum
  • kynna sér verk listamanna og tískuhönnuða

Hæfnisviðmið

  • nýta þekkingu sína og leikni í módelteikningu til að vinna að ýmsum ólíkum verkefnum í teikningu og tískuhönnun
  • nýta þætti í umhverfi sínu, hugmyndir og þemu og vinna með það á eigin forsendum í módelteikningu og tískuhönnun
  • teikna fjölbreyttar módel- og tískuteikningar
  • nýta verk annarra listamanna og hönnuða sem innblástur fyrir eigin verk
  • ígrunda verk sín og vinnuferli og taka virkan þátt í umræðu um verk sín og annarra
  • nýta sér mismunandi aðferðir til að þróa með sér persónulegan stíl
  • setja hugmyndir sínar og teikningar upp á fjölbreyttan og skapandi hátt og kynna þær
Nánari upplýsingar á námskrá.is
Getum við bætt efni síðunnar?