Fara í efni

Námsmatsreglur

Námsmat og færsla einkunna

1 - ÁBYRGÐ

Skólameistari ber ábyrgð á að unnið sé samkvæmt ferli um námsmat og færslu einkunna.

Áfangastjóri ber ábyrgð á að lokaeinkunn í Innu birtist nemendum, gerð próf- og yfirsetutöflu ef svo ber við og skipulagi sýnidags námsmats.

Fag-/brautarstjórar bera ábyrgð á að unnið sé samkvæmt ferli um gerð námsmatsþátta. Þeir bera einnig ábyrgð á því að samræmi sé á milli námsskrár/námsáætlana annars vegar og námsmatsþáttar hins vegar og að kröfur IMO um próf og próftöku séu uppfylltar ef það á við um áfangann.

Sviðsstjóri fjarnáms ber ábyrgð á skipulagi tengdu prófhaldi í fjarnámi ásamt áfangastjóra.

Kennari ber ábyrgð á námsmati sem fram kemur í námsáætlun, einkunnarreglu, yfirferð úrlausna og einkunnagjöf. Hann er jafnframt ábyrgur fyrir því að námsmat sé fært í einkunnarreglu Innu jafnóðum yfir önnina og lokanámsmat sé birt eigi síðar en daginn fyrir sýnidag námsmats. Hann ber einnig ábyrgð að vinna samkvæmt LSM-001 Leiðbeiningar til kennara á próftíma ef svo ber við.

Nemandi ber ábyrgð á námi sínu og því að skila þeim námsmatsþáttum sem settir eru fram í námsáætlun.

Sviðsstjóri starfsbrauta og brautabrúar ber ábyrgð á skráningu sérúrræða í Innu hjá nemendum með formlegar greiningar.

Starfsfólk skrifstofu ber ábyrgð á að fjölfalda lokapróf nemenda og þau viðbótargögn sem þurfa að fylgja með, ásamt því að halda utan um veikinda- og fjarvistartilkynningar.

2 - FRAMKVÆMD NÁMSMATS

Samkvæmt verklagsreglu VKL-106 um heildarstjórnun náms skal tilgreint í námsáætlun GÁT-045 hvernig námsmatinu skuli háttað, vægi verkefna og hvenær þau skuli lögð fyrir. Jafnframt þarf að tiltaka hvort um sé að ræða lokaverkefnisáfanga, símatsáfanga eða lokaprófsáfanga. Sjá flæðirit hér fyrir neðan.

Bifröst er á miðri önn. Þá skulu niðurstöður úr því námsmati sem búið er að leggja fyrir í áfanganum vera komnar inn í einkunnarreglu Innu. Miðað er við námsmat samkvæmt námsáætlun viku fyrir Bifröst. Bifröst á ekki við um námskeið sem eru styttri en fjórar vikur né um áfanga í kvöld- og fjarnámi.

Námsmatsdagar eru dreifðir yfir önnina og þá fellur að öllu jöfnu niður kennsla samkvæmt stundaskrá. Kennarar geta kallað nemendur til sín ef þeir vilja hitta nemendur t.d. þá sem hafa misst af námsmatsþáttum. Ef kennarar boða nemendur til sín eiga nemendur að sinna því boði hvort sem það er í kennslustund, í viðtal eða til að ljúka námsmatsþætti.

Einkunnarreglur í Innu eru ætlaðar til að halda utan um framvindu náms og veita reglulega endurgjöf sem er mikilvæg til að nemendur hafi tækifæri til að bregðast strax við séu þeir að fara út af sporinu en líka til að hvetja nemendur til að halda áfram að gera vel. Úrræðum fyrir nemendur sem eiga við langvarandi veikindi að stríða og geta ekki lokið námsmati áfanga er lýst í VNL-101.

3 - TEGUNDIR ÁFANGA

Námsmat áfanga er skilgreint með þrennum hætti; símatsáfangi þar sem verkefni annarinnar gilda 100% af námsmati, lokaverkefnisáfangi þar sem nemendur vinna að heildstæðu lokaverkefni sem gildir 100% af einkunn í áfanganum og lokaprófsáfangi þar sem vægi lokaprófs er 30% - 60%.

3.1. SÍMATSÁFANGI

Í símatsáfanga er námsmat fjölbreytt og nemendur fá tækifæri til að láta þekkingu sína, leikni og hæfni njóta sín. Allir þættir námsins eru metnir m.a. framfarir, þekking, skilningur, hæfni og leikni.

Til að standast námsmat í símatsáfanga þarf nemandi að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Á GÁT-038 Gerð námsmatsþátta er gert ráð fyrir að stærsti námsþátturinn sé rýndur af fag-eða brautarstjóra. Í áfanga þar sem námsmat samanstendur af mörgum verkefnum með lítið vægi þarf að rýna 15% af námsmati áfangans óháð fjölda verkefna.

Í símatsáfanga byggir námsmatið á að minnsta kosti fjórum þáttum. Þeim skal flestum vera lokið á kennslutímabili viðkomandi áfanga, en einumn þeirra má skila eftir að kennslu í áfanganum lýkur. Námsmat má innihalda óvirkt námsmat t.d. þegar 15% matsþáttur byggir á fjórum verkefnum/prófum og aðeins þrjú þau bestu gilda. Lokaeinkunn er samsett úr þeim námsmatsþáttum sem koma fram í námsáætlun er vegið meðaltal allra námsmatsþátta á önninni sem gilda til einkunnar og til að hún gildi þurfa nemendur að standast þær kröfur sem settar eru fram í viðkomandi áfanga. Einungis einn námsmatsþáttur má gilda 35% innan símatsáfanga.

3.2. LOKAVERKEFNISÁFANGI

Í lokaverkefnisáfanga nota nemendur þá leikni, hæfni og þekkingu sem þeir hafa aflað sér til að vinna að heildstæðu verkefni. Verkefnið er unnið að jafnaði á síðasta námsári. Nemandi velur sér verkefni eftir áhugasviði að höfðu samráði við kennara.

Gert er ráð fyrir að nemandi velji efni tengt sinni braut, þó er mögulegt að víkja frá þeirri reglu, en áfanginn gefur möguleika á þverfaglegu samstarfi. Öllu jafna er lokaverkefnið einstaklings- eða tveggja manna verkefni en hægt er að óska eftir undanþágu sem þarf þá að rökstyðja sérstaklega og lýsa vinnuframlagi hvers og eins í hópnum. Mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og skapandi vinnubrögð.

Leggja þarf mat á a.m.k. fjóra þætti. t.d. aðferðir, framkvæmd, úrvinnslu, meðferð heimilda, uppsetningu verkefnis, kynningu o.s.frv. Vægi lokaverkefnis er 100% og kemur vægi einstakra þátta fram í námsáætlun áfangans. Til að standast námsmat í lokaverkefnisáfanga þarf nemandi að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Í námsáætlun skal tekið fram með hvaða hætti nemendur fái, um miðja önn, skriflegar upplýsingar um stöðu sína í áfanganum.

3.3. LOKAPRÓFSÁFANGI

Í lokaprófsáfanga er námsmat fjölbreytt og nemendur fá tækifæri til að láta þekkingu sína, leikni og hæfni í ljós. Námsmatinu er ætlað að vera upplýsandi um stöðu nemandans hverju sinni. Að öllu jafna eru lokaprófsáfangar einungis í 3. þreps áföngum. Lokapróf geta verið innan kennslutíma annar eða í próftöflu á námsmatsdögum í lok annar.

Ljúki áfanga með lokaprófi skal vægi þess vera 30% - 60%. Lokapróf skal vera úr meginefni áfangans. Auk lokaprófs skal áfanginn byggja á að minnsta kosti þremur öðrum námsmatsþáttum. hver þeirra skal gilda mest 20%. Lokaeinkunn áfanga skal vera vegið meðaltal allra námsmatsþátta sem gilda til einkunnar á önninni eins og sett er upp í einkunnarreglu í Innu. Til að standast námsmat í lokaprófsáfanga þarf nemandi að standast þær kröfur sem settar eru fram í viðkomandi áfanga og að hafa náð 45% námsmarkmiða að lágmarki, þ.e. einkunn 5. Lokapróf skal rýnt af fag- eða brautarstjóra samkvæmt GÁT-037 Gerð námsmatsþátta.

Kennarar geta skipulagt lokaprófsáfanga með þeim hætti að nái nemendur skilgreindum lágmörkum í námsmatsþáttum yfir önnina geta nemendur sleppt lokaprófi, svokallað valið lokapróf. Ef um valið lokapróf er að ræða þá þarf einnig að rýna stærsta námsmatsþátt annan en lokapróf.

4 - VIÐURLÖG VIÐ BROTI Á NÁMSMATSREGLUM

Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í námsmati vísar kennari málinu til meðferðar áfangastjóra eða viðeigandi sviðsstjóra sem fyllir út GÁT - 039 Brot á námsmatsreglum. Viðurlög við brotum fara eftir hversu alvarleg brotin eru talin og hvort um ítrekuð brot sé að ræða.

Ámælisvert brot eða óæskileg hegðun í námsmati getur leitt af sér niðurfellingu námsmatsþáttar eða kröfu um endurtöku á námsmatsþætti. Nemandi getur einnig fengið formlega áminningu á feril sinn. Alvarlegt brot eða endurtekin brot í námsmati geta varðar brottvísun úr áfanga. Mjög alvarlegt brot eða ítrekuð alvarleg brot geta varðað brottvísun úr skóla.

Uppfært 25.04.2025

 

Getum við bætt efni síðunnar?