Fundur í Nantes - VET@work
Harpa Birgisdóttir kennari og brautarstjóri á hársnyrtideild og Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir kennari á félags- og hugvísindabraut fóru á fund í VET@work verkefninu vikuna 5.-8. febrúar 2019. Með í för var Hulda Hafsteinsdóttir hársnyrtimeistari og eigandi Medullu hársnyrtistofu en Medulla er einnig samstarfsaðili að verkefninu.
Verkefnið snýst um í fáum orðum að tengja/efla betur samvinnu milli skóla og atvinnulífs þegar kemur að því að senda nemendur á vegum skólans í vinnustaðanám(/starfsþjálfun)
Þetta var annar fundur í VET@work verkefninu.
Hér að neðan kemur ferðasaga Hörpu og Hrafnhildar frá fundinum í Nantes:
„Nantes er falleg borg og gaman að heimsækja mekka matar og drykkjar. Harpa og Hulda buðu eiginmönnum sínum með í ferðina, þeim Magna Rúnari Magnússyni framreiðslumeistara og rafvirkjameistara og Júlíusi Jónssyni matreiðslumeistara. Þess má geta að þeir sátu alla fundina með okkur vegna áhuga á verkefninu þar sem þeir starfa báðir í bransanum og Magni hefur ma. tekið við nemendum í vinnustaðanám í rafvirkjun frá VMA. Við gistum á Hotel Amiral sem staðsett er rétt við þjóðleikhús þeirra Nantes manna, virkilega vel staðsett í miðbænum og margar fallega göngugötur með litlum sérverslunum og þótti okkur vekja sérstaka athygli að ekki sáust stóru verslunarkeðjurnar H&M og Primark, sem okkur þótti til eftirbreytni og fyrirmyndar þar sem við vorum sammála um okkur þættu þær oft skemma borgarbrag.
Markmið verkefnisins þessa vikuna var að heimsækja tvö fyrirtæki sem taka við nemendum á samning þar sem vinnustaðanám er ekki viðhaft í Frakklandi. Hópurinn samanstendur af kennurum frá mismunandi skólum og tengiliðum í atvinnulífinu.
Fjórar finnskar konur sem koma úr heilbrigðisgeiranum, Tanja verkefnastýra, Bernadette, Nína og Johanna. Þremur Hollendinum sem koma úr félagsliða og félagsþjónustustörfum, Myriam, Brenda og Maarten. Tvær konur frá Frakklandi Mirelle og Evelyn kennarar við framhaldsskóla Nantes Terre Atlandique sem menntar ma. fólk í landbúnaði og garðyrkju. Phillip frá Bretlandi sem vinnur sem atvinnulífstengiliður fyrir nemendur sem þurfa að komast í verknám og ekki síðast en síst Hörpu og Hrafnhildi frá VMA og Huldu f.h hársnyrtigeirans.
Fyrirtækin tvö sem heimsótt voru heita Décojarden sem sérhæfði sig í almennri garðyrkju og skrúðgarðyrkju þjónustu. Þau tóku við nemendum frá skólanum Nantes Terre Atlandique, Apperenons Aujourd’hui Pour Cultiver Demain. Þar fengum við að skoða og ræða við eigandann um samvinnuna sem fyrirtækið á við skólann. Hitt fyrirtækið heitir Provost Lairie og sérhæfir það sig í að þjónusta bændur varðandi ræktun á landi og gerði fyrirtækið mikið út á stórar vinnuvélar og rak ma. stórt vélarverkstæði þar sem var að finna nema við hin ýmis störf, svo sem vélvirkja, bifvélavirkja og málmsuðunema. Við tókum viðtal við eiganda og nema í vélvirkjun og spurðum þá spjörunum úr um samvinnu milli skóla og fyrirtækisins, athygli vakti að eigandinn talaði um að nemana skorti oft sjálfsálit og sjálfstraust eftir skólagöngu þar sem þeir voru ekki hvattir og þeim sinnt í skólakerfinu.
Eitt hádegið var hópnum boðið í osta og vínkynningu frá nemendum úr skólanum sem voru að læra markaðsetningu á vörum beint frá býli, fjórir nemendur kynntu hver sitt vínið og ma. hvaða ostar pössuðu því, afar áhugavert og stóðu þessir nemendur sig með prýði í kynningu sinni. VET@work sem þýðir vocational training education versus workplaces eða á okkar ylhýra verkmenntun og vinnustaðir. Næsti fundur verður á Íslandi í október og hlökkum við mikið til þess að fá að kynna VMA, land og þjóð fyrir hópnum okkar.“