Í starfsnámi á Akureyri
Í mörg undanfarin ár hefur verið farsælt samstarf milli VMA og Randers Social- og Sunhedsskole í Randers í Danmörku. Skólarnir hafa haft milligöngu um verknám, annars vegar hafa nemendur frá Randers komið til Akureyrar og unnið í nokkrar vikur á dvalarheimilum aldraðra, m.a. á Hlíð og Lögmannshlíð, og hins vegar hafa sjúkraliðanemar í VMA farið til Randers og tekið þar hluta af sínu starfsnámi. Þetta fyrirkomulag hefur gefið mjög góða raun, nemendur hafa víkkað út sjóndeildarhringinn og kynnst ýmsu nýju í námi sínu. Erasmus styrkjakerfi ESB styrkir þetta starfsnám sjúkraliðanemanna.
Þessa dagana eru þrír nemendur frá Randers Social- og Sunhedsskole í Randers í verknámi á Akureyri, Chris Christiansen starfar á Lögmannshlíð og Tina Prang og Kinnie Steffensen á Hlíð. Þau verða í fimm vikur á Akureyri.
Þegar þau völdu að koma til Íslands fannst þeim öllum það spennandi kostur. Mörg önnur lönd komu til greina en til Íslands höfðu þau aldrei komið og langaði að slá tvær flugur í einu höggi, að starfa á Íslandi og fá tækifæri til þess að kynnast landi og þjóð. Þau eru sammála um að val þeirra hafi verið rétt, hér sé gott að vera, vinnan áhugaverð og nú þegar hafa þau séð eitt og annað í íslenskri náttúru. Þau hafa m.a. farið í Mývatnssveit og brugðu sér rúmlega bæjarleið þegar leiðin lá alla leið suður í Vík í Mýrdal. Þau draga ekki dul á að vegalengdin þangað og til baka hafi verið eilítið lengi en þau hafi átt von á en ferðin hafi verið ósvikið ævintýri! Og meira að segja eru Chris og Tina nú þegar búinn að ganga á Súlur og fleiri fjallgöngur eru í bígerð.
Þau eru sammála um að það sé mjög áhugavert að kynnast því hvernig unnið sé að umönnun aldraðra á Hlíð/Lögmannshlíð, á ýmsa lund sé eitt og annað í starfi sjúkraliða frábrugðið því sem þau þekki frá Danmörku. Eden-hugmyndafræðinni, sem er fylgt á Hlíð, hafi þau ekki kynnst áður.
Öll eru þau á lokasprettinum í námi sínu sem social- og sunhedsassistanter (sosu-assistanter) Mikill skortur er á fagmenntuðum fólki á þessu sviði í Danmörku og því segja þau ekki vandkvæðum bundið að fá vinnu að námi loknu. Nám þeirra er þannig byggt upp að helmingurinn er bóklegt nám og helmingur starfsnám. Það er fjölþætt, m.a. á öldrunarstofnunum, sjúkrahúsum og í heimaþjónustu.