VMA í Nordplus verkefninu Green Shift in Education - vefráðstefna miðvikudaginn 20. mars
VMA tekur nú þátt í Nordplus verkefni sem ber yfirskriftina Green Shift in Education. Hinir þátttökuskólarnir eru í Færeyjum, Noregi og á Grænlandi. Næstkomandi miðvikudag verður veflæg ráðstefna í verkefninu og er hún öllum áhugasömum opin. Hún verður í M01 í VMA kl. 11:00 og stendur í um tvær klukkustundir.
Samstarf fjögurra þátttökuskóla í þessu verkefni á sér margra ára sögu og hefur það oft verið kallað FING, sem vísar til þátttökulandanna Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands. Hinir skólarnir þrír eru Vinnuhaskulin í Þórhöfn í Færeyjum, Fagskolen Rogaland í Stavanger í Noregi og Arctic Technology/KTI råstofskolen í Sisimiut á Grænlandi.
Af hálfu VMA vinna að verkefninu Sævar Páll Stefánsson kennari vélstjórnargreina, Benedikt Barðarson aðstoðarskólameistari og Hanna Þórey Guðmundsdóttir, sem veitir bókasafni VMA forstöðu.
Upphafið á þessu FING-verkefni, sem er stýrt frá Noregi, var vinnufundur í Amsterdam sl. haust. Fulltrúar þátttökuskólanna hafa síðan hist reglulega á netfundum og borið saman bækurnar.
Í þessu verkefni er horft til grænna lausna í orkumálum og leitast við að fletta þær umræður og lausnir inn í kennslu í skólunum. Eðli málsins samkvæmt er nálgunin mismunandi í löndunum, hér á Íslandi er hlutur jarðvarmans stór í orkugeiranum og á það mun Sævar Páll einmitt leggja áherslu í erindi sínum á vefráðstefnunni á miðvikudaginn.
Öll samskipti þátttökuskólanna í verkefninu eru á ensku. Útbúin verður svokölluð Green Shift handbók og verður hún aðgengileg á heimasíðu verkefnisins sem VMA hefur umsjón með. Verkefninu lýkur með samráðsfundi í Noregi í ágúst 2025.
Dagskrá ráðstefnunnar nk. miðvikudag, 20. mars, verður sem hér segir:
11:00 Welcome and background to partnership. Símun Poulsen, Vinnuhaskulin, Tórshavn.
11:10 Nordic Green Shift in Education. Stella Aguirre og Öystein Försvoll, Fagskolen Rogaland, Stavanger.
11:20 State-of-the-art review. Wilhelm E. Petersen, Vinnuhaskulin, Þórshöfn
12:00-12:10 Green shift in thermal energy. Sævar Páll Stefánsson, VMA Akureyri.
12:10-12:20 Green shift in underground mining. Hans Hinrichsen og Emile Olsen Skjelsager, KTI råstofskolen, Sisimut.
12:20-12:30 A technical presentation of the CCUS value chain. Fredrik Nilse, Fagskolen Rogaland, Stavanger. CCUS as an enabler for new clean energy solutions such as hydrogen and synthetic fuel. Börge Harestad, Fagskolen Rogaland, Stavanger.
12:30-12:40 Green shift case study – effo. Wilhelm E. Petersen, Vinnuhaskulin Þórshöfn.
12:40-12:55 Q&A
12:55-13:00 Formleg ráðstefnulok