"Er þetta ekki örugglega kvöldmatur?"
Þrír piltar frá Akureyri, Kristján Blær Sigurðsson, Þorsteinn Kristjánsson og Úlfur Logason, gerðu sér lítið fyrir á dögunum og sigruðu í sínum flokki í stuttmyndasamkeppninni Laterna Magica í Vesterålen í Noregi. Kristján Blær, sem er á fyrsta ári í VMA, segir að verðlaunamyndband þeirra félaganna, sem heitir „Þórgnýr“ sé rúmlega sex mínútna leikin heimildamynd um fyrsta íslenska mafíósann.
Kristján Blær er á fyrsta ári á íþróttabraut VMA en félagar hans, Þorsteinn og Úlfur, eru á fyrsta ári
í MA. Þeir kynntust í sjöunda bekk í Brekkuskóla á Akureyri og hafa brallað ýmislegt saman síðan. Í janúar sl.
gerðu þeir tónlistarmyndband sem þeir sendu til þátttöku á Stuttmyndahátíðinni Stulla, sem er árleg
stuttmyndahátíð ungs fólks á Norðurlandi, sem hefur verið haldin frá 2008. Myndband þeirra lenti í öðru sæti og í
framhaldinu bauðst þeim að taka þátt í umræddi stuttmyndasamkeppni í Vesterålen, en samstarf er milli Menningarráðs Eyþings
– samtaka sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum og Menningarráðs Vesterålen.
Þetta nýja rúmlega sex mínútna myndband þeirra þremenninga, sem er grín-heimildarmynd um 16 ára gamlan dreng sem telur sig vera fyrsta
íslenska mafíósann, átti upp á pallborðið hjá frændum okkar í Norður-Noregi og það var valið það besta
úr 28 innsendum myndböndum frá ungmennum á aldrinum 14-16 ára. Í heildarkeppninni voru 42 myndbönd og þar segir Kristján Blær að
myndband þeirra félaganna hafi lent í öðru sæti.
Eins og í öllum alvöru samkeppnum fóru þeir þremenningar ásamt Gunnlaugi Víði Guðmundssyni frá Rósenborg til Vesterålen
og veittu verðlaunum fyrir fyrsta sætið viðtöku.
Laterna Magica er svæðisbundin kvikmyndahátíð fyrir börn og unglinga í Vesterålen sem fer fram í lok nóvember á hverju ári. Þetta var í 22. sinn sem hátíðin er haldin og er aðal markmið hennar að hvetja til kvikmyndagerðar meðal ungs fólks. Þetta er í fyrsta sinn sem kvikmynd frá kvikmyndahátíðinni Stulla tekur þátt í hátíðinni.
Kristján Blær segir að það hafi verið virkilega gaman að koma til Vesterålen, sem er lítill bær, á stærð við Dalvík, að hans sögn. „Þetta er mjög norðarlega í Noregi, dálítð fyrir norðan Ísland. Það var orðið dimmt þarna um tvöleytið og við grínuðumst með það, þegar við borðuðum hádegismatinn í myrkri, hvort þetta ætti ekki örugglega að vera kvöldmaturinn!“
Fólki gefst kostur á að sjá verðlaunamyndina „Þórgný“ á Stuttmyndahátíðinni Stulla sem verður haldin nk.
laugardag, 7. desember, kl. 12:00 í Borgarbíói á Akureyri. Þema hátíðarinnar þetta árið er heimildarmyndir en einnig
verður svokallaður opinn flokkur þar sem má senda inn allt mögulegt eins og t.d. snjóbrettamyndir, grínmyndir, spennumyndir, dansmyndir,
“stop-motion”, tónlistarmyndbönd eða annað. Frestur til að skila inn myndum rennur út á morgun, miðvikudaginn 4. desember.
Nánari upplýsingar á: https://www.facebook.com/stullistuttmynd Einnig er hægt að hafa samband við Birgi
á bhstefansson@akureyri.is eða í síma 615-1502.