"Nýir tímar að hefjast"
Málmiðnaðnaðardeild VMA fékk á dögunum splunkunýja tölvustýrða CNC fræsivél sem lengi hefur verið horft til að fá til kennslu. Vélin er hluti af gjöf þriggja fyrirtækja – Slippsins, Kælismiðjunnar Frosts og Samherja – til Verkmenntaskólans sem var kynnt undir lok síðasta árs. Eimskip lagði þessu verkefni lið með því að flytja vélina til Akureyrar.
Helgi Stefánsson, verkstjóri í rennismíði í Slippnum Akureyri, segir ánægjulegt að þessi vél sé nú komin í VMA og gjöfin sé til marks um ánægjulegt samstarf skólans og atvinnulífsins á Akureyri. Hin svokallaða CNC-tækni hafi lengi verið notuð og því sé mikilvægt að nemendur tileinki sér hana í náminu í VMA. Tilkoma þessarar vélar sé því í alla staði ánægjuleg. Undir það tekur Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðardeildar VMA, sem segir að atvinnulífið kalli eftir því að nemendur geti tileinkað sér þessa tækni í málmsmíðinni og því sé lykilatriði fyrir námsbrautina að nemendur læri á slíkan vélbúnað. „Við höfum lengi haft það á stefnuskránni að fá svona vél en vegna niðurskurðar á fjárveitingum til framhaldsskólanna hefur það ekki verið mögulegt undanfarin ár. Með hinni höfðinglegu gjöf Slippsins, Kælismiðjunnar Frosts og Samherja opnuðust hins vegar möguleikar á því að málmiðnaðarbrautin eignaðist slíka kennsluvél og fyrir það erum við óendanlega þakklátir. Þetta breytir gríðarlega miklu fyrir okkur, eiginlega má segja að með henni séu nýir tímar að hefjast,“ segir Hörður.
Tæknimaður frá Austurríki kom til Akureyrar til þess að setja vélina upp og hér má sjá myndir af honum og VMA-mönnum við vélina og einnig má hér sjá hluti sem vélin skilaði af sér eftir að hún hafði verið forrituð.