Sindri Snær Konráðsson sigraði Sturtuhausinn 2017
Sindri Snær Konráðsson sigraði Sturtuhausinn – söngkeppni VMA – í Hofi í gærkvöld. Hann söng lag Radiohead, Exit Music, til sigurs. Í öðru sæti varð Sunna Þórðardóttir með lag Jordin Sparks, I who have nothing, og í því þriðja varð Kristín Tómasdóttir með frumsamda lagið sitt, My Simphony. Keppnin var í alla staði hin glæsilegasta og umgjörðin um hana til mikillar fyrirmyndar. Flutt voru nítján söngatriði af tuttugu flytjendum, í átján atriðum spreyttu söngvararnir sig á áður útgefnum lögum, íslenskum og erlendum, en eina frumsamda lag kvöldsins flutti Kristín Tómasdóttir, sem fyrr sagði.
Sviðsreynsla Sindra Snæs nýttist honum sannarlega vel í Hofi í gærkvöld. Hann er vanur að koma fram, bæði í söng og leik. Hann hefur áður tekið þátt í Sturtuhausnum og einnig tók hann þátt í Voice Ísland í vetur og stóð sig þar með mikilli prýði. Þá fór hann á kostum í leik og söng í hlutverki Baldurs í uppfærslu Leikfélags VMA fyrir áramót. Sindri Snær sagði að lokinni keppninni í gærkvöld að þetta hafi komið sér skemmtilega á óvart. Til hafi staðið að hann myndi syngja dúett á móti Valgerði Þorsteinsdóttur en af því gat ekki orðið og hann hafi því ákveðið með minna en engum fyrirvara að láta slag standa og syngja annað lag. Lag Radiohead, Exit Music, varð fyrir valinu, enda eitt af uppáhalds lögum Sindra Snæs.
Dómnefndinni, sem var skipuð þremur söngvurum, Valdimar Guðmundssyni, Pálma Gunnarssyni og Margréti Árnadóttur, var vandi á höndum því mörg atriði gerðu tilkall til verðlaunasæta.
Vert er að nefna sérstaklega hlut hljómsveitar kvöldsins. Eins og við mátti búast var hún mjög kraftmikil og þétt og stóð sig með mikilli prýði. Í hljómsveitinni voru Hallgrímur Jónas Ómarsson, gítar og tónlistarstjórn, Valgarður Óli Ómarsson gítar, Stefán Gunnarsson bassi og Arnar Tryggvason hljómborð.
Kynnar voru Nökkvi Fjalar Orrason og Egill Ploder Ottósson. Áður en keppnin hófst í gærkvöld tók Valdimar eitt lag og eftir að keppendur höfðu sungið öll lögin nítján steig Elísa Ýrr Erlendsdóttir, sigurvegari Sturtuhaussins 2016, á svið og söng lag eftir Stevie Wonder af miklum krafti.