„Tækifæri í tónlist – sýn á möguleika“
Ásdís Arnardóttir, sellóleikari, heldur fyrirlestur í stofu M01 (gengið inn á norðan) í VMA á morgun, föstudaginn 5. apríl, kl. 14.30. Fyrirlesturinn, sem er sá þriðji á vorönn í röð fyrirlestra á vegum listnámsbrautar VMA og Sjónlistamiðstöðvarinnar, kallar Ásdís „Tækifæri í tónlist – sýn á möguleika“. Fyrirlesturinn er öllum opinn og er ókeypis inn.
Fyrirlesturinn hefst á því að Ásdís og Matti Saarinen spila ólík tóndæmi, en þau verða einmitt með tónleika í Ketilhúsinu á morgun. Síðan mun Ásdís ræða um starf sitt sem hljóðfæraleikari, um tónlistarstofnanir og styrkjaumhverfi og hvernig er að þeim málum staðið hér á landi í samanburði við önnur lönd þar sem hún þekkir til, s.s. í Noregi, Frakklandi og Bandaríkjunum.
Ásdís útskrifaðist með meistaragráðu í sellóleik frá Boston University School for the Arts árið 1995, en áður hafði hún verið í eitt ár á Spáni hjá Richard Talkowsky og þar áður í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún er suzukikennari og hefur kennt við tónlistarskóla hér norðan heiða og í Reykjavík á öllum skólastigum og stjórnað strengjasveitum og samspilshópum.
Ásdís hefur verið sellóleikari hjá Íslensku óperunni og fastráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig hefur hún spilað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þá hefur hún spilað með fjölda kammerhópa, m.a. í Barokksmiðju Hólastiftis.