"Það er aldrei of seint að drífa sig í nám"
„Ég hef starfað í meira en áratug í Mötuneyti MA og notið þess mjög. Meðal annars hef ég séð um fæði fyrir þá krakka sem eru með ofnæmi af ýmsum toga og í því skyni aflaði ég mér sjálf upplýsinga sem hafa komið að gagni. Einnig tók ég fyrir nokkrum árum námskeið í næringarfræði. Ég fór síðan í gegnum raunfærnnimat hjá SÍMEY og fékk metna að hluta mína starfsreynslu inn í matartækninámið. Ég ákvað síðan að hella mér í það nám,“ segir Guðrún Ágústa.
Námið hefur verið tvennskonar, annars vegar lotunám um helgar í VMA og hins vegar námskeið hjá SÍMEY tvo seinniparta í viku. „Í raun er þetta þriggja ára nám, en í ljósi raunfærimatsins gat ég lokið því á þremur önnum. Vissulega var þetta mikil vinna með mínu daglega starfi, en hún var vel þess virði. Ég nýtti hverja mínútu og ég neita því ekki að stundum þurfti ég að sitja yfir verkefnavinnu fram á nætur. En fyrst og fremst var þetta ofsalega skemmtilegt. Nú er ég spurð að því hvað ég ætli eiginlega með tímann að gera. Svarið er einfalt; ég ætla að vinna!“
Guðrún Ágústa dregur ekki dul á að það hafi verið töluvert átak að drífa sig í skóla 45 ára gömul. „Til að byrja með hugsaði ég með mér; hvað er ég að eiginlega að gera? En þessar vangaveltur og áhyggjur voru fljótar að hverfa, enda reyndust kennararnir í VMA og SÍMEY mér einstaklega hjálpsamir og hvetjandi. Maður getur alltaf leitað til þeirra með það sem brennur á manni og það er gríðarlega mikilvægt. Á sínum tíma hafði ég ekki möguleika á því að fara í skóla, enda varð ég mamma átján ára gömul og næstu árin fóru í barnauppeldi. Þegar ég hafði kjark til og möguleikarnir voru fyrir hendi dreif ég mig af stað og sé síður en svo eftir því. Það er aldrei of seint að drífa sig í nám,“ segir Guðrún Ágústa. Maður hennar er Garðar Hólm Stefánsson, bryti í Mötuneyti MA. Þau hjónin eru því öllum stundum saman, í lífi og starfi.
Á meðfylgjandi mynd Hilmars Friðjónssonar eru þau Guðrún Ágústa og Garðar Hólm að aflokinni brautskráningu í Hofi 20. desember sl.