Fara í efni

123 nemendur VMA brautskráðir í Hofi

Útskriftarhópurinn að brautskráningu lokinni.
Útskriftarhópurinn að brautskráningu lokinni.

„Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága. Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu. Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið ykkar, hvert sem það er, og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.“

Þessum orðum beindi Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, til 123 brautskráningarnema við lok brautskráningar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag.

Breidd í námsframboði
Síðastliðið haust hófu rúmlega 1200 nemendur nám á haustönn í VMA og um 1100 á vorönn eftir að rösklega hundrað nemendur útskrifuðust í desember. Að þessu sinni brautskráðust 123 nemendur frá skólanum. Hjalti Jón Sveinsson sagði við brautskráninguna í dag að þessi hópur brautskráningarnema  gefi ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem VMA bjóði upp á.  “Það er von okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til. Iðnaðarmennirnir, flestir hverjir, eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega þekkingu og færni og etja kappi við félaga sína víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann og meistara þeirra en fyrir nemendurna – en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr.“

Tíu nemendur útskrifuðust af starfsbraut í dag. Hjalti Jón sagðist vona að skólanum hafi tekist að búa þá út í lífið og þeir fari frá honum með gott veganesti eftir fjögurra ára veru í skólanum. „Svo mikið er víst að það hefur veitt okkur mikla ánægja um leið og það hefur verið okkur mikil uppörvun að eiga þess kost að fylgjast með þroska þeirra og framförum. Væri óskandi að þeir sem treysta sér til ættu þess kost að mennta sig frekar og auka færni sína til þátttöku í samfélaginu og til betri lífsgæða.“

Stefnt að opnun FAB-LAB-verkstæðis
Hjalti Jón sagði að þrátt fyrir að á móti hafi blásið í fjárframlögum til skólans undanfarin ár hafi tekist að halda úti fjölbreyttu námsframboði. „Og við munum halda áfram að auka fjölbreytnina í því skyni að þjóna nærumhverfi skólans sem best. Í því sambandi má nefna að í vetur var vaskur hópur nemenda að læra múrverk hér í VMA en loks tókst okkur í samstarfi við múrarameistara svæðisins að fá nægilega marga nema í námið til þess að unnt væri að bjóða upp á það. Þá hafa námsráðgjafar skólans tekið að sér það verkefni í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi að bjóða föngum á Akureyri upp á námsráðgjöf í vetur en flestir þeirra stunda framhaldsskólanám um þessar mundir. Þá er þess að geta að næsta vetur munum við vonandi geta hafið starfsemi hins svokallaða FAB-LAB-verkstæðis sem rutt hefur sér til rúms víða um land á undanförnum árum. Þar mun nemendum VMA, grunnskólanemendum og almenningi gefast kostur á að kynnast fjölbreyttum möguleikum tölvutækninnar sem styður svo verkgreinar og listgreinar af ýmsu tagi. Verður starfsemi þessi rekin í samstarfi VMA, Akureyrarbæjar,  Nýsköpunarmiðstöðvar  Íslands og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar auk þess sem ýmis fyrirtæki og stofnanir koma að rekstrinum.“

Þriggja ára nám til stúdentsprófs
Eins og ítrekað hefur komið fram hefur í vetur verið unnið markvisst að gerð nýrrar skólanámskrár og nýrra námsbrauta- og áfangalýsinga fyrir allt nám skólans til stúdentsprófs en einnig á vettvangi starfsnáms. „Ég get ekki annað sagt en að þessi vinna hafi gengið vonum framar enda var mikið í húfi þar eð fyrirmæli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins voru þau að við skyldum hafa lokið þessu fyrir haustið 2015.
Við getum ekki annað en verið stolt og hróðug þegar ég leyfi mér að fullyrða að í haust munum við bjóða nýnemum okkar upp á nám samkvæmt hinum nýju námskrám sem hafa meðal annars verið samdar með það fyrir augum að skólinn brautskrái stúdenta alla jafna á þremur árum í stað fjögurra. Lokamarkmið þessarar námskrárvinnu í framhaldsskólum landsins verður að gera nemendum almennt kleift að ljúka framhaldsskóla 19 ára. Eftir sem áður er gert ráð fyrir sveigjanleika í báðar áttir eins og hingað til.
Stytting framhaldsskólans um eitt ár er ekki sjálfsögð og einföld aðgerð. Þvert á móti. Okkur hefur samt vonandi tekist að skipuleggja námið þannig að við getum sagt með nokkurri vissu að stúdentarir okkar verði ekki síður undirbúnir fyrir frekara nám á háskólastigi eftir sem áður enda er þess sérstaklega gætt að skipulag brautanna sé í samræmi við aðgangskröfur hinna ýmsu deilda háskólanna. Vissulega krefst styttingin þess að einhver hluti fyrri námsþátta er numinn brott, styttur eða honum breytt. Engu að síður kemur sitthvað í staðinn sem við leyfum okkur að fullyrða að komi sér í sumum tilvikum jafnvel betur en einhverjir þeir þættir sem gætu hafa þurft að víkja.
Við munum smám saman lengja skólaárið um nokkrra daga, við erum að fjölga kennsludögum og fækka prófadögum og reyna að nýta tímann betur en áður hefur verið gert. Ýmsar breytingar hafa jafnframt orðið á námsmati í fjölmörgum greinum; símat hefur orðið algengara síðustu árin á kostnað stórra lokaprófa. Af þeim sökum er einboðið að reyna að nýta betur desembermánuð og maí en þannig vinnast býsna margir dagar sem nýtast til styttingar námsins.
Við höfum þá trú að með þeirri gríðarlegu og oft skapandi vinnu sem fram hefur farið í skólanum að undaförnu í þessum tilgangi muni okkar takast að gera góðan skóla ennþá betri sem mun tryggja honum áfram forystuhlutverk á meðal íslenskra framhaldsskóla.
Við vonum jafnframt að nemendur okkar verði betur undir það búnir að takast á við nútíma samfélag og alþjóðlegt umhverfi, séu víðsýnni og ekki síst áhugasamari um nám sitt en áður.
Talandi um styttingu náms til stúdentsprófs þá er vert að geta þess að í dag er einn nemandi að brautskrást eftir aðeins tveggja ára veru í skólanum. Hann innritaðist af  svokallaðri matsönn, en hún byggist á því  duglegum nemendum í 10. bekk grunnskóla gefst kostur á að stunda nám í nokkrum byrjunaráföngum hér í VMA og taka þær svo með sér hingað að hausti. Einnig eru hér í hópnum  nokkrir nemendur sem lokið hafa stúdentsprófi á aðeins þremur árum í gamla kerfinu.“

Eiga nemendur að læra dönsku?
Hjalti Jón nefndi í ræðu sinni tungumálanám framhaldsskólanema. Hann minnti á að íslensk skólabörn hafi þurft að læra dönsku svo lengi sem elstu menn muna – síðustu árin í grunnskóla og fyrstu tvö árin í framhaldsskóla. „Þetta hefur þótt sjálfsagt mál og mörgum hefur þótt mikilvægt að geta tjáð sig á dönsku og skilið ritað og talað Norðurlandamál. Það er jafnframt staðreynd að margir Íslendingar hafa sótt háskólanám til Norðurlandanna og því notið góðs af þessari tungumálakunnáttu. Nú er svo komið að kröfur heyrast um að nemendur eigi að geta valið um það hvort þeir læri dönsku yfirleitt. Margir telja að mikilvægara sé að leggja þeim mun meiri áherslu á góða enskukunnáttu. Svo verða þær raddir einnig háværari að ekki beri að skylda nemendur í framhaldsskólum til þess að læra þriðja tungumálið; sem oftast er þýska, franska eða spænska. Allt er því í heiminum hverfult.

Umræða um sameiningu framhaldsskóla
Eins og fram hefur komið hefur að undanförnu verið rætt um mögulegar sameiningar framhaldsskóla á landsbyggðinni. Hjalti Jón sagði að með þessari umræðu væri komið annað hljóð í strokkinn því fyrir fáum árum hafi oft komið fram hugmyndir um stofnun nýrra framhaldsskóla. Megi í því sambandi nefna Menntaskólann á Tröllaskaga sem starfað hafi um fimm ára skeið.  Þá hafi verið háværar raddir um stofnun skóla á Reyðarfirði, Hvolsvelli og í Grindavík. „Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu eru nú uppi áform um það í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að sameina fimm framhaldsskóla á Norðurlandi eystra; annars vegar Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík. Hins vegar Verkmenntaskólann á Akureyri og Framhaldsskólann á Laugum. Í bígerð er þá að líkindum einnig sameining skóla bæði á Vestur- og Austurlandi og jafnvel á Suðurlandi ef þessar hugmyndir eiga eftir að öðlast hljómgrunn. Staðreyndin er sú að nemendum á framhaldssksskólastigi hefur verið að fækka á undanförnum þremur árum eða svo og ef spár ganga eftir mun þeim halda áfram að fækka fram til ársins 2020. Aðalástæðurnar eru fækkun í árgöngum og stytting náms til stúdentsprófs. Ég hef leyft mér að hafa efasemdir um framkomnar hugmyndir ráðuneytisins um sameiningu skólanna hér á Norðurlandi eystra og hef vakið athygli á því að samráð við okkur heimafólk hafi ekki verið inni í myndinni fyrr en nú þegar svo virðist sem búið sé að ákveða hvernig sameiningunum skuli háttað. Ég tel aftur á móti marga möguleika felast í auknu samstarfi sem við getum komið á bæði með bættum samgöngum og með hvers konar möguleikum á sviði fjar- og dreifkennslu. Einnig ætti að vera auðvelt að koma á staðbundnu lotunámi í verklegum greinum hér í VMA sem skipulagt yrði fyrir nemendur sem búa hvort sem er austur í Þingeyjarsýslum eða fyrir vestan okkur og norðan. Dreifnám af því tagi hefur verið að ryðja sér til rúms bæði hér á landi og erlendis. Ég lít á það sem tækifæri næstu ára að efla slíkt fræðslunet auk þess sem ég sé fyrir mér ekki bara aukið samstarf framhaldsskólanna sín á milli heldur einnig á vettvangi háskólanáms og fullorðinsfræðslu. Hér þurfa skólarnir og sveitarstjórnirnar að setjast niður og ræða í alvöru fyrirkomulag af þessu tagi.
Þess má til fróðleiks geta að í vetur voru 99 nemendur í VMA úr Þingeyjarsýslunum báðum og 102 af svæðinu frá Dalvík til Siglufjarðar eða samtals 16,6% af heildarnemendafjölda skólans. Með bættum almenningssamgöngum og tilkomu Vaðlaheiðarganga opnast aukin tækifæri fyrir nemendur í nágrenninu að sækja nám hvort sem er í hefðbundinn dagskóla eða staðbundið lotunám og dreifnám. Í þessum efnum þurfum við að horfa til framtíðar. Nýting síaukinnar og einfaldari tækni í tengslum við fjar- og dreifnám ætti jafnframt að geta gert öllum þessum skólum og svæðum kleift að vinna meira saman í framtíðinni en hingað til,“ sagði Hjalti Jón.

Skemmtilegt og skapandi samfélag
Skólameistari sagði að VMA væri skemmtilegt og skapandi samfélag 1200 nemenda og 150 starfsmanna. Hið sama mætti segja um íbúa hinnar sameiginlegu heimavistar MA og VMA. Þar komi saman um 330 unglingar af öllum landshornum og búi í sátt og samlyndi. „Sé unnt að tala um menningu; þá er þetta gott dæmi, sem önnur ungmenni, hvar í  heimi sem er, gætu tekið sér til fyrirmyndar. Það er trú mín að þeir nemendur sem eru að kveðja okkur hér í dag beri þessu fagurt vitni. Þess vegna segi ég óhikað að nemendur okkar séu til fyrirmyndar og er alltaf jafnstoltur af þeim. Það getum við öll verið.“

Skólameistari sagði að félagslíf í framhaldsskóla væri mikilvægur þáttur í þroska ungmenna. Því sé mikilvægt að skólayfirvöld hlúi vel að því eftir því sem kostur er. „Í þeim efnum mættum við gera betur en segja má að við reynum engu að síður að koma til móts við nemendur þegar þeir sýna frumkvæði. En frumkvæði er aftur á móti eiginleiki sem ekki er öllum gefinn og í svo fjölmennu skólasamfélagi sem í VMA leynist víða hæfileikafólk sem ekki vill trana sér fram. Við þurfum að búa svo um hnútana að þátttaka í félagslífinu verði eftirsóknarverð bæði fyrir þetta hæfileikafólk og alla hina, sem ætlað er að njóta þess.
Ánægjulegt hefur verið að sjá aukið líf færast í Gryfjuna okkar svonefndu, sem er samverustaður nemenda í skólanum. Hún var tekin algjörlega í gegn síðastliðið sumar og gekk því heldur betur í endurnýjun lífdaga. Þetta var framlag Fasteigna ríkissjóðs og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til skólans í tilefni af 30 ára afmæli hans síðastliðið haust. Með þessu vildum við enn frekar hlúa að nemendum ekki síður utan kennslustunda; skólinn er þeirra annað heimili og þar þarf þeim að líða vel. Ljóst er orðið að þessi breyting á Gryfjunni hefur bætt skólabrag, eflt félagslíf og samveru nemenda til muna. Gryfjan hefur meðal annars verið vettvangur tónlistarlífs í skólanum sem hefur verið fjörugt í þetta árið eins og svo oft áður. Má í því sambandi nefna vikulega viðburði í löngu frímínútunum sem oftar en ekki hafa verið tónlistarlegs eðlis. Það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með þessari jákvæðu þróun sem mun örugglega  halda áfram næsta haust.“

 Ekki eyland við ysta haf
„Á nýliðnu skólaári hefur mikill kraftur verið í skólastarfinu og mörg verkefni, sem ekki beinlínis tengjast hinum daglegu skyldum, hafa verið innt af hendi. Má þar nefna að mikil áhersla hefur verið lögð á að treysta samstarf og samskipti VMA við grunnskóla- og háskólasviðið annars vegar og hins vegar við atvinnulífið. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir það en nú að allir þessir aðilar tali saman og allir viti hvað hinn er að gera og hugsa.
Þá hefur veturinn verið óvenju erlilsamur af þeim sökum að við höfum átt í samstarfi við fjölmarga erlenda skóla og  menntastofnanir; bæði á vettvangi Evrópusambandsins og Norðurlandanna. Höfum við af þeim sökum tekið á móti fjölmörgum nemendum, kennurum og skólastjórnendum og sent fólk frá okkur í sama mæli til þeirra. Þetta er okkur dýrmæt reynsla og þó að við búum hér norður við ysta haf þá erum við ekki eyland, síður en svo.
Til marks um þetta er mér sérstök ánægja að geta sagt frá því að VMA sendi í vetur inn tvær umsóknir um það sem kallast Mobility til Erasmus Plus áætlunar Evrópusambandsins er lýtur að eflingu starfs- og verknáms.
Önnur umsóknin fjallaði um að senda átta enskukennara á námskeið til að fjalla um enskukennslu fyrir nemendur í starfsnámi. Þar fengum við styrk til að senda fjóra kennara í haust til Skotlands, alls 9.300 EUR.
Hin umsóknin laut að því að senda kennara og nemendur í verk- og starfsnámi landa og skóla á milli. Þar sóttum við um 38 ferðir alls 164.000 EUR en fengum 29 ferðir eða 127.300 EUR. Á gengi dagsins er þetta samanlagt næstum 20 milljónir íslenskra króna til ráðstöfunar á næstu tveim árum, bara í þessi verkefni
Þetta er sannarlega stór frétt en minna má á það að undanfarna tvo vetur höfum við lagt áherslu á að hafa á hverjum virkum degi nýja frétt á heimasíðu skólans. Heimasíðan er andlit okkar út á við og virkar því ekki bara sem upplýsingamiðill fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk heldur ekki síður sem fréttamiðill,“ sagði Hjalti Jón.

Brautskráningin
Sem fyrr segir voru 123 nemendur brautskráðir frá skólanum í dag. Kennslustjórar afhentu nemendum skjölin til staðfestingar á brautskráningunni:
Jónas Jónsson, kennslustjóri samfélagsfræðasviðs.
Ómar Kristinsson, kennslustjóri raungreinasviðs
Baldvin Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs
Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar
Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarnáms

Verðlaun og viðurkenningar
Að vanda fengu fjölmargir nemendur viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í skólanum:

Hólmfríður M. Þorsteinsdóttir- framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum. Gefandi er Minningarsjóður um Albert Sölva kennara.

Anett Ernfelt Andersen- viðurkenning Ísbrúar, félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál, fyrir frábæran árangur í námi í íslenskum framhaldsskóla. Anett hlaut einnig verðlaun fyrir framaúrskarandi árangur í textílgreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.

Nína Kristín Ármannsdóttir - verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinum á Listnámsbraut. Gefandi er Slippféagið. Nína Kristín hlaut einnig sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa náð bestum árangri á stúdentsprófi. Gefandi er Gámaþjónustu Norðurlands.

Þórey Lísa Þórisdóttir- viðurkenning fyrir næstbestan árangur á stúdentpsprófi en það munaði einungis 0,01 á henni og Nínu Kristínu Ármannsdóttur. Gefandi er Íslandsbanki.

Steinunn Marta Þórólfsdóttir - verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri. Steinunn Martahlaut einnig verðlaun fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinumá sjúkraliðabraut. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.

Kolbrún Dögg Hlynsdóttir - verðlaun fyrir framúrskarandi árangur ídönsku. Gefandi er danska sendiráðið í Reykjavík.

Gunnar Ingi Láruson- verðlaun fyrir frábæran árangur í ensku. Gefandi er SBA-Norðurleið.Gunnar Ingihlaut einnig  viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi af þremur brautum sem hann hefur lokið á aðeins tveimur árum. Gefandi er Flugfélag Íslands.

Róbert Sigurðarson- verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum bifvélavirkjunar. Gefandi er Norðurlandsdeild Verk- og tæknifræðingafélags Íslands.

Kjartan Jóhann Karl Svavarsson - verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar. Gefandi er Norðurlandsdeild Verk- og tæknifræðingafélags Íslands.

Rúnar Aðalbjörn Pétursson - verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum í húsasmíði. Gefandi er Byggiðn.

Erling Ragnar Erlingsson - verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum í húsgagnasmíði. Gefandi er Byggiðn.

Bergvin Bessason-verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum í blikksmíði. Gefandi er Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Ingvar Karl Hermannsson - verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum í blikksmíði. Gefandi er Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Gunnlaugur Hjörvar Gunnlaugsson viðurkenning fyrir bestan árangur í faggreinum í stálsmíði. Gefandi er Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Bjarki Skjóldal Þorsteinsson - viðurkenning fyrir framúrskarandi ástundun, jákvæðni og iðjusemi. fyrir að vera fyrirmyndar skólaþegn.Gefandi er Nýherji á Akureyri.

Fríða Kristín Hreiðarsdóttir - sérstök viðurkenning skólameistara fyrir góðan árangur í námi en um leið fyrir kurteisi og samviskusemi í starfi. Gefandi er A4 á Akureyri.

Einnig fengu eftirtaldir nemendur blómvendi frá skólanum fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum og sýnt dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna, bæði gegnt ábygðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu eða lagt gjörfa hönd á plóginn á einhverjum sviðum skólasamfélagsins:

André Sandö
Baldur Sverrisson
Bergvin Bessason
Birgitta Líf Gunnarsdóttir
Fríða Kristín Heiðarsdóttir
Haukur Fannar Möller
Hinrik Svansson
Hólmfríður Brynja Heimisdóttir
Jón Stefán Kristinsson
Karolína Helenudóttir
Kristófer Ísak Hölluson
Lilja Björg Jónsdóttir
Sunna Valdimarsdóttir

Ávörp 
Oddfellowreglan á Íslandi stóð í vetur fyrir ritgerðasamkeppni á meðal nemenda Verkmenntaskólans. Þau Margrét Steinunn Benediktsdóttir og Úlfur Logason urðu hlutskörpust og hlutu að launum ferð til Bandaríkjanna á komandi sumri. Stefán B. Sigurðsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri gerði fyrir hönd Oddfellowreglunnar grein fyrir þessu verkefni við brautskráninguna í dag.

Baldur Sverrisson, nýstúdent af félagsfræðabraut, flutti ávarp brautskráningarnema, Jósavin Heiðmann Arason, nýútskrifaður húsasmiður, flutti ljóð. Höskuldur Þór Þórhallsson flutti ávarp fyrir hönd 20 ára stúdenta og Anna Halldóra Sigtryggsdóttir fyrir hönd 30 ára brautskráningarnema.

Tónlistaratriði
Við brautskráninguna voru flutt tónlistaratriði. Annars vegar söng Birgitta Líf Gunnarsdóttir, nýstúdent af listnámsbraut við undirleik Ívars Helgasonar. Hins vegar söng Fríða Kristín Hreiðarsdóttir, nýstúdent af félagsfræðabraut við undirleik Birkis Arnar Jónssonar, húsasmiðs.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar við brautskráninguna í Hofi. 

Og hér eru þrjú myndaalbúum frá útskriftinni með myndum sem Hilmar Friðjónsson tók:

Albúm 1

Albúm 2

Albúm 3