Fara í efni

183 brautskráðust frá VMA í dag

Brautskráningarhópurinn. Mynd: Páll A. Pálsson.
Brautskráningarhópurinn. Mynd: Páll A. Pálsson.

Í dag brautskráðust 183 nemendur frá Verkmenntaskólanum á Akureyri af tuttugu námsbrautum. Þetta er einn af allra stærstu brautskráningarhópum í tæplega fjörutíu ára sögu skólans. Brautskráningin var við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og hófst kl. 17. Bekkurinn var þétt setinn enda brautskráningarhópurinn stór. Tuttugu og sex nemendur brautskráðust með tvö skírteini og því voru afhent 209 skírteini í dag. Á haustönn brautskráðust 93 nemendur sem þýðir að á þessu skólaári hefur VMA brautskráð 276 nemendur. 

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag velti Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, því fyrir sér hvað væri ráðandi um val nemenda á námsbraut í framhaldsskóla.
„Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Þetta er spurning sem við spyrjum oft börnin í kringum okkur, sérstaklega þegar þau eru í 9. og 10. bekk. Svörin eru alls konar, stundum engin þar sem blessuð börnin vita ekkert hvað þau langar að verða þegar þau verða stór. Alls konar skilaboð birtast þeim frá öðrum úti í samfélaginu. Margir vilja hafa áhrif og skoðanir á því hvað væri nú best fyrir þau að verða. Þú verður nú að fara í lögfræðina eins og pabbi þinn, verða læknir eins og mamma þín, nú afi þinn var nú svo góður múrari, það vantar nú alltaf góðan rafvirkja í fjölskylduna, já þú ert nú úr kennarafjölskyldu eða ætlar þú að verða listmálari eins og systir þín,  o.s.frv. -  
En hvað ræður því hvað við verðum þegar við verðum stór eða í hvað nám við förum? Sumir segja að mömmurnar ráði mest um hvaða framhaldsskólanám börnin fara í, aðrir ömmurnar sem safna myndum af barnabörnum með útskriftarhúfur í öllum litum. Ekki veit ég hve mikill sannleikur í raun þetta er en ég held að allt of margir nemendur láti aðra ráða því í hvaða nám þeir ákveða að fara en láti hjartað ekki ráða för. Fara í eitthvað fyrir aðra en sjálfan sig. Þrýstingur á leiðirnar er stundum mikill, frá fjölskyldu, kennurum í grunnskólum og ekki síst frá vinum.
En af hverju eru nemendur ekki að velja það sem þá langar? Skiptir það máli? Ég held að það skipti ekki alveg öllu máli svo framarlega að nemendur finni sig í því sem þeir eru að gera. Stundum kemur það skemmtilega á óvart að fara í eitthvert nám sem á endanum er valið, þótt hjartað hafi stefnt annað. Stundum er tilviljun hvað valið er og svo eru það sumir sem hafa ekkert val í upphafi framhaldsskólans, hafa ekki náð markmiðum grunnskólans og verða að vinna upp þekkingu og hæfni sína. Mörg hér í dag hafa sannarlega gert það og komist í námið sem stefnt var að eða uppgötvað hæfni sína á einhverju sviði sem þau vissu ekki af. Sum skipta um skoðun og það er allt í lagi að gera það. Þótt einhver hafi byrjað í húsasmíði og hafi skipt yfir á stúdentsbraut, þá er það allt í lagi. Eða byrjað á félagsfræðibraut og síðan ákveðið að fara í sjúkraliðanám. Við búum nefnilega við þau forréttindi í íslenskum framhaldsskólum að nemendur fá að skipta um skoðun og geta skipt um námsbrautir.  
Auðvitað skiptir máli í hvers konar umhverfi börn alast upp og það á líka við um þær fyrirmyndir sem þeim birtast bæði innan fjölskyldunnar og í vinahópnum en líka af fyrirmyndum úti í samfélaginu sem þau líta upp til. Fyrirmyndir eru mikilvægar. Því miður rugla sumir saman fyrirmyndum og svokölluðum áhrifavöldum á samfélagsmiðlum. Það er ekki auðvelt fyrir ungmenni að greina á milli þess raunverulega og þess sem er verið að falsa fyrir framan nefið á okkur í gegnum samfélagsmiðla. Það er auðvelt að telja okkur trú um að lífið sé bara gott ef við eigum nóg af þessum og hinum snyrtivörunum, eignumst úlpu sem kosta meira en mánaðar matarinnkaupin, það þarf að eiga húsgögn og raða þeim upp eins og 1-2 hönnuðir á Íslandi hafa gert í nokkrum risaeinbýlishúsum í eigu auðmanna. Svo þarf að halda veislur með gasblöðrum, þemalitum og allir í stíl við eitthvað sem einhver stílisti á netinu telur þig inn á að sé það eina rétta, annars verður þetta ekki alvöru veisla. Ungir verðandi foreldrar verða að halda veislu til að tilkynna kyn barnsins með „confetti“-blöðrum í bleikum eða bláum lit og verðandi mæður bíða í stressi yfir því hvenær og hvort vinkonurnar ætli ekki að halda þeim  „baby-shower“.“  

Áhrifavaldar og gerviheimur

Skólameistari gerði neyslusamfélagið að umtalsefni, fólk keypti og keypti sem síðan endaði í sóun á auðlindum, hráefni, tíma og fjármunum. Ruslið safnist upp, umhverfinu og jörðinni blæði og á sama tíma aukist ójöfnuður í heiminum með vatnsskorti, fátækt og stríðum. En við höfum hins vegar meiri áhuga á að vita hvað gerist í gerviheimi svokallaðra áhrifavalda eða í sumarbústöðum auðmanna.
„Gerviheimurinn er þarna úti, við tökum þátt í honum og vonandi skilar þetta óhóf meiri hamingju út í samfélagið. En það ná ekki allir að upplifa þessa gerviveröld og þá kemur upp kvíðinn og óánægjan yfir því sem fólki finnst það vera að missa af. Við tölum allt of lítið um það að vera þakklát fyrir það sem við höfum, að það sé þetta dags daglega sem skiptir máli. Við erum okkar eigin gæfusmiðir að svo mörgu leyti.  Við þurfum að gera meira af því að setja okkur í spor annarra og líka stoppa aðeins við í eigin sporum og líta inn á við. Við þurfum að vera óhrædd við breytingar og viðurkenna að sumt í lífinu sé erfitt. Það er eðlilegt að okkur líður stundum illa og sumt sem þarf að gera í lífinu er bara leiðinlegt. En ef við festum okkur um of í þeim hugsunum þá aukast líkurnar á því að okkur fer að líða verr. En stökkvum ekki á skyndilausnirnar, gefum okkur tíma til að líta í eigin barm, það gæti komið á óvart að ef við gefum okkur tíma í það að hugsa um styrkleika okkar þá færi lífið að ganga betur.
Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg og hún er svo margt í okkar daglega lífi. Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka verið að éta okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður vinátta til. Vinátta getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem tekur vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi, finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.“ 

Mikil framþróun í íslenskum framhaldsskólum

Sigríður Huld nefndi að þessa dagana séu um fjögur þúsund ungmenni á Íslandi að velta fyrir sér námsvali að loknum grunnskóla. Að fenginni reynslu undanfarinna ára megi reikna með að 98% barna fædd árið 2007 hefji nám í framhaldsskóla í haust, sem er töluvert hærra hlutfall úr árgangi en fyrir áratug, hvað þá fyrir 20-30 árum.
„Framhaldsskólar hafa breyst mikið á síðustu árum, námsframboð er fjölbreyttara og fleiri skólar bjóða upp á námstækifæri fyrir ólíka nemendahópa út frá getu og hæfni þeirra. Kennsluaðferðir hafa breyst, kennaranám hefur breyst, sjálfstæði nemenda er meira í náminu og einfaldara að finna þann farveg í námi sem hentar nemendum á hverjum tíma. Íslenskir framhaldsskólar eru góðar menntastofnanir og standast vel samanburð við þau samfélög sem við berum okkur saman við. Mannauður er mikill og með innleiðingu laga um farsæld barna er aukin áhersla á stoðþjónustu, s.s. hvað varðar náms- og starfsráðgjöf og velferð nemenda. Sjálfstæði íslenskra framhaldsskóla er mikið og vekur það alltaf athygli í samtölum við skólafólk erlendis hve mikið við ráðum skólastarfinu og hvernig við setjum upp námsbrautir.
Sumir myndu nú segja að námsbrautir sem kenndar eru á Íslandi séu of margar, við eigum nokkra tugi mismunandi brautalýsinga yfir stúdentsbrautir og námsbrautir í húsasmíði eru jafn margar og skólarnir sem kenna húsasmíði. En sjálfstæði skólanna er dýrmætt. Með því getum við betur aðlagað hvern skóla að sínu nærsamfélagi. Auðvitað er til aðalnámskrá og ráðuneytið fylgist með skólastarfi, setur ákveðna gæðastaðla ásamt lögum og reglugerðum um ýmislegt í skólastarfinu. Íslenskir skólar eru sem betur fer lausir við pólitíska afskiptasemi hvað varðar innihald náms, kennsluaðferðir og námsefni þótt það hafi örlað á því í umræðum á Alþingi að efla þurfi nám í kristnum fræðum og einhverjir þingmenn telja sig vera sérfræðinga í lestarkennslu barna. Ég vona að aldrei þurfi skólafólk á Íslandi að taka við skipunum frá Alþingi eða einstaka ráðherrum um það hvað eigi að standa í kennslubókum eða hvort það eigi að kenna ákveðin trúarbrögð umfram önnur. 
Í mars fór ég í skólaheimsókn í Póllandi, þar voru kennarar mjög uggandi yfir því að það væri búið að endurskrifa kennsluefni þar sem fjölbreytileikinn er tekinn út og þeim bannað að tala um tæknifrjóvganir og önnur kyn en karl og konu. Í sumum fylkjum í Bandaríkjunum er verið að gera það sama og réttindi kvenna og annarra kynþátta en hvítra karla fara minnkandi. Þetta er öfgafull þróun og ég vona að unga fólkið hér á sviðinu passi upp á frelsið okkar og viðhaldi því jafnrétti og þeim jöfnuði sem þó hefur náðst í okkar samfélagi þótt eitthvað sé í land á sumum sviðum. Við þurfum að halda áfram að gera betur fyrir okkur öll.“ 

Fjölbreytt skólastarf í VMA í vetur

Sigríður Huld fór stuttlega yfir fjölbreytt starf í skólanum í vetur og sagði þar af nógu af taka: Nýnemahátíð, nýnemaball, Halloween-draugahús, fleiri böll, árshátíð, jólapeysudagur, söngkeppni, dimmiso og nokkrir gleðidagar þar sem nemendafélagið Þórduna tók á móti nemendum í upphafi skóladags og færði þeim einhverja gleði, oftast í formi einhvers matarkyns.
Skólameistari nefndi að haldið hafi verið vel heppnað VMA-þing þar sem nemendur og starfsfólk ræddu ýmislegt er laut að samskiptum og skólastarfinu. Einnig hafi verið vel heppnað málþing í Hofi um hlutverk VMA í nærsamfélaginu og horft til hlutverks skólans til framtíðar. Þá hafi átta nemendur VMA tekið þátt í stórþingi ungmenna í Hofi og einnig sitji nokkrir nemendur VMA í ungmennaráðum sveitafélaga sinna. Þetta sé allt jákvætt og mikilvægur hluti af námi og þroska ungs fólks að láta sig málefni líðandi stundar varða og rödd nemenda VMA fái að heyrast.  
Sigríður Huld nefndi vel heppnaða uppfærslu VMA á farsanum Bót og betrun sem frumsýndur var í Gryfjunni í febrúar, þátttöku skólans í Íslandsmóti iðngreina og framhaldsskólakynningunni Mín framtíð sem fram fór í Laugardalshöll í mars. Þar stóðu VMA-nemar sig vel og hömpuðu Íslandsmeistaratitli í málmsuðu og háriðn. Þá gat Sigríður Huld um þátttöku liða nemenda frá VMA í Vörumessu framhaldsskólanema sem fram fór í Smáralind fyrir nokkrum vikum og VMA liðin sýndu einnig vörur sínar á Glerártorgi. Nemendur á listnámsbraut sýndu lokaverkefni sín í Listasafninu á Akureyri og VMA á þátttakanda í landsliði Íslands sem mun keppa í Ólympíuleikunum í stærðfræði í sumar. Þá gat skólameistari um að nemandi VMA hafi verið með hæstu einkunn á sveinsprófi í rafvirkjun nú í vor og einn af brautskráningarnemum skólans núna í maí, Mars Baldurs, vann ritlistasamkeppni Ungskálda 2022 í desember. Nemendur á starfsbraut tóku þátt í hæfileikakeppni starfsbrauta í Reykjavík, nemendur á listnámsbraut fóru í lista- og menningarferð til höfuðborgarinnar og VMA hlaupið var haldið nú í apríl. Þá nefndi Sigríður Huld að nokkrir nemendur VMA í ýmsum landsliðum í íþróttum hafi staðið sig mjög vel í vetur.  

Erlent samstarf

„Erlent samstarf fór af stað af fullum krafti í haust eftir kóvidhlé og hafa nemendur og starfsfólk tekið á móti gestum og tekið þátt í ferðum og verkefnum erlendis sem aldrei fyrr. Til Akureyrar hafa komið á annað hundrað manns í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og hátt í 100 nemendur og starfsfólk skólans hafa farið erlendis. Nemendur og starfsfólk VMA fá dýrmæt tækifæri í gegnum erlend samstarfsverkefni og er reynsla sem þau búa að alla ævi. Nemendahópur í háriðn var við nám í tvær vikur á Malaga á Spáni, nemendur og kennarar í rafiðn tóku þátt í verkefni á Kanaríeyjum, Búdapest og í Hollandi. Það eru nokkrir nemendur hér að útskrifast sem hafa tekið þátt í verkefninu Ready for the World og hafa bæði tekið á móti erlendum nemendum hér á Akureyri og farið til Danmerkur og Hollands. Einn nemandi í framreiðslu fór til Frakklands til að taka hluta af starfsnámi sínu þar, sjúkraliðanemar tóku hluta af starfsþjálfun sinni í Danmörku og nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut fóru til Vilnius ásamt kennurum brautarinnar,“ sagði Sigríður Huld.  

Brautskráningin

Prófskírteini afhentu Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og fjarnáms, Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri verknáms, og Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar.

Skipting brautskráningarnema dagsins á námsbrautir var eftirfarandi: 

Blikksmíði - 1
Stálsmíði - 3
Rafvirkjun – 16 (þar af 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs)

Vélstjórn – 13 (ljúka einnig stúdentsprófi)
Vélvirkjun - 2 (þar af 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs)

Starfsbraut - 5
Iðnmeistarar – 15
Matartækni – 1
Félags- og hugvísindabraut (stúdentspróf) - 8
Fjölgreinabraut (stúdentspróf) -12
Íþrótta- og lýðheilsubraut (stúdentspróf) - 10
Listnáms- og hönnunarbraut - myndlistarlína (stúdentspróf) - 14
Listnáms- og hönnunarbraut – textíllína (stúdentspróf) - 5

Náttúruvísindabraut (stúdentspróf) - 7
Viðskipta- og hagfræðibraut (stúdentspróf) - 1
Sjúkraliðabraut – 4 (þar af 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Húsasmíði - 34 (þar af 6 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Hársnyrtiiðn - 9 (þar af 2 með viðbótarnám til stúdentsprófs og 1 einnig með stúdentspróf af félags- og hugvísindabraut)
Matreiðsla - 7
Framreiðsla – 9 (þar af 1 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Stúdentspróf að loknu starfsnámi - 7

Aldrei áður hefur VMA brautskráð verðandi framreiðslufólk og einnig var í dag í fyrsta skipti brautskráður hópur húsasmiða sem hefur stundað nám sitt í kvöldskóla síðustu liðna tvo vetur. 

Ávarp brautskráningarnema, tónlistaratriði og viðurkenningar vegna framlags til félagslífs í skólanum

Anna Birta Þórðardóttir og Kormákur Rögnvaldsson, sem luku námi í hársnyrtiiðn og einnig stúdentsprófi, fluttu í sameiningu ávarp brautskráningarnema.

Við brautskráninguna flutti Hafdís Inga Kristjánsdóttir, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut, lagið Vinir eftir Elínu Sif Halldórsdóttur og Reyni Snæ Magnússon við undirleik Kristjáns Edelstein.

Skólinn afhenti eftirtöldum nemendum blómvendi fyrir mikið og gott framlag þeirra til félagslífs í skólanum: Anna Birta Þórðardóttir, Hafdís Inga Kristjánsdóttir, Hanna Lára Ólafsdóttir, Katla Snædís Sigurðardóttir, Kormákur Rögnvaldsson, Rudolf Helgi Kristinsson, Sandra Hafsteinsdóttir og Örn Smári Jónsson.

Þið eruð öll sigurvegarar!

Til brautskráningarnema talaði skólameistari með þessum orðum:
„Jæja kæru brautskráningarnemendur, til hamingju með árangurinn, þið eruð öll sigurvegarar. Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafa þurft að leggja á sig mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til - því hér eruð þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með móðurmálið ykkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og öllu því fólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Það er sagt um þessi svokölluðu framhaldsskólaár að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt. Ég veit að það eru vinahópar í þessum útskriftarhópi og kannski fylgjast einhver ykkar áfram að í námi eða störfum í framtíðinni – en hjá öðrum skilja leiðir á vissan hátt nú við brautskráningu. Vináttan verður áfram til staðar. Viðhaldið vináttunni til hvers annars. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“ 

Tökum nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi

Og lokaorð skólameistara í Hofi voru þessi:
„Að lokum vil ég tala til starfsmanna VMA. Þetta skólaár hefur haft sínar áskoranir og í kjölfar heimsfaraldurs hefur mætt mikið á ykkur í kennara- og starfsmannahópnum við að ná markmiðum okkar með nemendum. Tvö ár í óvissu, sóttkví og einangrun höfðu mikil áhrif á allt skólastarfið en með samstöðu gekk það upp. Nú hefur uppbygging nemenda tekið við en vinna okkar allra hefur breyst til frambúðar. Þessum verkefnum hafa fylgt áskoranir á mörgum sviðum og ekki síst nýjar nálganir gagnvart nemendum og breyttu samfélagi. Það eru framundan breytingar í íslenskum framhaldsskólum, við munum hafa okkar áhrif þar, við munum efla nám og námstækifæri í okkar nærsamfélagi og ekki síður hlúa að okkur sjálfum, eflast í starfsþróun og taka nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi. Það verður alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi framtíðarinnar. Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Áhersla í skólastarfi verður að vera í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi. 
Það er þakkavert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu, fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á skólaárinu.“