2. bekkur í matreiðslu í fimmta skipti
Núna á vorönn er boðið upp á nám í 2. bekk í matreiðslu á matvælabraut VMA. Er þetta í fimmta skipti sem slíkt nám er í boði í skólanum. Að loknum öðrum bekk geta nemendur farið í þriðja bekkinn sem er lokaáfanginn í matreiðslunáminu áður en farið er í sveinspróf. Um kennsluna sér Ari Hallgrímsson matreiðslumeistri og brautarstjóri matvælabrautar VMA.
Nemendurnir tíu hafa tekið hluta samnings – einn á Gistihúsinu á Egilsstöðum og hinir níu skiptast á fyrirtæki á Akureyri – Múlaberg, Strikið og veitingastaði K-6 veitinga, Rub 23, Sushi Corner, Bautann og Pizzasmiðjuna.
Til þess að komast í 2. bekk í matreiðslu þurfa nemendur að hafa lokið grunndeild matvælagreina, öðlast starfsreynslu og hafa lokið hluta samnings hjá meistara. Síðast var 2. bekkurinn kenndur í VMA í miðjum heimsfaraldri Covid 19, á vorönn 2021.
Námið í öðrum bekk skiptist í bóklegt og verklegt og eru fjórir bóklegir áfangar; kalda eldhúsið, fagfræði, hráefnisfræði og aðferðafræði. Bóklega kennslan er á þriðjudögum og fimmtudögum og verklega kennslan á þriðjudögum og miðvikudögum.
Þegar litið var inn í kennslustund í vikunni voru nemendur m.a. að búa til paté og undirbúa eldun á bleikjurétti. Farnar eru ýmsar leiðir í eldamennskunni og liður í náminu er að finna út og panta magn hráefnis í rétti, sem er mikilvægur þáttur að kunna skil á þegar út í matreiðslu og/eða rekstur á veitingastað er komið.
Fyrsti hópurinn í 2. bekk í matreiðslu í VMA árið 2016
Annar hópurinn í 2. bekk matreiðslu í VMA árið 2018
Þriðji hópurinn í 2. bekk í matreiðslu í VMA árið 2019
Fjórði hópurinn í 2. bekk í matreiðslu í VMA árið 2021