Fara í efni

22 í sveinsprófi í húsasmíði

Þau glímdu við sveinspróf í húsasmíði í VMA um liðna helgi.
Þau glímdu við sveinspróf í húsasmíði í VMA um liðna helgi.

Um liðna helgi þreyttu 22 sveinspróf í húsasmíði í húsakynnum byggingadeildar VMA. Sama próf var lagt fyrir verðandi húsasmíði í fjórum öðrum framhaldsskólum, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og í tveimur skólum í Reykjavík, Tækniskólanum og Fjöbrautaskólanum í Breiðholti. Samtals þreyttu um 130 sveinspróf í húsasmíði að þessu sinni en prófað er tvisvar á ári, í janúar og júní.

Prófið skiptist í bóklegan og verklegan hluta.

Bóklega prófið var í tvær klukkustundir, kl. 8-10 sl. laugardag.

Verklegi hlutinn var sl. föstudag kl. 9-18, á laugardag kl. 10-18 og sl. sunnudag kl. 8-13.
Að þessu sinni fengu próftakar það verkefni að smíða snúinn stiga, sem svo er kallaður. Vissulega ekki einfalt verkefni, eiginlega miklu frekar töluvert snúið og því þurftu próftakar að nýta tímann vel. Verklegi þáttur prófsins samanstóð af málsetningum, samsetningum, áferð og brýnslu.