40 ára afmælismerki VMA
Verkmenntaskólinn á Akureyri er 40 ára á þessu ári og af því tilefni hefur verið hannað sérstakt afmælismerki skólans sem fylgir hér og verður á heimasíðu skólans út afmælisárið. Einar Helgason, myndlistarmaður og kennari, hannaði merki skólans á sínum tíma að beiðni Bernharðs Haraldssonar þáverandi skólameistara VMA en Þórhallur Kristjánsson, grafískur hönnuður á Akureyri, útfærði þetta 40 ára afmælismerki skólans.
Einar Helgason kennari og myndlistarmaður sem hannaði merki VMA var Eskfirðingur, fæddur 1932. Hann lést á Akureyri 15. desember 2013. Eftirlifandi eiginkona hans er Ásdís Karlsdóttir, sem lengi var íþróttakennari við VMA og sagði frá fyrri tíð í frétt hér á heimasíðunni sl. mánudag. Hér eru þau hjónin, Ásdís og Einar Helgason, saman á mynd.
Einar var gríðarlega fjölhæfur. Hann var virtur myndlistarmaður og skapaði mikinn fjölda listaverka af ýmsum toga. Þá var honum falið að hanna mörg merki félagasamtaka og stofnana, þar á meðal merki VMA.
Hann lærði myndlist í myndlistardeild og teiknideild Handíðaskólans í Reykjavík og síðan lærði hann til íþróttakennara á Laugarvatni árið 1953. Þá lá leiðin til Akureyrar þar sem kennsla var hans starfsvettvangur alla tíð.
Einar var mikill íþróttamaður. Hann var markmaður í KA og ÍBA og þjálfaði bæði liðin um tíma. Einnig þjálfaði hann knattspyrnumenn í Keflavík og á Húsavík. Auk knattspyrnunnar stundaði Einar og keppti m.a. í handbolta, frjálsíþróttum, skíðastökki og badminton. Til hliðar við íþróttirnar og hina daglegu vinnu við kennslu gaf Einar sér tíma til listsköpunar og hönnunar af ýmsum toga.