Á EM í golfi 18 ára og yngri
„Ég stefni vissulega að því að ná lengra í íþróttinni. Að loknu námi á íþróttabraut hér í VMA horfi ég til þess að fara í háskóla í Bandaríkjunum eftir ár og stunda golfið jafnframt,“ segir Arnór Snær Guðmundsson, átján ára Dalvíkingur sem þessa viku keppir ásamt fimm félögum sínum fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramóti kylfinga átján ára og yngri í Kraká í Póllandi. Í mótinu er keppt í deildum og er Ísland í annarri deild en keppir að því á mótinu að komast upp í fyrstu deild. Það er takmark sexmenninganna á mótinu en allt umfram það yrði bónus. Arnór tók einnig þátt í Evrópumótinu í fyrra.
Annar norðanmaður keppir á Evrópumótinu, Kristján Benedikt Sveinsson úr Golfklúbbi Akureyrar, sem hefur einnig verið í VMA, en hinir fjórir liðsfélagarnir eru úr golfklúbbum á höfuðborgarasvæðinu. Þeir félagarnir hittust sl. laugardag og stilltu saman strengi en í gær, sunnudag, var haldið til Póllands og í dag og næstu daga er framundan spennandi keppni við bestu kylfinga Evrópu í þessum aldursflokki.
„Evrópumótið er ekki einstaklingskeppni. Þetta er annars vegar 36 holu höggleikur og hins vegar holukeppi þar sem í riðlum eru lið á móti liði. Það er vissulega mjög gaman að taka þátt í slíku móti. Vellirnir eru öðruvísi en við eigum að venjast, fleiri sterkari andstæðingarnir og öðruvísi veðuraðstæður. Þessu fylgir ákveðinn spenningur,“ segir Arnór.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Arnór Snær lengi stundað golf. Hann rifjar upp að hafa fyrst slegið golfkúlur þegar hann var fimm ára gamall á opnu svæði fyrir neðan kirkjuna á Dalvík. Síðan lá leiðin á völlinn í landi Ytra- Garðshorns í Svarfaðardal þar sem Golfklúbburinn Hamar í Dalvíkurbyggð hefur sitt aðsetur og ófáa hringina hefur Arnór slegið þar. Leiðin hefur smám saman legið upp á við og segir hann að í fyrra hafi honum gengið mjög vel. Það kom því ekki á óvart að þessi ungi og efnilegi kylfingur skyldi vera valinn íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2016. Í ár segir Arnór að hafi ekki gengið alveg eins vel en þó hafi hann náð að verða Norðurlandsmeistari nýverið í sínum aldursflokki.
„Ég tel mig vera ágætlega undirbúinn fyrir þetta mót. Ég hef verið á stífum æfingum og síðan hef ég verið að vinna í andlegu hliðinni sem skiptir líka miklu máli. Hjalti Jónsson sálfræðingur hefur verið að segja mér aðeins til í þeim efnum og ég mun áfram vinna með honum í að styrkja þennan þátt,“ segir Arnór Snær Guðmundsson.