Á fullu í frágangi
Drjúgur verði síðasti áfanginn, segir í kvæðinu og í þeim orðum er mikill sannleikur. Í öllum frágangi þarf að vanda til verka og það er jafnan tímafrekt. Nemendur á öðru ári í húsasmíði hafa í vetur unnið hörðum höndum að því að byggja sumarhús – annars vegar tvö smáhýsi frá grunni og hins vegar stórt sumarhús sem ekki tókst að ljúka áður en Covid-faraldurinn skall á í mars í fyrra.
Öll þessi þrjú hús eru nú komin vel á veg og er búið að selja annað smáhýsanna.
Í vikunni voru nemendur að vinna á ýmsum vígstöðvum, m.a. var verið að festa loftaþiljur í stóra sumarhúsið og undirbúa klæðningu á húsinu að utan.
Sannarlega er smíði slíkra sumarhúsa afbragðs gott tækifæri fyrir nemendur að safna upplýsingum í reynslubankann. Í þessari vinnu takast þeir á við fjölmargt sem kemur þeim til góða þegar út á vinnumarkaðinn kemur.
Sem fyrr segir var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að stóra sumarhúsið yrði boðið til sölu í fyrravor. Af því gat þó ekki orðið vegna þess að Covid gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að koma frágangi hússins á söluhæft stig. Þess vegna hafa nemendur fengið það verkefni í vetur, til viðbótar við smáhýsin, að glíma við frágang sumarhússins. Til upprifjunar var þetta stóra hús reist á haustdögum 2019 eins og hér má sjá.