Fara í efni

Á fullu í undirbúningi fyrir Íslandsmót iðn- og verkgreina

Sigursteinn Arngrímsson.
Sigursteinn Arngrímsson.

Sigursteinn Arngrímsson, húsasmíðanemi á fjórðu önn í VMA, undirbýr sig þessa dagana fyrir þátttöku í Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem verður haldið í Laugardalshöllinni 13.-15. mars nk.

Sigursteinn er Egilsstaðabúi en á sínar sterku rætur á Borgarfirði eystra. Áður en hann ákvað að fara í húsasmíði tók hann eitt ár í almennu bóknámi við Menntaskólann á Egilsstöðum en síðan lá leiðin í húsasmíði í VMA. Sigursteinn segir að árið í ME nýtist honum vel því samhliða námi í húsasmíðinni taki hann einnig bóklega áfanga til stúdentsprófs.

Hann segir að smíðarnar hafi ekki blundað í honum frá blautu barnsbeini en smám saman hafi áhuginn beinst í þá átt og hann sjái ekki eftir því. Gaman sé að skapa og gera eitthvað úr hlutunum. Hann segist kunna prýðilega við sig í náminu í VMA og þá líki honum vel að búa á heimavistinni.

En hvernig kom það til að Sigursteinn ákvað að keppa á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, sem verður í næstu viku, fljótlega eftir vetrarfríið? Hann segir að kennararnir í húsasmíði hafi útnefnt fjóra nemendur sem kandídata í keppnina og þeir fjórir hafi síðan kosið sín á milli – og hann hafi verið sá sem var að lokum valinn sem fulltrúi VMA í húsasmíðinni.

Í stórum dráttum veit Sigursteinn hvað bíður hans í keppninni, það verður að smíða stiga sambærilegan við þann sem hér má sjá og hann hefur þegar smíðað. Hann segist ætla að smíða annan slíkan til þess að æfa sig enn betur. Stóra málið segir Sigursteinn er að hafa allar aðferðir á hreinu, í því felist undirbúningurinn ekki síst. Mikilvægt sé að vera búinn undir ýmsar gildrur sem kunni að verða lagðar fyrir þátttakendur.

Sigursteinn segir að vissulega finni hann fyrir smá stressi að taka þátt í Íslandsmótinu en fyrst og fremst ætli hann að njóta þess að taka þátt og hafa gaman. Hann segir gott til þess að vita að frændi hans, sem stundi nám við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, keppi einnig í húsasmíðinni. Þeir frændurnir hafi stuðning hvor af öðrum.

En hvernig lítur framtíðin út hjá Sigursteini? Að þessari önn lokinni tekur við vinnuönn þar sem reynslu verður safnað í sarpinn undir handleiðslu meistara hjá fyrirtækinu Bjarni byggir ehf. á Egilsstöðum. Hjá því starfaði hann síðastliðið sumar og þá var m.a. unnið við endurbætur á félagsheimilinu Fjarðarborg á Borgarfirði eystra. Um næstu áramót tekur síðan að óbreyttu við síðasta skólaönnin og loks brautskráning.

Íslandsmót iðn- og verkgreina verður sem fyrr mikil hátíð þar sem nemendur úr ótal iðn- og verkgreinum keppa og einnig kynna verknámsskólarnir starfsemi sína undir yfirskriftinni Mín framtíð, þar á meðal VMA. Gert er ráð fyrir að allt að 10 þúsund grunnskólanemar heimsæki Laugardalshöllina og er öllum nemendum 9. og 10. bekkjar boðið að koma og kynna sér iðn- og verknámsgreinar og framboð skólanna í þeim efnum.

Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningin Mín framtíð eru haldinn í samvinnu mennta- og barnamálaráðuneytis, sveitarfélaga og fagfélaga iðn- og starfsgreina.