Á gönguskíðum í Hlíðarfjalli
Aldrei er það of oft undirstrikað hversu holl og góð hreyfing er og skiptir þá engu hver aldurinn er. Þessa dagana er Lífshlaupið – hreyfingarátak á landsvísu í fullum gangi og því er ástæða til þess að segja frá því að í VMA er valáfangi í íþróttum/hreyfingu þar sem nemendur fara með kennara í ákveðinn fjölda útivistarferða á önninni. Einnig geta nemendur valið að fara í eina útivistarferð sjálfir í stað einnar af skipulögðu ferðunum. Núna á vorönn er vetrarútivist í forgrunni en aðstæður og veður ráða auðvitað miklu um það hvert er haldið í hvert skipti.
Farið er í útivistarferðirnar eftir að hefðbundinni stundatöflu lýkur á mánudögum. Þá hittir kennari nemedur kl. 16 við skólann og síðan er haldið af stað í einver útivistarævintýri. Þarsíðasta mánudag lá leiðin á göngusvæðið í Hlíðarfjalli þar sem nemendur reyndu fyrir sér á gönguskíðum. Nístingskalt var en nemendur létu það ekkert á sig fá og önduðu að sér fersku fjallaloftinu í um tvær klukkustundir. Fátt er betra en að bregða sér á gönguskíði. Fjölþætt hreyfing og góð og aðstæður fyrir gönguskíðafólk í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi/Naustaborgum fyrsta flokks. Margt vitlausara en að bregða sér á gönguskíði í vetrarfríinu síðari hluta vikunnar!