Á kafi í tónlist í Kaupmannahöfn
Síðastliðinn þriðjudag kom fram í frétt hér á vefnum um uppfærslu Leikfélags VMA á söngleiknum Bugsý Malón að Haukur Sindri Karlsson, kornungur og efnilegur tónlistarmaður, hefði fengið það verkefni að vinna tónlistina í sýningunni, þ.e. að spila inn þau fjölmörgu lög sem eru í sýningunni. Stórt og mikið verkefni sem Haukur Sindri segist hafa unnið að undanfarna mánuði og sé ennþá að og verði væntanlega að betrumbæta hlutina alveg fram að frumsýningu. Raunar er Haukur Sindri nú búsettur í Kaupmannahöfn þar sem hann er í tónlistarnámi í RMC – Rytmisk Musikkonservatorium – en nútíma samskiptatækni gerir það að verkum að lítið mál er að senda stóra tónlistarskrár yfir hafið.
„Ég lauk grunndeild rafiðna fyrir hálfu öðru ári. Ákvað þá að skipta til að ljúka stúdentsprófi fyrr., innritaðist á fjölgreinabraut VMA og hluti af henni var nám í Tónlistarskólanum á Akureyri, raunar var ég bara í kjarnaáföngum í Verkmenntaskólanum sem ég þurfti til stúdentsprófs. Í janúar í fyrra fór ég í fyrsta inntökuprófið í RMC hér í Kaupmannahöfn sem fólst í því að leggja fram fimm mínútur af tónlist sem ég hafði unnið og síðan var fimm mínútna hljóðblöndunarpróf. Það kom sér vel að ég hafði náð mjög góðum tökum á hljóðblöndun hjá Hauki Pálmasyni í Tónlistarskólanum á Akureyri og þessi góði grunnur dugði mér til þess að komast í aðra umferð í inntöku í skólann þar sem aðeins 18 af 111 umsækjendum komust í. Þar átti ég líka að koma með aðrar fimm mínútur af tónlist og síðan var viðtal í tíu mínútur. Bæði þessi próf voru strax í annarri og fjórðu viku janúar í fyrra, þannig að ég missti mikið af byrjuninni í VMA. Síðan þurfti ég að bíða alveg þangað til í apríl til að fá svar frá skólanum. Svarið var jákvætt og þá þurfti ég að skipuleggja flutninga til Kaupmannahafnar. Út fór ég svo 18. ágúst og skólinn byrjaði tveimur dögum síðar. Ég hafði ekki lokið náminu að fullu til stúdentsprófs í VMA, átti einungis eftir einn þýskuáfanga sem ég tók í fjarnámi á haustönn 2018 og útskrifaðist því sem stúdent frá VMA fyrir jól,“ segir Haukur Sindri.
Hann segist vera hæstánægður með námið í Kaupmannahöfn. „Það er í raun ótrúlegt að ég sé kominn á þann stað að gera á hverjum degi það sem ég elska,“ segir Haukur Sindri. Námið er til BA-prófs í því sem heitir á ensku „Music Production“. Í framhaldinu segist hann stefna á meistaranám í kvikmyndatónlist. „Mér finnst þetta frábært nám. Það er mjög frjálst og við eiginlega ráðum hvernig við stundum það. Það er að sjálfsögðu mætingarskylda í alla tíma en námið er ekki bundið við eina tegund tónlistar. Mér finnst til dæmis mjög gott að geta gert hiphop í einu verkefni og svo dramatíska, sinfóníska tónlist í því næsta. Ég er í tónsmíðum, „Music Production“, kennslufræði, hljóðfræði, „Artistic development“ og einnig er ég í áfanga er snýr að viðskiptahlið tónlistar,“ segir Haukur Sindri og bætir við að hann kunni mjög vel við sig í Kaupmannahöfn. „Borgina þekki ég reyndar mjög vel, því hér hef ég verið með annan fótinn vegna þess að móðir mín hefur búið hér síðustu tíu ár. Sem stendur bý ég hjá henni en fer síðar í eigin íbúð.“
Haukur Sindri segir það sannarlega hafa hjálpað sér í náminu og við að komast inn í skólann að hafa grunninn í rafmagninu úr grunndeild rafiðna. „Mikið af hljóðfræði er að miklu leyti bara einföld rafmagnsfræði sem ég hef nú þegar lært. Ég er búinn að fikta við tónlist frá því ég var 12 ára og taldi mig vera nokkuð flinkan í því. Síðan fór ég í Tónlistarskólann á Akureyri og hann tók mig gjörsamlega á næsta þrep, ef ekki þarnæsta þrep. Kennslan þar er ótrúlega góð og í takti við tímann,“ segir Haukur Sindri.
Það er ekki lítil mál að vinna öll lögin í Bugsý Malón fyrir Leikfélag VMA en Haukur Sindri segir það fyrst og fremst skemmtilegt. „Þetta verkefni felur aðallega í sér að hlusta á upprunalegu tónlistina og spila hana alla upp á nýtt. Síðan er ég alltaf tilbúinn á hliðarlínunni ef þarf að breyta tóntegundum eða bæta við lögum. Þar sem ég hef ekki beinan aðgang að sinfóníuhljómsveit eða blásturssveit, þá notast ég mikið við "sample libraries" í þessu verkefni, sem eru hljóðfæri tekin upp í heimsklassa stúdíóum, í þeim tilgangi að aðrir geti spilað þau í tölvum, yfirleitt með hljómborði sem er tengt við tölvuna. Blásturshljóðfæri, strengi, píanó, bassa og trommur spila ég því sjálfur á hljómborðið mitt og einnig tek ég upp alla gítara.“
Eins og að framan greinir hefur Haukur Sindri verið í tónlist frá unga aldri og hann er ötull við að senda frá sér lög. Á tónlistarveitunni Spotify er hægt að finna hann sem Hauk Karls. „Ég vinn mína tónlist mest í tölvu, einnig er ég í edm-dúóinu Aquariion með Kidda Kalla vini mínum. Einnig hef ég verið að semja kvikmyndatónlist fyrir stuttmyndir, t.d. er ég að vinna tónlist fyrir stuttmynd sem Pétur Guðjóns er að gera og sömuleiðis samdi ég tónlist um daginn við stuttmynd fyrir nemanda í Kvikmyndaskólanum,“ sagði Haukur Sindri. En hver eru framtíðaráform hans? „Bara að skapa mér nafn sem tónskáld og pródúser. Ég stefni á toppinn,“ segir Haukur Sindri Karlsson.