Á lokaönn í hársnyrtiiðn og hefur nú þegar lokið sveinsprófi
Dagný Anna Laufeyjardóttir, sem er á síðustu önn í námi í hársnyrtiiðn í VMA, hefur brotið blað í leið að settu marki. Þrátt fyrir að hafa ekki lokið skólahluta námsins, sem hún gerir við brautskráningu í maí nk., er hún þegar búin að ljúka sveinsprófi í hársnyrtiiðn. Það gerði hún 15. febrúar sl. og þurfti til þess sérstaka undanþágu.
Dagný Anna er fædd og uppalin á Húsavík. Hún var í einn vetur í Framhaldsskólanum á Húsavík en haustið 2016 lá leiðin lá í hársnyrtiðn í VMA, sem kom ekki á óvart því strax þegar Dagný var lítil stelpa kom í ljós áhugi hennar á að greiða hár og snyrta.
Í árslok 2017, að loknum þremur önnum í hársnyrtiiðninni, varð árs uppihald á náminu og fór Dagný þá að leita fyrir sér með að komast á samning og nýta þannig tímann vel. Hún segist hafa dottið í lukkupottinn með að fá samning hjá Elínu (Ellu) Sigurðardóttur í Háriðjunni á Húsavík, þar sem hún starfaði í eitt ár, frá desember 2017 til ársloka 2018. Áfram hélt Dagný náminu í VMA í ársbyrjun 2019. Áskilinn samningstími er 72 vikur og því vantaði enn nokkuð upp á að Dagný hefði lokið þeim tíma á stofu. Á vorönn 2019 bauð Hulda Hafsteinsdóttir, hársnyrtimeistari á Medullu á Akureyri, Dagnýju að ljúka samningstímanum á Medullu. Því góða boði tók hún og kláraði þar samningstímann. Reyndar er hún enn að vinna á Medullu með skólanum.
Að samningstímanum loknum taldi Hulda að Dagný væri tilbúin að fara beint í sveinspróf og það varð úr að hún fékk undanþágu til þess að þreyta það. Undanþáguna þurfti hún vegna þess að hún hefur ekki lokið náminu í VMA með formlegum hætti, sem fyrr segir, hún er núna á síðustu önn í náminu og útskrifast í vor. Bóklega hluta sveinsprófsins fékk Dagný að taka í Malaga á Spáni þegar hún var þar í febrúar sl. í námsferð ásamt samnemendum sínum sem eru að útskrifast í hársnyrtiiðn í vor frá VMA og kennurum. Verklega sveinsprófið, sem er í sjö hlutum, gekk að óskum og meira að segja fékk Dagný 10 í einkunn fyrir greiðslu. Hún var ein af fimm sem þreyttu verklega sveinsprófið 15. febrúar sl. í húsnæði hársnyrtideildarinnar í VMA. Hún segir að vissulega hafi tekið á að fara í prófið og viðurkennir að hún hafi ekki sofið mikið síðustu næturnar fyrir prófið. En engu að síður hafi það gengið ljómandi vel. Því þakki hún mikinn og markvissan undirbúning og stuðning Huldu Hafsteinsdóttur og kennaranna Hildar Salínu Ævarsdóttur og Hörpu Birgisdóttur. Allar hafi þær stutt sig og búið sem best undir prófið. „En ég get alveg viðurkennt að ég er enn að átta mig á þessu og jafna mig. Ég var í miklu spennufalli daginn eftir prófið, á 21 árs afmælisdaginn minn,“ segir Dagný Anna.
En hvað ber framtíðin í skauti sér? Dagný segist ekki geta svarað því nákvæmlega á þessu stigi. Núna sé verkefnið að ljúka þessari síðustu önn í VMA og vinna á Medullu. Síðan hafi hún áhuga á því að læra förðun, það geti komið sér mjög vel að hafa þekkingu í bæði hársnyrtiiðn og förðun til þess að starfa í leikhúsi, sem hún geti alveg hugsað sér einhvern tímann. Hún hafi komið að leiksýningum bæði hjá Leikfélagi Húsavíkur og Leikfélagi VMA – Litlu hryllingsbúðinni og Ávaxtakörfunni – og leikhúsið sé áhugaverður og heillandi heimur.