Á lokasprettinum fyrir próf
Það hefur verið í mörg horn að líta fyrir nemendur í öllum deildum VMA síðustu daga enda haustönnin nú brátt á enda - síðasti kennsludagur er í dag, föstudag. Allir þurfa að ljúka við sín verkefni áður en önnin er á enda og því hafa nemendur keppst undanfarna daga við að ljúka öllu sem þarf að ljúka áður en prófin hefjast. Gott dæmi um þetta er í verknámsdeildunum. Í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina voru nemendur í óða önn við að ljúka sínum smíðaverkefnum - sem annars vegar er kollur og hins vegar trappa.
Og það sama var uppi á teningnum í grunnnámi málm- og véltæknigreina. Hér má sjá þau verkefni sem nemendur á fyrstu önn hafa verið að vinna að og koma til mats kennara núna í desember. Fljótt á litið kann þetta að sýnast einföld smíði, en svo er alls ekki. Hér eru margir og ólíkir vinnuþættir sem koma til mats kennara.