Á lokasprettinum í sjúkraliðanum
Nemendur eru nú á lokaspretti þessarar vorannar, nóg er að gera þessa dagana við að ljúka við öll verkefni og síðan taka prófin við strax í næstu viku. Námið á sjúkraliðabraut er bæði bóklegt og verklegt og til þess að geta útskrifst sem sjúkraliði þarf að vinna ákveðinn fjölda vakta á heilbrigðisstofnunum. Þær stöllur Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir og Rakel Anna Knappett frá Akureyri og Ingibjörg Ósk Helgadóttir frá Keflavík munu einmitt að útskrifast sem sjúkraliðar í næsta mánuði frá VMA.
Bergþóra Heiðbjört mun samhliða brautskráningu sem sjúkraliði ljúka stúdentsprófi, en áður hafði hún tekið sitt fyrsta framhaldsskólaár í MA og síðan fór hún í VMA haustið 2012 og útskraðist af íþróttabraut. Síðan lá leiðin í sjúkraliðanámið. Samhliða bóklega náminu í VMA hefur hún að undanförnu tekið vaktir á Grenihlíð á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. „Í sumar mun ég starfa á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri og vonandi get ég fengið að vinna á fleiri deildum sjúkrahússins til þess að afla mér góðrar reynslu. Og ég geri einnig ráð fyrir að vinna eitthvað á Hlíð.“
Rakel Anna útskrifaðist stúdent af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Tröllaskaga desember 2012 og tók sér hlé frá námi áður en hún ákvað að skella sér í sjúkraliðanám í VMA. Meðal annars starfaði hún á öldrunarheimilum, bæði á Hornbrekku í Ólafsfirði og Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, þar sem hún er nú fastráðin í 70% starfi. „Ég var alltaf ákveðin í að fara í eitthvað heilbrigðistengt nám en hafði ekki mótað frekar hvaða nám. Sjúkraliðinn varð síðan ofan á,“ segir Rakel Anna.
Ingibjörg Ósk byrjaði einnig í VMA haustið 2014. Hún starfaði á öldrunarheimili í sínum heimabæ, Keflavík, sl. sumar og sem stendur er hún í 60% starfi á Kristnesi. „Ég mun í framhaldinu af útskriftinni í lok maí halda áfram að vinna á Kristnesi og þegar kemur til sumarlokunar þar mun ég starfa á skurðlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Svo sé ég bara til,“ segir Ingibjörg Ósk.
„Námið er fjölbreytt. Við lærum umönnun frá ýmsum hliðum og ýmislegt varðandi hjúkrun, sjúkdómafræði, lyfjafræði og fleira. Námið erí öllum meginatriðum í takti við það sem við bjuggumst við,“ segja þær stöllur.
Til þess að geta útskrifast sem sjúkraliðar þurfa nemendur að hafa tekið 80 8 tíma vaktir á heilbrigðisstofnunum. Einnig taka nemendur á námstímanum þrjár þriggja vikna verklegar námslotur á heilbrigðisstofnunum, bæði öldrunarstofnunum og ýmsum deildum sjúkrahúsa og einnig kynnast nemendur heimahjúkrun.