Á námskeiði í Færeyjum á vegum FING-verkefnisins
Þessa dagana eru Vilhjálmur G. Kristjánsson og Jóhann Björgvinsson, kennarar við VMA, í Færeyjum þar sem þeir sitja námskeið í gæðastjórnun og skjalagerð varðandi öryggisfræðslu fólks til starfa við auðlindanýtingu á norðurslóðum. Námskeiðið er hluti af norrænu verkefni - FING sem VMA tekur þátt í. FING vísar til upphafsstafa þátttökulandanna, Færeyja, Íslands, Noregs og Grænlands, og tekur til samstarfs landanna á ýmsum sviðum sem tengjast tæknimenntun, öryggismálum o.fl.
Auk VMA taka þátt í verkefninu Stavanger offshore tekniske skole, tækniskóli í Stavanger í Noregi sem leiðir verkefnið, KTI í Sisimiut (Greenland School of Minerals and Petrolium) og Vinnuháskúlin í Þórshöfn.
Þegar FING-verkefnið hófst var áherslan meiri á olíuiðnaðinn en núna er hún meiri á öryggismál frá ýmsum hliðum. Vilhjálmur G. Kristjánsson og Jóhann Björgvinsson hafa þegar sótt námskeið í Noregi innan FING-verkefnisins í tengslum við stroffur og hífingar. Námskeiðið í Færeyjum er framhald á því.
Vilhjálmur segir að þetta FING-verkefni sé í raun mikil áskorun fyrir VMA og aðra sem að þessu koma. „Það er mjög mikilvægt fyrir þjóðir hér á norðurslóðum að vinna saman, ekki síst þegar kemur að verkefnum eins og nýtingu málma í jörðu og olíu- og gaslinda á hafsbotni. Það má segja að þetta sé vel heppnuð samvinna og þróun í skólastarfi sem skilar okkur miklu í þjáfun og menntun til ábyrgrar nýtingu auðlinda,“ segir Vilhjálmur G. Kristjánsson.
Auk fulltrúa VMA sitja námskeiðið fulltrúar frá skólunum á Grænlandi og í Færeyjum. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Inge Rune Bøe frá SOTS Course Centre sem er hluti af Stavanger offshore tekniske skole í Stavanger í Noregi.