Á þriðja tug málmsuðunámskeiða frá 2013
Frá árinu 2013 hafa Kristján Kristinsson og Stefán Finnbogason, kennarar á málmiðnbraut VMA, kennt málmsuðu á námskeiðum fyrir SÍMEY. Til námskeiðahaldsins fær SÍMEY aðstöðu í húsakynnum málmiðnbrautar þar sem öll tæki og tól eru til staðar og Kristján og Stefán eru hagvanir.
Frá 2013 hafa þeir félagar verið með á þriðja tug námskeiða og frá byrjun hefur verið uppbókað á öll námskeið og jafnan einnig verið biðlistar. Augljóslega er því rík spurn eftir að læra málmsuðu. Sumir fara á þessi námskeið fyrst og fremst sér til óblandinnar ánægju, aðrir læra málmsuðu til þess að nýta kunnáttuna í eitt og annað heima í bílskúr en einnig eru alltaf einhverjir sem fara í gegnum þessi námskeið til þess að styrkja sig í starfi á vinnumarkaði.
Á hverju námskeiði er ein suðuaðferð kennd og á námskeiðinu sem hefur verið á þessari vorönn og lauk sl. laugardag hefur verið kennd MIG-MAG suða. Pinnasuða er kennd á öðru námskeiði og TIG-suða á því þriðja.
Þessi námskeið eru 80 klukkustundir og er kennt fjórum sinnum í viku, fjórar klukkustundir í senn. Sem þýðir með öðrum orðum að námskeiðsdagarnir eru tuttugu. Á þessari önn hefur verið kennt þrjá eftirmiðdaga, á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum, og einnig á laugardögum.
Núna á vorönn hófst kennslan undir lok janúar og námskeiðinu lauk, sem fyrr segir, sl. laugardag. Þessar myndir voru teknar sl. fimmtudag.
Hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði er tíu sem helst í hendur við fjölda vinnubása fyrir suðuvinnuna. Kristján kennari segir að alltaf hafi verið biðlisti á námskeiðin og oftar en ekki sé það svo að þeir sem sitja námskeiðin skrá sig strax á næsta námskeið. Og mörg dæmi séu um að þeir áhugasömustu sitji öll þrjú suðunámskeiðin.
Kristján segir ánægjulegt að geta nýtt aðstöðuna í VMA á þennan hátt utan skólatíma og gefið þannig áhugasömum kost á því að sækja sér þessa þekkingu. Á námskeiðinu sem nú hafi verið að ljúka hafi hver þátttakandi smíðað tvo útikertastanda.
En þetta er ekki eina námskeiðið sem SÍMEY býður reglulega upp á í húsakynnum VMA. Einnig er Fab Lab Akureyri með námskeið fyrir alla sem áhuga hafa að læra og nýta sér þá stafrænu tækni sem Fab Lab býður upp á.