Á VMA mikið að þakka
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir er Húnvetningur. Við fæðingu var henni, ef svo má að orði komast, úthlutað kyninu strákur og skírð Valur Stefán. Að loknum Húnavallaskóla lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri og eftir að hafa lokið tveimur árum þar innritaði Ugla sig í náttúrufræðibraut VMA. Þetta var haustið 2009. Mörgum árum áður hafði hún samt sem áður vitað að hún væri kona, eins og hún segir frá í þessu blaðaviðtali.
„Ég ákvað að taka fyrstu stóru skrefin á þessari haustönn 2009 í VMA. Ég fór á fund Ásdísar Birgisdóttur námsráðgjafa og hún hjálpaði mér að taka næstu skref. Síðan fór boltinn að rúlla. Um áramótin ákvað ég að koma út úr skápnum. Ég sendi póst á skólayfirvöld og óskaði eftir að verða skráð í skólann á vorönn sem Ugla Stefanía og upplýsti að ég væri að hefja kynleiðréttingarferli. Ég er skólayfirvöldum og öllum starfsmönnum þar sem og samnemendum mínum ævarandi þakklát fyrir hversu jákvætt og vel var tekið á mínum málum, enda leggur skólinn svo mikið upp úr því að öllum líði vel í skólanum. Ég fór síðan í nemendaráð skólans og var þar í hálft annað ár sem kynningarfulltrúi, ritari og í lokin sem varaformaður. Þessi þátttaka mín í félagsmálum jók sjálfstraust mitt verulega og styrkti mig á allan hátt og ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri,“ segir Ugla Stefanía.
Hún segir ekki leyna því að sér þyki afar vænt um um VMA og starfsmennina þar sem hafi á allan hátt stutt sig og hvatt í því stóra skrefi sem hún tók í lífinu þegar hún var þar. VMA eigi hún því mikið að þakka. Af þeim sökum vilji hún hvetja alla þá eldri nemendur skólans sem hafa tök á að leggja Hollvinasamtökum VMA lið og greiða valkröfur sem þeir hafi fengið sendar.
Eftir VMA fór Ugla Stefanía í háskólanám í félags- og kynjafræði og núna er hún í meistaranámi í kynjafræði og stefnir að því að ljúka því næsta vor. Hún hefur starfað mikið fyrir Samtökin 78, Trans-Ísland og einnig hefur hún látið að sér kveða erlendis í málefnum transfólks.
Hér er áhugavert viðtal, tveggja ára gamalt, við Uglu Stefaníu á vefritinu Blaer.is og hér heldur Ugla Stefanía fyrirlesturinn „Moving Beyond the Binary of Sex and Gender“ á ráðstefnunni TEDxReykjavík í maí sl.