Að hafa hendur í hári
Ein af þeim námsbrautum sem boðið er upp á í VMA er hársnyrtiiðn og er ein stofa í skólanum útbúin með tækjum og tólum sem þarf til kennslu á brautinni. Þegar litið var inn í kennslustofuna var Hildur Salína Ævarsdóttir að kenna nemendum á annarri önn eða öðrum bekk klippingu.
Eins og vera ber er nám í hársnyrtiiðn fjölbreytt. Námið tekur fimm annir í skóla og þar að auki er krafist 72ja vikna starfsþjálfunar á vinnustað. Markmiðið er að gera nemendur færa um að veita alhliða þjónustu sem býðst á hársnyrtistofum. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs. Eingöngu eru teknir inn 13 nemendur á ári og ganga þeir fyrir sem hafa lokið almennum greinum og/eða hafa námssamning. Nánari upplýsingar um námið er unnt að nálgast hér.
„Núna á vorönn eru tólf nemendur í öðrum bekk, sem við köllum svo og aðrir tólf í fjórða bekk. Við leggjum á það áherslu að nemendur hafi tekið bóklegan grunn áður en þeir eru teknir inn í hársnyrtinámið, best er ef þeir eru búnir með tvo vetur í framhaldsskóla. Við reynum eins og kostur er að búa nemendur sem best undir það að fara á námssamning. Við gerum ríkar kröfur um mætingu, enda er það svo að við tökum samfelldar lotur í einu verklegu fagi og ef nemendur missa af þeim kafla í náminu lenda þeir einfaldlega á eftir, “ segir Hildur Salína Ævarsdóttir, kennari.
Þessi námsbraut virðist fyrst og fremst höfða til stúlkna, því nú er enginn strákur í þessum hópi. „Þetta er í annað skipti sem er strákalaus bekkur, sem er miður. Einu sinni voru þrír strákar í einum hópi,“ segir Hildur Salína.
Nemendur í hársnyrtiiðn í VMA koma alls staðar að af landinu. Ein af nemendunum í öðrum bekk er Ísey Jörgensdóttir frá Reyðarfirði. Hún er 18 ára. „Mig langaði einfaldlega að prófa eitthvað nýtt. Ég var ekki alveg viss þegar ég skráði mig í þetta nám í VMA, en eftir fyrstu tímana var ég alveg viss, þetta vildi ég læra. Ég er mjög sátt við námið og skólann. Ég kom hingað haustið 2011 og var sl. vetur í bóklegu námi, en byrjaði síðan sl. haust í hársnyrtiiðninni. Af einstaka greinum finnst mér klippingin skemmtilegust,“ segir Ísey.
Unnur Inga Kristinsdóttir er 24 ára og býr á Akureyri, raunar er hún uppalinn í Hrísey, sem nú er hluti af Akureyrarbæ. „Ég tók stúdentspróf hér í VMA að loknum grunnskóla og síðan eignaðist ég barn. Er sem sagt komin aftur á skólabekk og líkar það vel. Raunar fór ég í píparann og á bara eftir eina námsönn og samning til þess að klára það nám. Veit ekki hvort ég geri það, en það er engu að síður ágætt að hafa innsýn í það sem pípulagningamenn gera. Ég get í það minnsta bjargað mér með ýmislegt heima. Það má kannski segja að ég hafi verið meira og minna í drullugallanum í gegnum árin í Hrísey, en mig langaði að komast úr honum og niðurstaðan var hársnyrtiiðn. Ég sé ekki eftir því. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi. Enn sem komið er finnst mér klipping og hárlitun áhugaverðust í náminu. Í jólatörninni í desember bauðst mér að aðstoða á Funky Hárbúllu hér á Akureyri og í framhaldinu var mér boðið að vinna hjá þeim á föstudögum með skólanum,“ segir Unnur Inga.
Ólöf Sigurðardóttir er Grindvíkingur, en fjölskylda hennar er nýlega flutt á Flúði. „Ég hafði áhuga á því að prófa nýtt umhverfi og jafnframt langað mig að fara á heimavist. Og það varð úr, þegar ég fór að skoða málið, að hér gat ég sameinað það að búa á heimavist og fara í hársnyrtinám. Ég þurfti ekki að hugsa mig um, enda hefur Akureyri alltaf heillað mig. Þetta er þriðja árið mitt hér í skólanum, ég byrjaði á því að taka bóklega hlutann. Mér finnst þetta virkilega skemmtilegt og hópurinn er mjög fínn. Held bara að þetta sé það skemmtilegasta sem ég hef upplifað,“ segir Ólöf, en hún kynntist kærasta sínum, sem er útskrifaður bifvélavirki úr Mývatnssveit, á heimavistinni. „Eins og staðan er núna stefni ég að því að starfa við þetta fag í framtíðinni og auðvitað er draumurinn að opna eigin stofu,“ segir Ólöf.
Á meðfylgjandi mynd eru ellefu af tólf nemendum í öðrum bekk í hársnyrtiiðn ásamt kennaranum Hildi Salínu Ævarsdóttur, sem er lengst til vinstri á myndinni.